Ferill Halldórs Kiljans Laxness

Dótturdóttir Halldórs Laxness, Auður Jónsdóttir, þá 16 ára, afhjúpaði styttu af afa sínum í Landsbókasafni á sjötíu ára rithöfundarafmæli hans 26. október 1989. Halldór sést hér virða fyrir sér bústuna eftir Norðmanninn Nils Aas.

Ferill Halldórs Laxness nær yfir ótrúlega langan tíma. Fyrsta skáldsaga hans, Barn náttúrunnar, kom út ári eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk og síðasta bókin frá hendi hans, Dagar hjá múnkum, þar sem hann skrifar um veru sína í klaustri á þriðja áratugnum, kom á markað tveimur árum áður en Berlínarmúrinn féll. Allan þennan tíma – næstum 70 ár – var hann áberandi í íslensku þjóðlífi og evrópsku menningarlífi. Hann sendi frá sér 62 rit á 68 árum eða næstum bók á ári.

Verk hans vöktu ævinlega athygli og framan af skiptist íslenska þjóðin í tvær fylkingar eftir því hvort menn voru honum fylgjandi eða andstæðir. Engum stóð á sama um bækur hans. Hann var auk þess óþreytandi við að skrifa í blöð um allt milli himins og jarðar. Halldór Laxness lét ekki sitt eftir liggja í eldheitum stéttastjórnmálum fjórða áratugarins; hann skrifaði mikinn fjölda greina um menningarmál; tók upp hanskann fyrir útigangshross en honum fannst meðferðin á þeim vera þjóðarskömm á sínum tíma; umhverfismál voru á áhugasviði hans; hvers kyns þjóðmál og þannig mætti áfram telja. Honum var ekkert mannlegt óviðkomandi – hann hafði skoðanir á öllu. Og hvort sem menn voru honum sammála eða ósammála þá var ævinlega tekið mark á skrifum hans – þau skiptu ávallt máli. Það skáld er vandfundið sem lifað hefur svo heils hugar örlög þjóðar sinnar, túlkað þau en um leið reynt að hafa áhrif á framvindu þeirra. Um Laxness hefur verið sagt að hann sé síðasta þjóðskáld Vesturlanda. Þjóðin fylgdist með hverju spori hans um áratuga skeið, hann var einskonar föðurímynd hennar, á tímum þegar bókmenntir skiptu miklu fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar. Við Íslendingar höfum gjarnan litið á okkur sem bókmenntaþjóð, Íslendingasögurnar voru tákn um gullöld þjóðarinnar og með Halldóri Laxness var kominn arftaki höfunda þeirra.

Fyrsta íslenska nútímaskáldsagan

Þriðji áratugurinn var mikill mótunartími í lífi Halldórs. Hann var mjög leitandi, dvaldi m.a. um hríð í klaustinu Clervaux í Lúxemborg, og glímdi af einurð við samtíma sinn í skáldsögunni Vefaranum mikla frá Kasmír (1927). Um hana sagði sænski fræðimaðurinn Peter Hallberg, sem rannsakaði um áratuga skeið verk Halldórs Laxness: „Vafamál er, hvort nokkru sinni hafi komið út bók á Norðurlöndum, sem gefi jafn sterka og fjölskrúðuga lýsingu á hugsunarhætti eftirstríðsáranna og Vefarinn mikli.“ 

Vefarinn mikli frá Kasmír segir frá Steini Elliða, sem er á 19. ári þegar sagan hefst, og greinir frá nokkrum árum í lífi hans. Þetta virðist við fyrstu sýn vera hefðbundin þroskasaga en þegar betur er að gáð sprengir hún af sér þann ramma. Steinn Elliði flögrar milli lífsskoðana og má segja að hann velkist milli þriggja meginstefna: kaþólsku, kommúnisma og ofurmennishugsjónar Friedrichs Nietzsche. Kaþólskur maður lifir guði, sameignarsinni lifir mönnum en sá sem fylgir ofurmennishugsjóninni lifir sjálfum sér.

