Hvernig verður listaverk til? Mest öll hugsun manna um listir hefur snúist um þessa spurningu á einn eða annan hátt. Og ýmsar kenningar hafa orðið til. Sú frægasta en jafnframt óljósasta um innblásturinn en sú jarðbundnasta um að þetta væri endalaust strit og yfirlega. Í megindráttum höfum við því haft tvær myndir af listamanninum; snillinginn sem hefur af lítilli áreynslu skapað ódauðleg verk úr hugardjúpum sínum og vinnuþjarkinn sem hefur hins vegar mátt sitja við lon og don. Þessar tvær myndir hafa verið misáberandi eftir tímabilum og stundum hafa þær runnið saman í eitt.
Hugmyndin sem við höfum haft um sköpunarferli Halldórs Kiljans Laxness er ofin saman úr báðum þessara þátta, og það ekki að ástæðulausu. Snilligáfan lýsir auðvitað af verkunum og kannski hefur sumt í fari hans og háttum ýtt undir snillingsímyndina. Í viðtölum við fjölmiðla lét hann stundum í það skína að ekki færi mikill tími í skrifin. Það hafi hins vegar aldrei liðið sá dagur að hann hafi ekki farið í langan göngutúr. Skáldskaparviðhorf hans byggjast líka á þeirri grunnhugmynd að höfundurinn sé miðlægur í hverju hugverki, að hann skapi verkið af ímyndunarafli sínu, þekkingu sinni og reynslu. En hann vann líka á móti þessari ímynd, og sennilega miklu frekar. Tilsvar hans um að hann hafi aldrei misst úr máltíð á ævi sinni er minnisstætt og var beinlínis stefnt gegn hinni rómantísku hugmynd að skáldsnillingar þyrftu að svelta til að geta skrifað eitthvað af sannri tilfinningu og viti. Við höfum líka séð fjölmargar myndir af Halldóri önnum köfnum við skrifpúltið. Og við höfum heyrt hann segja frá glímunni við erfiðar bækur. Gerplu var hann til dæmis, að eigin sögn, á sjötta ár að skrifa og, eins og fram kom í sjónvarpsviðtali við hann, komu þá tímabil sem hann vann aldrei minna en sextán tíma á sólarhring. Í samtalsbók Matthíasar Johannessen og Halldórs, Skeggræðum gegnum tíðina, segir Halldór ennfremur: „Sumir fá þetta allt í einu innblásturskasti og skrifa allt sem andinn inngefur þeim, en ég verð að kaupa allt dýru verði. Samt ætla ég ekki að skrifa aðra bók eins og Gerplu. Ég er fullsaddur af því.“ Þegar vinnubrögð Halldórs eru skoðuð nánar kemur raunar í ljós hnýsileg mynd af manni sem beitti sig hörðum aga, var reglusamur og sískrifandi hvar sem hann kom, ef ekki beinlínis í sögur sínar þá á glósubækur sem hann bar ætíð á sér.
Halldór skrifaði sína fyrstu bók, Börn náttúrunnar, í Reykjavík, sennilega að mestu leyti á Landsbókasafninu við Hverfisgötu þegar hann var á sautjánda ári og átti að vera að lesa pensúmið sitt í Menntaskólanum í Reykjavík, en á því hafði hann litla trú. Í endurminningaróman sínum, Sjömeistarasögunni, lýsir hann því þegar hann sagði föður sínum hvernig ástatt væri um skólalærdóm sinn, sem allur var í skugga mikils skáldadraums sem var um það bil að rætast:
„Þá sagði ég föður mínum einsog var, [...]: hver stund sem ég hafði aflögu, og líka margar sem ég skólans vegna hafði ekki efni á að glata, fóru í sjömeistarasögu mína, Barn náttúrunnar; afgángurinn fór í að lesa bækur á Landsbókasafni, óskyldar skólanum, sem ég ímyndaði mér að gerðu mig skáld og rithöfund. Nú var svo lángt komið, sagði ég, að bók mín var byrjuð að rísa, og þegar ég væri búinn að fara yfir drafið einu sinni enn, mig minnir í fjórða sinni, færi hún að slaga hátt uppí Eldinguna eftir Torfhildi Hólm, skáldkonu sem ég hafði frá bernsku sett mér það markmið að skrifa betur en hún.“
Fyrsta bókin varð sem sagt til í Reykjavík eftir vandlegan yfirlestur og sjálfsagt uppskriftir. Hver stund aflögu var notuð, jafnvel þeir tímar sem ekki mátti missa við skólalærdóminn – nauðsynlegur lestur góðra bókmennta gleymdist samt ekki. Strax í upphafi var staðfestan orðin slík, vinnusemin, vandvirknin og viljinn til að læra af því sem best hafði verið gert. Í stað þess að ljúka andlausu námi í staðreyndatali og þvílíku við Menntaskólann hélt Halldór út í heim til að menntast af sjálfum sér, af því að reyna og sjá hlutina sjálfur. Og þannig hélt hann áfram að menntast og safna í sagnabelginn alla tíð, aðallega erlendis sem ungur maður en síðan fyrst og fremst með því að heimsækja íslenska alþýðu í sveitum og bæjum, á rölti að skrafa við landslýðinn, eins og hann segir sjálfur í Skáldatíma.
