Íslandsklukkan

Íslandsklukkan 1943

Íslandsklukkan kom út í þremur hlutum á árunum 1943-46 er Ísland var að öðlast sjálfstæði undan Dönum og kvað hér við nýjan tón á ferli Halldórs Laxness.

Halldór tók nú að ræða við samtíð sína með því að rita sögulega skáldsögu og í verkinu lýsir hann öllu utan frá, útskýrir aldrei hvað persónum býr í huga, lætur þær lýsa sér með orðum sínum en beitir einnig umhverfislýsingum markvisst í því skyni. Íslandsklukkan var fyrsta bók Halldórs Laxness sem naut almennrar hylli hér á landi.

Halldór Laxness styðst mjög við sögulegar heimildir í Íslandsklukkunni og víkur í engu frá sögulegum staðreyndum svo stingi í augu, þótt hann túlki fortíðina á sinn hátt, sveigi hana undir lögmál skáldskaparins. Aðalpersónur Íslandsklukkunnar eiga sér allar sögulegar fyrirmyndir en kveikjan að henni er bréf sem Jón Helgason prófessor í Kaupmannahöfn sýndi Halldóri árið 1924. Bréfið sendi Jón Hreggviðsson Árna Magnússyni handritasafnara árið 1708 þar sem hann lýsir glímu sinni við réttvísina. Jóni varð það á að stela snæri og má segja að sagan greini frá því hvernig valdið rís einstaklingi yfir höfuð. Snæfríður Íslandssól, dóttir Eydalíns lögmanns, heldur fram heiðri landsins; hann er það sem allt snýst um. Hún sjálf skiptir ekki máli ef sómi lands og ættar er í húfi. Arnas Arnæus handritasafnara er hægt að túlka sem harmsögulega hetju: hann svíkur það sem honum er kærast til að öðlast það sem hann sækist eftir - en glatar því engu að síður. Jón er mest áberandi í fyrsta bindinu, Íslandsklukkunni, í Hinu ljósa mani beinist kastljósið að Snæfríði og Arnas er í aðalhlutverki í Eldi í Kaupinhafn.

Fleyg orð

„Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann? Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Fari í helvíti sem ég drap mann. Og þó."
(Íslandsklukkan. 17. kafli. Jón Hreggviðsson.)

„Mávera sigraðri þjóð sé best að útþurkast: ekki með orði skal ég biðja íslenskum vægðar. Vér íslenskir erum sannarlega ekki ofgóðir að deya. Og lífið er oss laungu einskisvert. Aðeins eitt getum vér ekki mist meðan einn maður, hvortheldur ríkur eða fátækur, stendur uppi af þessu fólki; og jafnvel dauðir getum vér ekki verið þess án; og þetta er það sem um er talað í því gamla kvæði, það sem vér köllum orðstír ..."
(Eldur í Kaupinhafn. 10. kafli. Snæfríður Íslandssól.)

„En þegar á íslandsströnd eru risnir þýskir fiskibæir og þýsk kauptún, hve leingi mun þess að bíða að þar rísi og þýskir kastalar með þýskum kastalaherrum og málaliði. Hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur? Þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima."
(Eldur í Kaupinhafn. 13. kafli. Arnas Arnæus.)