Lífsskoðanir Steins og afstaða hans breytast í sífellu, það er eins og margir menn tali í Steini, hver þeirra með sitt sjónarmið, sitt andlit. Steinn hefur með öðrum orðum „hundraðogfimtíu lífskoðanir en eingin þeirra er hans eigin,“ eins og Halldór sagði í grein frá þessum tíma um nútímamanninn. Í skáldsögum 19. aldar hafði söguhöfundurinn ráðið yfir sögu sinni en það endurspeglaði heildstæða heimsmynd. Í Vefaranum mikla frá Kasmír reynir Halldór hins vegar ekki að samræma raddirnar sem birtast í sögunni, í honum er engin ritstýring í þágu ákveðins boðskapar. Sagan birtir margar lífsskoðanir og þær eru allar jafn réttháar.

Hinn mikli fjöldi hugmynda og viðhorfa sem fram kemur í Vefaranum er notaður til að varpa ljósi á andstæðufullt eðli Steins, á þau vandamál sem stríða á huga hans. Umræðan, þrætubókarlistin, virðist aðalatriðið. Þannig er sagan fjölradda verk og höfundurinn ber enga ábyrgð á öllum þeim aragrúa skoðana sem í sögunni birtast. Helstu andstæðurnar í lífi Steins eru Guð og Diljá, konan sem hann elskar þegar hún er ekki ímynd djöfulsins í augum hans. Í lokin hefur Guð síðan sigur en Diljá situr eftir.

Það er margt sameiginlegt með Steini Elliða og Halldóri Laxness. Halldór gerðist kaþólskur um skeið en með Vefaranum má segja að hann hafi sagt skilið við hina kaþólsku kirkju. Guð hafði ekki sigur í baráttunni um sál Halldórs heldur mennirnir því að nú snerist hann til sósíalisma.

Salka Valka (1931-1932)

Í apríl og maí árið 1931 sendi Halldór Laxness Ingibjörgu Einarsdóttur, þáverandi eiginkonu sinni, bréf frá Leipzig í Þýskalandi þar sem hann lýsir glímu sinni við nýja bók sem er seinna bindi stærra verks: „Mér geingur ágætlega með nýu bókina. Ég hef góða von um hana, – stundum. – Eins og þú veist, – svo verð ég örvæntíngarfullur á milli. … [Efnið] er víða afskaplega erfitt og knúsað, og ég er dag út og dag inn í óslitinni spenníngu út af hvernig því muni reiða af, karaktérarnir taka með hverjum degi á sig stórfeinglegri dimensionir … Og ef seinna bindið heppnast, þá er ég made, þá er ég búinn að skrifa skáldsögu í heimsformat. … [Það] eru alveg ógurleg verk, sem eru framundan mér. Og ég skal verða stór rithöfundur á heimsmælikvarða eða drepast! Hér er ekkert pardon og ekkert sem heitir að gefa eftir um hársbreidd. Ég skal – eða drepast!“ 

Skáldsagan sem hér um ræðir er Salka Valka sem gerist meðal alþýðufólks í litlu sjávarplássi. Fyrri hlutinn kom út árið 1931 og nú vann hann að síðara bindi verksins. Ljóst er af þessum brotum að skáldinu er mikið niðri fyrir. Hann horfir vígreifur til framtíðarinnar enda eru næstu stórvirki þegar farin að leita á huga hans.

