Róm verkar svona á mig

Halldór Laxness og Auður Sveinsdóttir Laxness koma til Stokkhólms í desember 1955 til þess að taka við Nóbelsverðlaununum í bókmenntum.

Um áratuga skeið var Róm uppáhaldsáfangastaður Halldórs Laxness, eins og sjá má af þeim fjölda bréfa sem hann sendi þaðan. Halldór Laxness ferðaðist vítt og breitt um heiminn þar sem hann dvaldi langdvölum við skriftir. Meðal borga og bæja erlendis má nefna Kaupmannahöfn, Stokkhólm, London, Leipzig, París, Taormina á Sikiley, Lúxemborg, Lugano í Sviss, Barcelona, Moskvu, Los Angeles og Salt Lake City. Um áratuga skeið var Róm uppáhaldsáfangastaður hans, eins og sjá má af þeim fjölda bréfa sem hann sendi þaðan. Það var ekki að ástæðulausu að hann kom þar oft á ferðum sínum um heiminn eins og lesa má út úr bréfi sem hann ritaði Auði, konu sinni, hinn 9. apríl árið 1971 frá Zürich. Þar segir: „Oft hef ég komist á stað með nýtt verkefni í Róm, þó ég hafi ekki staðnæmst þar nema nokkra daga, t. d. byrjaði ég Gerplu í Róm, og Innansveitarkróniku byrjaði ég þar tvisvar, þó með 4ra ára millibili; seinni gerðina byrjaði ég þar 25. okt. 1969. Róm verkar altaf einhvernveginn svona á mig.“