Í þeirri bók segir Halldór frá því hvernig hann viðaði að sér hráefni í persónu Ólafs Kárasonar:
„Ég byrjaði árið 1935 að læra til hans, safna efni og undirbúa sögu hans í drögum og lauk verkinu Heimsljós 1940. Til að glöggva mig á mynd persónunnar vitjaði ég flestra þeirra staða sem skáldið var teingdur meðan hann lifði í holdinu, því umhverfið er partur persónuleikans og öfugt. Ég skoðaði leiksvið hans, talaði við fólk sem haft hafði áhrif á hann og hann á það. Þessir staðir voru flestir á Vestfjarðakjálkanum nema kirkjugarðurinn og tukthúsið í Reykjavík. [...] Loks fór ég uppá Eyafjallajökul síðla vetrar og lá þar í tjaldi til að hafa fyrir augum þann stað þar sem sjálf mitt samsamaðist loftinu í einu éli. Ekkert afl milli himins og jarðar hefði getað dregið mig útí skíðagaungur og útilegur á jöklum nema þetta skáld.“
En hvers vegna að æða út í sveitir, upp á heiðar og jökla að heimsækja óbreyttan almúgann? Halldór svarar því óbeint í sömu bók:
„Ég kann ekki önnur svör en þrástagast á þeirri reynslu minni að sá sem er skáldsagnamaður að náttúru og þálfun glati hæfileik sagnfræðíngsins til að gera mun á frægum mönnum og ófrægum í riti. Sé skáldsaga ósvikin er þar ekki farið í manngreinarálit.“
Eins og margir hafa vafalaust tekið eftir við lestur bóka Halldórs skrifaði hann líka mikið upp til sveita – og erlendis. Þetta segist hann hafa gert til að „losna við daglegt argaþras heimafyrir og ótal staðbundnar skyldur einsog geingur, í von um að geta einbeitt sér að verkefni.“ Fyrstu bók Heimsljóss skrifaði (lauk?) Halldór til dæmis á ferðalagi til Suður-Ameríku, haustið 1936. Í Skáldatíma segir Halldór að nóg hafi verið við að vera í skipinu á leiðinni en á því voru rithöfundar á leið til skáldaþings í Búenos Aires:
„[...] og margir höfðu ærið að vinna að skifta um föt allan daginn milli þess sem þeir spókuðu sig hver fyrir öðrum við máltíðir og leiki. Það sem einkum gladdi hug minn var hinn ágæti skrifsalur á efri þiljum. [...] Ég var í hópi þeirra höfunda sem notuðu þetta kærkomna tækifæri til vinnu, og var kominn ofan snemma á mornana og lét ekki staðar numið fyren ég var örmagna nær kvöldi og tími kominn til að fara í smókíng til kvöldborðsins.“
Aðra bók Heimsljóss skrifaði Halldór í Moskvu, veturinn 1937-38, þá þriðju á Laugarvatni og Þingvöllum, síðsumars 1939 og þá fjórðu og síðustu í Reykjavík og nágrenni, veturinn 1939-40. Að sögn Halldórs Guðmundssonar bókmenntafræðings sem vinnur nú að rannsókn á verkum Halldórs Laxness fyrir fjórða bindi Íslensku bókmenntasögunnar, beitti skáldið sig einnig hörðum aga þegar hann vann heima við.