Salka Valka gerist meðal óbreytts alþýðufólks í sjávarþorpi. Þar er sögð saga af lífsbaráttu þess, bæði kröppum kjörum en einnig átökum í einkalífi. Í sögunni eru allir breyskir og enginn án vorkunnar. Rétt og rangt eru þar engar andstæður en slíkt er sjaldgæft í raunsærri þjóðfélagslýsingu á fjórða áratugnum, tímum hatrammrar stéttabaráttu. Samúð höfundar og lesenda er einlæg og algjör með öllum persónum bókarinnar – hversu lágt sem þær leggjast. Jafnvel það ljóta er þar fallegt. Sem dæmi um það má taka að lesendum kann að þykja undarlegt að Salka laðist að Steinþóri, illmenninu í sögunni. Steinþór reynir að nauðga henni barnungri meðan hann býr með móður hennar. En skáldinu tekst með persónusköpun sinni að komast hjá því að gera Steinþór að einlitum djöfli, hann hefur aðdráttarafl sem lætur Sölku ekki í friði.

Einnig sést þetta í hinum pólitíska þætti sögunnar. Arnaldur kemur í þorpið og boðar sósíalisma, rétt eins og Halldór Laxness kom heim til Íslands frá Ameríku, sannfærður sósíalisti nokkru áður og hóf að breiða út boðskapinn. Engu að síður er Arnaldur ekki ímynd hins algóða, og alvitra í sögunni, þess sem hefur alltaf rétt fyrir sér, þess sem öll samúðin er með.

Þannig fellur Halldór Laxness ekki í þá gryfju að skrifa í anda hins einlita sósíalrealisma þar sem hinir góðu eru algóðir og hinir vondu alvondir. Segja má að í sögunni prófi Halldór þær kenningar sem hann boðaði í greinum sínum um þjóðfélagsmál og kemst að því að þær virka ekki í veruleikanum. Hvort sem það var meðvitað hjá honum eða ekki.

Sjálfstætt fólk (1934-1935)

Á eftir Sölku Völku sendi Halldór frá sér skáldsöguna Sjálfstætt fólk í tveimur hlutum, 1934-35, en líklega er þetta hans þekktasta verk, bæði heima og erlendis. Sjálfstætt fólk gerist í upphafi 20. aldar og segir frá Guðbjarti Jónssyni sem lætur gamlan draum rætast með því að kaupa lítið kot sem hann nefnir Sumarhús. Bjartur er loksins orðinn sjálfstæður maður eftir 17 ára vinnumennsku, sjálfs sín herra sem þarf ekki að sækja neitt til ókunnugra. Hann berst við að halda svokölluðu sjálfstæði sínu allt til enda – ekki síst gagnvart fyrrum yfirboðurum sínum á Útirauðsmýri og færir fyrir það óbætanlegar fórnir. Sagan skiptist í fimm hluta og lýkur þeim öllum með því að Bjartur missir eitthvað og má segja að „veraldarstríð“ hans kristallist í eftirfarandi tilvitnun: „Það er til í útlendum bókum ein heilög saga af manni sem varð fullkominn af því að sá í akur óvinar síns eina nótt. Sagan af Bjarti í Sumarhúsum er saga mannsins, sem sáði í akur óvinar síns alt sitt líf, dag og nótt. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu.“

Hvar sem Halldór Laxness var á ferð hafði hann ævinlega minniskompu á sér þar sem hann punktaði niður það sem honum kom í hug eða skipti máli fyrir skáldverkið sem hann var að vinna að hverju sinni. Í minniskompu frá þeim tíma er hann var að skrifa Sjálfstætt fólk hefur hann punktað hjá sér: „Framtak einstaklíngsins í þúsund tilfellum á Íslandi: Bjartur í Sumarhúsum. Hreppstjórinn á Útirauðsmýri táknar framtak einstaklíngsins í einu tilfelli af þúsund.“ Þannig gerir Halldór Bjart að eins konar tákni fyrir baráttu íslenskrar alþýðu fyrir því að fá að ráða sér sjálf – baráttu sem er dæmd til að mistakast. Á þessu hnykkir skáldið í minniskompu sinni: „Guðbjartur Jónsson í Sumarhúsum, sjálfstæðismaður og frelsishetja, fulltrúi íslensks þjóðernis.“ Halldór leggur hins vegar einnig áherslu á að Bjartur megi ekki líta út fyrir að vera eitthvert vesalmenni og skrifar hjá sér meðan aðalpersónan heitir enn Þorleifur: „Gæta þess ennfr. að láta Leifa aldrei tapa sinni konúnglegu reisn alt í gegn um söguna, – þann eiginleik að vera hafinn yfir umhverfið.“

