Rithöfundur sest við flygilinn

Bill Holm, píanó

Bandaríski rithöfundurinn Bill Holm settist við flygilinn á Gljúfrasteini 22. júlí 2007. Hann var löngum vinsæll sem ræðumaður og lesari og kryddaði gjarnan uppákomurnar með því að spila á píanó inn á milli. Bill Holm lést í febrúar 2009, 65 ára að aldri.

Flest verkin sem hann spilaði eru samin eða útsett fyrir vinstri höndina eina, en Bill hafði yndi af því að safna og æfa slík verk. Bill Holm fæddist árið 1943 í Minneota, Minnesota, þar sem íslenskir vesturfarar settust snemma að, en afar hans og ömmur fæddust öll á Íslandi. Tónlist var ávallt hans mesta ástríða, en ævistarfi sínu og sköpun fann hann farveg á sviði bókmenntanna. Hann kenndi bókmenntir í deild við Minnesota Háskóla sem staðsett er nærri Minneota, þar sem hann bjó síðustu áratugi. Bill var bæði ljóðskáld og „esseyisti“ og gaf út tólf bækur í bundnu og óbundnu máli. Í skrifum sínum kemur hann gjarnan inn á sögu forfeðranna í Vesturheimi, eða lýsir eigin reynslu af Íslandi, sem hann hefur oft heimsótt. Síðastliðin sumur bjó hann á Hofsósi og fékkst við skriftir í Brimnesi, litlu húsi sínu við höfnina. Í ritgerðinni „The Music of Failure“ („Auðnuleysishljómkviðan“, í þýðingu Ísaks Harðarsonar sem birtist í Skírni 1997) lýsir Bill því þegar hann barnungur heyrði fyrst í píanói hjá Pauline Bardal, fátækri íslenskættaðri vinnukonu á næsta bæ, og hvernig ást hennar á tónlist hvatti hann og hélt honum við æfingar æ síðan.