Skólahópar

Skrifað á ritvél. Leikskólabörn í heimsókn Gljúfrasteini 2004.

Nemendahópar leikskólabarna, grunn- og framhaldsskólanema eru boðnir velkomnir á Gljúfrastein.

Boðið er upp á sérsniðnar heimsóknir fyrir hvert og eitt aldursstig. Við hvetjum kennara til að hafa samband, kynna sér tilboðin og bóka heimsókn fyrir bekki eða árganga.

Frítt er fyrir nemendahópa og hópstjóra sem koma í námsferð á Gljúfrastein.

Markmið með skólaheimsóknum á Gljúfrastein er að:
- vekja áhuga á Halldóri Laxness, ævi hans, verkum og fjölbreyttum áhugasviðum
- bjóða skólum upp á hentuga og áhugavekjandi námskosti byggða á upplifun og leik
- heimsóknin verði kveikja að skapandi hugsun og hvati til að lesa, skrifa, teikna, mynda, yrkja og tjá sig með öllu mögulegu móti

Dóri litli í Laxnesi. Skólaheimsókn fyrir 1.-4. bekk
Halldór Laxness lifði nær alla tuttugustu öldina og þar með þær miklu samfélags- og tæknibreytingar sem urðu á öldinni. Í gegnum ævi Halldórs Laxness fá nemendur tækifæri til að átta sig á tímanum og því hve margt hefur breyst frá því Halldór var á þeirra aldri. Sérstök áhersla er lögð strákinn Dóra litla í Laxnesi og það sem hann fékkst við sem krakki og síðar sem fullorðinn maður.

Hvað dettur þér í hug? Skólaheimsókn fyrir 5.-7. bekk
Nemendur kynnast ævi og störfum Halldórs Laxness með sérstakri áherslu á skrifandi strákinn Halldór Guðjónsson í Laxnesi. Heimsókninni er ætlað að kveikja skapandi hugsun og hvetja krakkana til þess að lesa, skrifa, teikna, yrkja eða tjá sig á annan hátt. Nemendur kynnast nokkrum hversdagslegum hlutum á Gljúfrasteini sem ratað hafa í skáldskap Halldórs Laxness. Þannig er lögð áhersla á að skáldskapur getur kviknað af öllu mögulegu í hversdeginum, hversu ómerkilegt sem það kann að virðast. Við upphaf heimsóknarinnar fá nemendur pappírsörk og blýantsstubb, líkt og skáldið notaði sjálft á gönguferðum sínum, og skrá hjá sér það sem þeim dettur í hug á meðan á heimsókninni stendur.

Hér má sjá myndband frá skólaheimsókn á miðstigi

Hljóðleiðsögn og margmiðlunarsýning. Skólaheimsókn fyrir 8.-10. bekk
Elstu krakkarnir fara í hefðbundna hljóðleiðsögn um húsið, kynnast heimilislífinu á Gljúfrasteini og um leið störfum Halldórs Laxness. Í móttökuhúsi safnsins fræðast nemendur um verk og störf Halldórs í gegnum margmiðlunarsýningu. Sérstök áhersla er lögð á þann tíma þegar Halldór var unglingur og ungur maður að feta sín fyrstu skref sem rithöfundur.

Hljóðleiðsögn og margmiðlunarsýning. Skólaheimsókn fyrir framhaldsskóla.
Boðið er upp á vandaða hljóðleiðsögn um húsið sem tekur um 25 mínútur og einnig er nemendum sýndur hluti af margmiðlunarsýningu um ævi og störf Halldórs.
Sérstök áhersla er lögð á þann hluta þegar Halldór var ungur maður að feta sín fyrstu skref sem rithöfundur.

Mögulegt er að sníða heimsóknir sérstaklega að þörfum eða viðfangsefnum nemenda sé óskað eftir því með fyrirvara, til dæmis ef nemendur hafa lesið ákveðna bók eftir Halldór í námskeiðinu.
Nánari upplýsingar veitir starfsfólk safnsins í síma 586-8066 eða í tölvupósti gljufrasteinn [hjá] gljufrasteinn.is