 

 

Heimsljós og Íslandsklukkan

Í kjölfarið á Sjálfstæðu fólki kom Heimsljós í fjórum hlutum 1937-40. Þar dregur hann upp mynd af alþýðuskáldi, Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi, sem lendir á milli tveggja stjórnmálaafla í litlu þorpi og gefst enginn friður til að iðka hugleiðingar sínar og skáldskap. Inn í söguna blandast hatrömm stéttaátök og er þar ljóðið fræga Maístjarnan m.a. lagt í munn Ólafi Kárasyni. Sögunni lýkur með því að skáldið heldur á vit jökulsins þar sem ríkir fegurðin ein.

Á fimmta áratugnum fór Laxness að skrifa sögulegar skáldsögur, meðal annars Íslandsklukkuna sem var innlegg í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og kom út 1943-1946. Þar segir frá Jóni Hreggviðssyni, Snæfríði Íslandssól og Arnasi Arnæusi og byggði Halldór söguna, sem gerist um 1700, mjög á rituðum heimildum. Íslandsklukkan var fyrsta verk hans sem naut almennrar hylli hér á landi. Ekki ríkti þó upp frá því nein lognmolla í kringum skáldið því að í næstu skáldsögu, Atómstöðinni (1948), tók hann á afar viðkvæmu máli, „sölu landsins“ eða „þátttöku Íslendinga í vestrænu varnarsamstarfi“, eftir því frá hvaða sjónarhóli er horft á herstöðvarmálið. Útgáfa bókarinnar vakti miklar deilur, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Leikrit og ljóð

Halldór Laxness skrifaði absúrdleikrit á sjötta áratugnum og fram á þann sjöunda. Leikritin Silfurtúnglið (1954), Strompleikurinn (1961), Prjónastofan Sólin (1962) og Dúfnaveislan (1966) eiga margt sameiginlegt. Hér etur Halldór saman fulltrúum tveggja heima. Þetta eru hinn ómengaði og upprunalegi heimur nægjusemi, hversdagsleika og lítillætis annars vegar og hins vegar heimur siðgæðisblindu, sölumennsku og efnalegra allsnægta. Og fer ekki á milli mála að sá fyrri á samúð og sál höfundar.

Ljóðagerð Halldórs stóð alla tíð í skugga af skáldsögum hans. Engu að síður er hún merkur þáttur í höfundarverki hans, t.d. er „Únglíngurinn í skóginum" frá þriðja áratugnum byltingarkennt kvæði þar sem er að finna fyrstu merki um súrrealisma í íslenskum skáldskap. Þá hafa mörg ljóða hans verið sungin við lög ýmissa af fremstu tónskáldum landsins.

Hugmyndafræði í verkum Halldórs

Halldór Laxness hafði enga eina lífsskoðun alla sína ævi. Hann hóf feril sinn í kaþólsku, snerist til sósíalisma en varð síðan afhuga kenningum – nema kannski taóisma – og útför hans í febrúar 1998 fór fram frá kaþólsku kirkjunni í Reykjavík þar sem blandað var saman útfararsiðum kaþólikka og mótmælenda. Þannig má segja að hringurinn hafi lokast. Hann reyndi aldrei að draga fjöður yfir fyrri skoðanir sínar sem hann hafði kannski snúist gegn en leit á þær sem fróðlegan part af sjálfum sér.