„Hann skrifaði á hverjum degi, hóf vinnu um hálf tíu leytið og stóð þá iðulega við púlt í vinnustofu sinni á Gljúfrasteini. Hann lét ekkert trufla sig, sama hvað um var að vera í fjölskyldunni og lokaði að sér ef því var að skipta. Hann vandist fljótt af ritvél og handskrifaði heldur með blýanti. Stundum sagði hann þó Auði konu sinni fyrir sem sat við ritvélina. Klukkan tvö lagði hann frá sér blýantinn og fór út að ganga. Eftir það sagðist hann ekki geta hugsað sér að sjá aftur penna eða ritvél um daginn.“
Halldór segir í Skeggræðum gegnum tíðina að hann hafi oft lagt eyru við orðum og orðatiltækjum sem honum voru kunn og fest sér þau í minni. Sum þeirra hafi hann svo notað í verkum sínum þegar honum þótti við eiga. „En ég hef ekki gert mikið af því að skrifa upp orð sem ég hef heyrt,“ bætir Halldór við. Þessi síðustu orð skáldsins stangast svolítið á við þá mynd sem blasir við manni þegar fjölmargar glósubækur hans eru skoðaðar.
Hluti þessara bóka er varðveittur á handritadeild Landsbókasafns Íslands-Háskólasafns í Þjóðarbókhlöðunni. Í þessum bókum, sem allar eru með blýantsskrift erfiðri aflestrar, er meðal annars að finna fjölmörg orð og orðtæki sem Halldór hefur greinilega skrifað upp eftir fólki sem hann hitti eða upp úr einhverju sem hann var að lesa. Í þessum bókum er annars hvað innan um annað og allt í belg og biðu. Sumar þessara bóka hafa eins konar titil, til dæmis „Rússnesk ferðadagbók“ frá 1932. Ljóst er að þarna liggur mikið efni órannsakað sem gæti gefið góða vísbendingu um vinnuaðferðir skáldsins.
Við höfum aðeins verið að skoða tilurð Heimsljóss í þessari grein en á handritadeild er að finna glósubók sem Halldór segir á titilblaði (eða fyrstu blaðsíðu) að sé „Minnisatriði fyrir Ljós heimsins“. Raunar hefur í fyrstu staðið „Minnisatriði fyrir „Ysta haf““ en strik hefur verið dregið yfir þennan titil og Ljós heimsins sett í hans stað. Gefur þetta ef til vill til kynna að Halldór hafi í fyrstu ætlað að kalla bókina Ysta haf en þau orð koma einmitt fyrir í Heimsljósi. Í þessari tilteknu glósubók, sem Halldór merkir raunar „Nót 3“, standa meðal annars ýmsar efnislegar eða þematískar athugasemdir um skáldsöguna. Undir yfirskriftinni, „Stríð Ljósvíkingsins“, stendur þetta:
„Fyrsta bókin hvernig bernskan lamar hann og gerir hann ófæran til að taka nokkurn hlutrænan málstað. Önnur bókin, barátta milli andans og efnishyggjunnar, sem lýkur með því að ÓK. flýr undan báðum, og missir báðar, en hafnar hjá þeirri flogaveiku. Baráttan milli auðvaldsins og hins vaknandi sósíalisma; ÓK flýr til Skálavíkur á náðir einverunnar og andans.“
Halldór hripar einnig niður þessa athugasemd um Ólaf Kárason innan sviga:
„(Reynir alltaf að flýja undir verndarvæng þess afls, sem hann heldur að sé sigursælt, en afsakar bleyðuskap sinn með ástinni til „andans“ og „fegurðarinnar“.)“
Einnig eru hér minnisatriði um eitthvað sem hann telur sig þurfa að skrifa: „Skrifa kapítula þar sem Kristján heimtar að stráknum sé ekki gefið að éta.“ Athyglisvert er að orðinu „ekki“ er skotið inn með leiðréttingatákni seinna; kannski Kristján hafi fyrst átt að heimta að stráknum yrði gefið að éta. Og síðan eru þarna hugmyndir og setningar sem hann vildi muna, svo sem: „Rímur, vísur og önnur kvæði var ei nema ónytsamur hégómi.“
Hér er ýmislegt annað sem kannski tengist ekki Heimsljósi á beinan hátt. Talsvert er um orðtæki, svo sem að „eiga rúmt um hendur“ sem þýði að „vera efnaður“. Og orðtakið „tekur sjór til sín“. Hér er sömuleiðis að finna ýmsar færslur eins og um dagbók væri að ræða. Einnig uppkast að útvarpserindi og lista yfir „vinstri framsóknarmenn“. Svo er þessi skilgreining á menntuðum þjóðum og ómenntuðum:
„Mismunurinn á menntuðum og ómenntuðum þjóðum liggur m.a. í því, að þeim fyrrnefndu þykja yfirnáttúrulegir hlutir rannsóknarverðir, en þeim síðari þykja yfirnáttúrulegir hlutir sjálfsagðir. (Báðir voru á því stigi að þykja yfirnáttúrulegir hlutir sjálfsagðir, hvorum á sinn hátt; en hvorugum þótti aftur á móti náttúrulegir hlutir rannsóknarverðir.)“
Að mati Halldórs er höfundurinn miðlægur í hverju hugverki, eins og áður sagði. Í Skáldatíma segir hann að sú eina persóna sem máli skipti í listaverki sé listamaðurinn sjálfur og að þetta eigi ekki hvað síst við um þá sem segi sögu. „Höfuðpersóna hverrar skáldsögu er höfundurinn sjálfur, sögumaðurinn.“ Í Skeggræðunum er ágætis skýring á þessu viðhorfi en þar segist Halldór ekki láta sér detta það í hug að bera á móti því að „bæði Ólafur Kárason og nokkrir tugir af öðrum persónum í sögum mínum séu greinileg endurspeglun sjálfs mín. Í því sambandi má ekki láta sér sjást yfir Bjart í Sumarhúsum. Þetta er allt runnið úr sjálfsvitund höfundarins, á þar heima og er óaðskiljanlegt henni.“
Í Skeggræðunum segir Halldór ennfremur að höfundurinn geti aðeins sagt frá atburðum, mönnum, hugmyndum, flækjum og árekstrum, sem hann hafi sjálfur lifað; höfundurinn geti ekki farið út fyrir sína eigin reynslu, en hann ritstýri henni.
