Sovétríkin

Skáldatími 1963

Halldór Laxness snerist til sósíalisma í lok þriðja áratugarins. Árið 1933 sendi hann frá sér bókina Í austurvegi þar sem hann lýsti ferð sinni til fyrirheitna landsins, Sovétríkjanna. Þar segir meðal annars: „Í einu vetfángi var ég kominn úr atvinnuleysisjarmi og landbúnaðarkreppu auðvaldslandanna yfir í vélagný hinnar samvirku uppbyggíngar, og fyrsta hljóðið sem ég heyrði í þessu nýa landi var skark í dráttarvél, þessari vél sem í vitund heimsins hefur staðið sem tákn hins „vaknandi Rússlands“ á síðustu árum.“ Síðar segir í sömu bók: „Að Ráðstjórnarríkin séu orðin paradís, einsog blöðin hér álíta að einhverjir haldi fram, það er náttúrlega ósatt mál. En að þar hafi með Áætluninni miklu, sem var rökrétt og óhjákvæmilegt áframhald októberbyltíngarinnar, verið grundvöllur lagður að viturlegra og betra þjóðskipulagi - það er eftir alt saman eingin lýgi.“

Fimm árum síðar sendi hann frá sér aðra ferðasögu úr Austurvegi, Gerska ævintýrið. Hann hafði þá verið viðstaddur sýndarréttarhöld Stalíns yfir fyrrum samstarfsmönnum sínum haustið 1937 í Moskvu og ferðast að auki um ýmis austlæg ráðstjórnarfylki þá um veturinn. Þar sparaði hann ekki lofið um það sem þar var að gerast: „Stundum orkuðu Ráðstjórnarríkin á mig einsog einn óslitinn sunnudagaskóli frá Eystrasalti austur að Kyrrahafi. Hvar sem maður kemur er verið að ala fólk upp. Alt sem sagt er, alt sem gert er, virðist gert og sagt í uppeldisskyni. Það má ekki hafa neitt ljótt fyrir neinum.“ Síðan sagði hann: „Ráðstjórnarríkin eru hlutskarpasti og afdrifaríkasti árángur marxismans um leið og erkióvinur auðvaldsins. Fasisminn er vopn sem auðvaldið hefur smíðað í baráttunni gegn þessum óvini í sérhverju landi. Þessvegna er öll afstaða gegn Ráðstjórnarríkjunum hinn velkomnasti styrkur sem fasismanum verður léður.“

Um Stalín ritaði Halldór í Gerska ævintýrinu: „Ég skal ekki draga dul á það að árið 1932 virtist Stalín frá almennu vesturevrópsku sjónarmiði vera brjálaðasti draumóramaðurinn sem þá var uppi. Og hann hafði merkilega sérstöðu sem slíkur. Hann var fyrsti draumóramaður sem sögur fara af og svo var brjálaður að trúa því að hægt væri að framkvæma draumóra.“ (56) Um réttarhöldin yfir þeim sem unnu gegn Stalín á þessari framfarabraut ritar Halldór meðal annars í Gerska ævintýrinu: „Búkharínsmálið, niðurlagið á baráttu ráðstjórnarinnar við glæpafélög hægrimanna og trotskista, eru mannkynsögulegur viðburður fyrstu stærðar, einhver stórkostlegustu pólitísk reikníngsskil vorra tíma.“ (71)

Í Skáldatíma sem kom út árið 1963 kvað hins vegar við nýjan tón hjá Halldóri Laxness þegar hann gerði upp við Stalín. „Mörgum bauð og ótta við því - og ég var einn þeirra - að það mundi vinna gegn sósíalisma í heiminum alment ef fólki væri sagt frá hinu óumdeilanlega gæfuleysi sósíalismans hjá Stalín - í „höfuðlandi sósíalismans“. Menn sögðu í hljóði „hver veit nema Eyólfur hressist“ og biðu óþreyufullir í von þess, og báru í brestina á meðan. ... Þegar ég fletti nú upp í ferðakveri mínu frá Rússlandi 1932, Í Austurvegi, lítur út fyrir að ég hafi heldur en ekki farið í geitarhús ullar að leita í landi byltíngarinnar, ef von mín hefur verið sú að þar í landi mundi ég sjá sælu bænda fullkomna.“ Á öðrum stað í Skáldatíma segir síðan: „Stærsta axarskaft okkar vinstrisósíalista fólst í trúgirni. Það er í flestum tilfellum meiri glæpur að vera auðtrúa en vera lygari. Við höfðum hrifist af byltíngunni og bundum vonir okkar við sósíalisma. Sannur tómás trúir hinsvegar ekki að lausnarinn hafi risið upp þó hann þreifi á naglaförunum og síðusárinu. Við trúðum ekki þó við tækjum á því hvílíkt þjóðfélagsástand var í Rússlandi undir Stalín.“

Um Stalín sjálfan skrifaði Halldór í Skáldatíma: „ Önnur eins þórðarverk og sveitabúskapurinn hjá Stalín munu hafa verið óþekt á jarðríki. Karlinum var skítsama um bændur eftir að hann hafði nú einusinni framkvæmt stefnu sína í orði, samyrkjubúskapinn, sem einsog öll hans endaleysa önnur var skírð marx-lenínismi og þarafleiðandi bæði „góð“ og „rétt“ samkvæmt skilgreiníngu en hver sá maður heldræpur sem þar efaðist.“ Og enn fremur: „Það verður aldrei tölum talið hvað Stalín var skrýtinn maður; - og skemtilegur ef öll siðferðisvandlætíng er látin lönd og leið; í rauninni ekki ólíkur einhverskonar þussa. ... Það var sögð ein ófrávíkjanleg regla Stalíns að kæmi A til hans í forbón fyrir B, þá lét hann ófrávíkjanlega drepa A fyrstan.“