Þekktustu sinnaskipti Laxness urðu þegar hann gerði upp við Sovétríkin og Stalín í bók sinni Skáldatími árið 1963. „Það er fróðlegt að sjá hvernig Stalín varð með hverju árinu meira skólabókardæmi þess hvernig valdið dregur siðferðisafl úr mönnum þannig að maður sem náð hefur fullkomnu alræðisvaldi innan umhverfis síns er um leið orðinn algerlega siðferðislaus“, segir í þar. Áður hafði Halldór m.a. lýst bókunum Í austurvegi (1933) og Gerska æfintýrinu (1938) ferðum sínum til Sovétríkjanna og hvernig allt var þar í blóma. Í Skáldatíma dró hann hins vegar upp allt aðra mynd af þessum eyðimerkurgöngum sínum – ástandinu í sæluríkinu. Þar segir m.a.: „Stærsta axarskaft okkar vinstrisósíalista fólst í trúgirni. Það er í flestum tilfellum meiri glæpur að vera auðtrúa en vera lygari. Við höfðum hrifist af byltíngunni og bundum vonir okkar við sósíalisma. …Við trúðum ekki þó við tækjum á því hvílíkt þjóðfélagsástand var í Rússlandi undir Stalín.“

Útgáfa bókarinnar vakti mikla athygli en þegar horft er til baka má sjá hvernig viðhorf hans eru að breytast allan sjötta áratuginn, hægt er að lesa út úr skrifum hans miklar efasemdir um það sem hann hafði áður trúað á – að hann væri að verða afhuga kenningum. Árið 1952 sendi hann frá sér skáldsöguna Gerplu þar sem hann hæddist að hinni fornu hetjuhugsjón Íslendingasagna en boðskapur sögunnar beindist ekki síður að nútímanum því að trúin á vald og ofbeldi er gjarnan haldreipi þeirra landstjórnarmanna sem ekkert óttast meira en þegna sína. Skáld gegna veigamiklu hlutverki í Gerplu og má segja að hirðskáldin þar séu nánast hreinir veruleikafalsarar. Kvæði þeirra gefa ýkta glæsimynd af jöfrinum og hetjudáðum hans. Meðal skáldanna er Þormóður kolbrúnarskáld sem fórnað hefur öllu til að geta staðið augliti til auglitis við hetju- og konungshugsjón sína, Ólaf Haraldsson Noregskonung. En þegar til á að taka og skáldið hefur séð hvern mann Ólafur hefur að geyma, kemur hann ekki fyrir sig því kvæði er hann ætlaði að flytja konungi. Sumir segja að Gerpla sé skemmtilegasta bók skáldsins en sjálfur hefur hann látið svo um mælt í viðtölum að sagan sé mesti harmleikur sem hann hafi skrifað. Hann hafi tekið út miklar þjáningar við ritun hennar og segir að hliðstæðurnar við nútímann ættu að vera augljósar: skáld og hetjur sem gerðust skósveinar Hitlers og Stalíns muni seint gleymast. Ýmsir fræðimenn, m.a. Peter Hallberg, hafa bent á að margt sé líkt með höfundi Gerplu og Þormóði kolbrúnarskáldi.

