Leikritin
Jón Viðar Jónsson skrifar.
Halldór Laxness var alla tíð mikill áhugamaður um leiklist. Að eigin sögn var hann ekki nema tólf ára gamall þegar hann sá sýningu Leikfélags Reykjavíkur á Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar og hreifst mjög af. Nokkrum árum síðar skrifaði hann leikdóm um sýningu félagsins á Syndum annarra eftir Einar H. Kvaran. Á ferðum sínum erlendis gerði hann sér far um að sækja leikhús, auk þess sem hann hafði jafnan mikinn áhuga á kvikmyndalistinni. Hann fékk því snemma góða yfirsýn og þekkingu á leiklist samtíðarinnar. Til marks um það má m.a. hafa leikdóma þá sem hann skrifaði í Alþýðublaðið veturinn 1931-32.