„Hann býr sér til grind sem er þegar bezt lætur eins rökrétt og grind í húsi, síðan fyllir hann upp í grindina með reynslu sjálfs sín. Maður er andsvar við þeim áhrifum, sem hann verður fyrir í lífinu.“
En höfundurinn verður jafnframt að búa yfir hæfni til að koma þessari reynslu á blað á listrænan hátt, segir Halldór, en það tekst ekki alltaf:
„Ýmsar ástæður liggja til þess að það mistekst. Það getur stafað af slappri greind höfundarins, sljórri tilfinningu hans um það sem gerist kringum hann, eða af því tjáningarmiðillinn er ekki í lagi. Dögum oftar ber fyrir augu texta, þar sem höfundinum er fyrirmunað að tjá sig.“
Þetta viðhorf Halldórs til hlutverks höfundarins í skáldskapnum er náskylt hinni rómantísku snillingshugmynd nítjándu aldarinnar. En Halldór lenti líka í töluverðum erfiðleikum með þennan alltumlykjandi höfund á seinni hluta ferils síns. Sögumaðurinn, þessi Plús Ex, er hann kallaði svo, var orðinn einum of fyrirferðarmikill í verkunum og hann vildi bola honum burt. Þetta var á sjöunda áratugnum og Halldór sneri sér að leikritagerð þar sem Plús Ex hefur engan þegnrétt. Skáldsögurnar sem komu í kjölfarið einkenndust líka af þessari viðleitni að láta sögumanninn (höfundinn?, hið innra ég textans) hverfa sem mest í verkinu. Nægir að nefna Kristnihald undir Jökli sem kom út árið 1968 og er athyglisverð atlaga að þessu markmiði með hinum hlutlausa mannfræðilega skrásetjara, Umba. Hér var Halldór enn sem fyrr á harðaskeiði með samtímaþróun í bókmenntum heimsins.
Einmitt um þetta leyti fór fram byltingarkennd umræða í Frakklandi og fleiri löndum um höfundarhugtakið, vanda þess og viðgang í bókmenntunum. Árið 1968 skrifaði franski heimspekingurinn, Roland Barthes, fræga grein sem nefndist „Dauði höfundarins“. Í henni boðaði Barthes hvarf höfundarins úr bókmenntunum en þetta hvarf taldi hann að myndi geta af sér nýjar bókmenntir sem hann kallaði skrif en þau eru það „hlutlausa, margþætta og dulda svæði þar sem sjálf okkar rennur undan, það svart-hvíta þar sem sérhver sjálfsmynd er horfin, einkum þó sjálfsmynd þess sem skrifar.“ Ári síðar birti svo landi Barthes, Michel Foucault grein þar sem hann reyndi að svara spurningunni: Hvað er höfundur? Þar reyndi Foucault að útskýra hvers vegna bókmenntunum gengi jafn erfiðlega og raun ber vitni að losa sig við höfundinn.
Og þá erum við í vissum skilningi aftur komin að upphafsspurningu þessarar greinar: Hvernig verður listaverk til? Það væri vonandi að tilraunir Halldórs, Barthes, Foucaults og fleiri til að átta sig á hlutverki og gildi höfundarins í því sköpunarferli hafi fært okkur nær svari við þeirri spurningu.
Eftir Þröst Helgason