Á sjötta áratugnum var kalda stríðið í algleymingi. Sovétríkin og Bandaríkin stóðu grá fyrir járnum og klufu þessar andstæðu fylkingar heimsbyggðina í herðar niður. Halldór Laxness hafði síðan í lok þriðja áratugarins verið ötull boðberi sósíalisma en deilt að sama skapi hart á höfuðvígi auðvaldsins, Bandaríkin. Í Gjörníngabók (1959) þar sem Halldór safnaði saman ýmsum greinum sínum frá síðari hluta sjötta áratugarins kvað hins vegar við nýjan tón. Þar gætir hvergi heiftúðugra árása á Bandaríkjamenn og Nato en vonbrigðin með framkvæmd sósíalismans fyrir austan járntjald verða þeim mun meira áberandi. Það fer ekki á milli mála að hrifning Halldórs á Sovétríkjunum – sæluríki sósíalismans – hefur minnkað til mikilla muna. Í ritgerðum Gjörníngabókar virðist hann vera búinn að fá sig fullsaddan af kenningum, – „alheimsteóríum“, sem hann kallaði svo; menn máttu hafa sína trú eða hugmyndafræði í friði en sjálfur aðhylltist hann nú umburðarlyndi umfram allt og auk þess hagnýtissjónarmið sem segir: ef kenningin virkar er hún að minnsta kosti góð að því marki. Árið 1958 ritaði Halldór grein í danska blaðið Politiken um mormóna og er hún prentuð í Gjörníngabók. Þar spyr hann: Var það sönn eða ósönn vitrun er mærin Bernadetta sá sjálfa Guðsmóðurina í hellinum í Lourdes? Svar: margir hafa læknast. Menn trúa því sem borgar sig að trúa, segir í sömu ritgerð. Slíkrar afstöðu gætir í skáldsögu Halldórs, Paradísarheimt (1960), t.d. þar sem segir: „Sá hefur bestu kenníngu sem getur sýnt frammá að hann hafi mest að éta; og góða skó.“

Paradísarheimt (1960)

Aðalpersóna Paradísarheimtar, Steinar bóndi, öðlast hugsjón og von um paradís á jörð. Hann fer að vitja hennar meðal mormóna en leitar í sögulok aftur til heimahaganna: Hugsjónin um þúsundáraríki reynist tál eitt. Í lokin virðist ekkert hafa gerst, það er sem Steinar standi í sömu sporum og áður en hann fór. Sjálfur sagði Halldór í grein um tilurð Paradísarheimtar, sem prentuð er í Upphafi mannúðarstefnu

„Vitur maður hefur sagt, sá sem fer burt mun aldrei koma aftur; og það er af því að þegar hann kemur aftur er hann orðinn annar maður en hann var þegar hann fór ... Og milli túnsins þaðan sem lagt var á stað og túnsins þángað sem komið er aftur liggja ekki aðeins konúngsríkin og úthöfin ásamt eyðimörkum veraldarinnar, heldur einnig fyrirheitna landið sjálft.“

Steinar glatar nýfundinni trú sinni og hugsjón en öðlast að lokum nýja lífssýn. Sama má segja um Halldór Laxness. Sovétsósíalisminn reyndist ekki ekki sú Paradís sem til var ætlast.

Virðing fyrir mannlífinu - huldufólkið

Lífsskoðanir Halldórs breyttust með tímanum og sjást þess að nokkru leyti merki í verkum hans. Þó má frá fyrstu tíð til hinnar síðustu greina sömu þættina í verkum hans. Hann sá hlutina öðrum augum en aðrir, var oft beittur í skrifum sínum en tókst alltaf að sjá kómískar hliðar á persónum sínum og athöfnum þeirra. Ævinlega er samúðin með þeim sem minna mega sín. Segja má að í verkum sínum upphefji hann ævinlega huldufólkið, sem hann kallar svo, en með huldufólki á hann ekki við þann hóp manna sem þekktur er úr íslenskri þjóðtrú og býr í náttúrunni heldur hið venjulega alþýðufólk. Segja má að að virðingin fyrir þessu fólki sé kjarninn í verkum Halldórs. Í minniskompu Halldórs Laxness frá sjötta áratugnum kemur fram stefnuyfirlýsing hans varðandi Brekkukotsannál sem út kom 1957 og má í raun yfirfæra hana á flest annað sem hann sendi frá sér. 

Fremst í bókinni skrifar skáldið hjá sér hvað hann ætlar sér með bókinni:

„„Huldufólkið“ hið óbreytta „óspilta“ fólk – og þó svo óendanlega breyskt ef það er skoðað frá sjónarhorni móralteólógíunnar eða annarra siðferðiskerfa – bókin á að vera óður til þess, sönnun þess að það er einmitt þetta fólk, hið óbreytta fólk, sem fóstrar öll mannleg friðsamleg verðmæti. Sögupersónan á rætur sínar í hinu kyrra djúpi alþýðunnar, og [það góða fólk], sem hann mætir í æsku, verður þess valdandi að öll heimsins dýrð verður honum einskisverð þann dag sem honum stendur hún til boða – sakir þeirrar þrár sem hann ber til að komast aftur heim, finna hið kyrra djúp óbreytts mannlífs á nýaleik.“

Brekkukotsannáll er með öðrum orðum hylling á því alþýðufólki sem vinnur störf sín af trúmennsku og stærir sig ekki af þeim, óður til óbreytts mannlífs og þess fólks sem Halldóri þótti vænna um en annað fólk. Og til að hnykkja enn frekar á þessu segir nokkru síðar í minniskompunni:

„Tvennskonar íslendíngar: hinir extróvertu fantastísku, sem eru síkjaftandi og símontandi sig, og setja svip sinn á þjóðlífið og stjórna hólfélaginu – og svo huldufólkið … sem hefur flest það er menn má prýða, en er með öllu laust við sérframtrönulegheit en það er kjarninn bakvið, það element sem því hefur ráðið að mannlíf er á Íslandi enn, það fólk sem vinnur öll afrek en aldrei montar sig og ekkert heyrist um og hólfélagið mun aldrei uppgötva.“

Á öðrum stað í minniskompunni skilgreinir hann síðan hólfélagið:

„Hólfélagið – samábyrgð míkróskópískra lókalstærða um að hæla hver öðrum.“ Hólfélagið er með öðrum orðum það sem nú á dögum er gjarnan nefnt skjallbandalag eða aulabandalag.

Huldufólkið – alþýða manna – er þannig hinn þögli hópur sem geymir öll þau verðmæti sem einhvers eru verð. Virðing Halldórs fyrir hinu óbreytta mannlífi er líklega öðru fremur skýringin á því hvers vegna verk hans hafa náð svo mikilli hylli meðal Íslendinga – og annarra þjóða. Í bókum hans er að finna sammannlegan kjarna – hreinan tón – sem talar eins til fólks hvar sem er enda þótt umhverfið sé mismunandi. Honum auðnaðist í verkum sínum að færa heiminn inn í íslenskar bókmenntir; í þessum míkrókosmos eru örlög persónanna skiljanleg fólki hvar sem það býr í veröldinni.

Síðustu sögurnar

Fjörutíu árum eftir að hann skrifaði Vefarann mikla frá Kasmír, tæplega sjötugur að aldri, fór Halldór á ný að daðra við módernisma í skáldsagnagerð ásamt ungum íslenskum skáldsagnahöfundum í Kristnihaldi undir Jökli. Þar segir frá umboðsmanni biskupsins yfir Íslandi sem sendur er til að kanna embættisfærslur prests undir Snæfellsjökli. Presturinn er hættur að boða kristna trú og segir: „Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni.“ Ritun Kristnihaldsins virðist hafa tekið mjög á skáldið og af bréfum hans frá þessum tíma til Auðar, eiginkonu sinnar, má ráða að hann hafi sjálfur verið efins um gildi bókarinnar. 5. október 1968 skrifar hann henni frá Kaupmannahöfn: „ég er einhvernveginn enn ekki búinn að safna mér saman eftir Kristnihald undir Jökli, það var dálítið einsog að velta ofan Goðafoss.“ Og þann 18. október skrifar Halldór Auði um bókina: „hún ætlaði mig lifandi að drepa.“ Þremur dögum síðar ritar hann henni enn og hefur þá greinilega heyrt af góðum viðtökum bókarinnar á Íslandi. Honum finnst „gaman að ýmsir góðir menn skuli geta kíngt svona bók einsog Kristnihaldinu án þess að hixta til muna. En einginn veit betur en ég sjálfur í hve mörgu bókinni er áfátt; en um það þýðir ekki leingur að tala.“

Árið 1972 sendi Halldór frá sér skáldsöguna Guðsgjafaþulu þar sem hann hann fékkst á ný við síldarspekúlant, líkt og í Sölku Völku, en nú án hinna pólitísku viðmiða sem settu mark sitt á verk hans á fjórða áratugnum. Íslands-Bersi, sem átti sér fyrirmynd í Óskari Halldórssyni útgerðarmanni, fær því harla ólíka meðferð frá hendi skáldsins miðað við Bogesen kaupmann í Sölku Völku. Í kjölfarið fylgdu síðan fjórar minningasögur, Í túninu heima (1975), Úngur eg var (1976), Sjömeistarasagan (1979) og Grikklandsárið (1980), sem hann kallaði „essay-rómana“.

Til bunustokksfélagsins í Sundsvall“

Þegar Halldór Laxness var staddur í Stokkhólmi í desember árið 1955 til að taka á móti Nóbelsverðlaununum í bókmenntum barst honum mikill fjöldi heillaóskaskeyta, sem von var. Síðar sagði hann frá því, að meðan hann hafði fataskipti fyrir veislu eitt af þessum hátíðakvöldum í borginni, hlýddi hann á aðstoðarmann sinn lesa skeytin upphátt. „Alskonar burðarstoðir menta og menníngar í mynd stofnana og félaga voru komnar á stúfana, háttaktaðir höfðíngsmenn og algerir nafnleysíngjar sendu kveðjur, og þá má ekki heldur gleyma þeim vinafjölda, vinum vina og lauslegum kunníngjum sem farandmaður hlýtur að safna sér í mörgum löndum á laungum tíma,“ ritaði Halldór í grein sem nefnist „Endurminníngar frá Svíþjóð“ og prentuð var í Upphafi mannúðarstefnu

Hann vildi vera viss um að hann missti ekki af neinum sem hann yrði að svara með þakklæti undir eins. Í miðjum lestrinum stöðvaði hann aðstoðarmann sinn og bað hann að endurtaka. „Það var hjartanlega „lycka til“ frá félagi bunustokksmanna í Sundsvall, – þeirra manna sem grafa lokræsi,“ sagði Halldór og hélt áfram: „Það var ánægjulegt að finna þá sem ráða borgarabrag í heiminum vera sér í vinarhúsi, fræga starfsbræður og meistara, þjóðlegar og alþjóðlegar menníngarstofnanir, og þá ekki síður konúngshúsið og bánkana. En hvað örvar hjartað einsog vita sig orsök í því að menn sem standa í keing yfir bunustokkum djúpt í jörð að reyna að fá vatnið til að renna í gegn, rétta altíeinu úr sér og stíga uppúr skurðinum í miðri ónennu skammdegisins í Sundsvall til að æpa húrra fyrir bókmentum? Við komumst að þeirri niðurstöðu að ef ég gæti gert nokkrum manni sóma með auðmjúkri þakkarviðurkenníngu til bráðabirgða þetta veislukvöld, þá væru það einmitt þessir menn. Og aðeins eitt símskeyti var sent: Til bunustokksfélagsins í Sundsvall.“

Þessi saga lýsir vel afstöðu Halldórs Laxness til lífsins og tilverunnar. Hann minntist þess alla tíð hvar rætur hans lágu – meðal óbreyttrar alþýðu – og upphóf hana ævinlega í skrifum sínum. Í ræðu á Nóbelshátíðinni, sem prentuð er í Gjörníngabók, spurði hann sig meðal annars: „hvað má frægð og frami veita skáldi?“ Og hann svaraði: „Vissulega velsælu af því tagi sem fylgir hinum þétta leir. En ef íslenskt skáld gleymir upphafi sínu í þjóðdjúpinu þar sem sagan býr; ef hann missir samband sitt og skyldu við það líf sem er aðþreingt, það líf sem hún amma mín gamla kendi mér að búa öndvegi í huga mér – þá er frægð næsta lítils virði; og svo það hamíngjulán sem hlýst af fé.“