Ræða til flutníngs á fullveldisdaginn 1. desember 1955

Halldór les upp úr verkum sínum á afmæli ungmennafélagsins Aftureldingar í Mosfellssveit árið 1949

Ræða

til flutníngs á fullveldisdaginn 1. desember 1955.  (Bandupptaka)

Á fullveldisdaginn, sem jafnan hefur verið haldinn hátíðlegur síðan 1918, sérstaklega af æskumönnum undir forustu háskólastúdenta, er eðlilegt að á hugann leiti nokkrar spurníngar um tilverurök þessarar norrænu eyþjóðar, sem lærðir útlendíngar telja að búi á ystum takmörkum þess að lifað verði siðmenníngarlífi.  Þessi minníngardagur stúdenta um fullveldi Íslands er haldinn að upphafi hávetrar, á árstíma sem þessi hluti jarðhvelsins fer að nálgast mestan skugga.  Það útheimtist meira siðferðisþrek til að svara spurníngum um tilverurök á degi með hörðum vindum og þúngu skýafari, og næstumþví aungri dagsbirtu, heldur en á blíðum vordegi þegar alt leikur í lyndi.

En það er bót í máli á okkar dögum að hugsa til þess að hér var oft dekkra umhorfs í inngáng jólaföstu heldur en nú.  Hér stóðu áður í dölum og með ströndum fram lág torfhróf eða moldarbíngir í stað húsa á víð og dreif, með næstumþví aungum ljósum á þessum tíma árs utan ósýnilegu ljósi fornsögunnar í brjósti þjóðarinnar.  Það hefur aldrei verið bjartara hið ytra í íslensku skammdegi en á okkar tíð.

Ísland hefur, einsog er, tækni á valdi sínu til jafns við flest önnur lönd, og jafnvel meiri en þau lönd sumhver, sem liggja við suður á heimskrínglunni, lönd þar sem vitrum útlendíngum hefur virst náttúrlegt að siðmenníng yxi af sjálfu sér eins og blóm.  Alþjóðleg tækni heimsins hefur flutt okkur siðmenníng híngað.  En það má ekki fara að ímynda sér að sú alþjóðleg tækni sem hefur lagt undir sig Ísland og flutt því siðmenníngu, í sumum greinum jafnvel á borð við það sem gerist með forgángsþjóðum, hafi streymt hér fram fyrir tilverknað undurs, líkt og þegar Móses drap stafi sínum á klett. Fullveldinu hefur fylgt innlendur atvinnurekstur, íslenskar siglíngar og íslensk utanríkisverslun; þjóðin jókst að afli til að starfa á tæknilegum grundvelli, til að sigla og versla, um leið og hún sleit af sér nýlenduböndin.  Vinnuafl íslensku þjóðarinnar var gert arðbært, því var beint að viðreisn nútímalegs þjóðarbúskapar, það var gert að grundvelli undír íslenskum þjóðarhag, undir sjálfstæðri nasjónalökonómíu.  Og svo mun halda áfram, siðmenníng og velmegun aukast í þessu landi meðan – og því aðeins – starfskröftum og hugviti íslenskra manna verði beint að eflíngu sjálfstæðs íslensks þjóðarbúskapar á tæknilegum grundvelli.  Undirstaða auðlegðar á Íslandi er vinnuafl þjóðarinnar.  Áður meðan við vorum útlend nýlenda, var flutt héðan hvert það lítilræði sem frumstæðir bændur og sjósóknarar sóttu hörðum höndum í skaut lands og sjávar.  Lángtímum saman fanst hinni erlendu nýlendustjórn þó varla svara kostnaði að senda íslendíngum aungla og færi til að draga fisk.  Öll þjóðin lifði við kjör fángabúðaþræla.  Einstökusinnum lét nýlendustjórnin senda híngað skip með hallæriskorn en slíkar sendíngar áttu meira skylt við kristilega góðgerðastarfsemi, og hafa vonandi orðið til þess að afla gefendunum þeirrar vistar í himnaríki sem kristileg góðgerðastarfsemi hefur að takmarki.  Eftir alþjóðlegu hagstjórnarlögmáli mun svo enn verða, að meðan útlendíngar ráða vinnuafli manna á Íslandi, þá ráðstafa þeir því sér í hag og sínum fyrirtækjum, þeir reisa einhverjar stassjónir hér og hvar um landið, og þángað hverfa starfandi menn íslenskir til að gerast óvirkir þjóðfélagsþegnar. Þessum starfsmönnum við hin útlendu fyrirtæki er að vísu greitt í peníngum; en verðlitlum peníngum sem eru gleyptir jafnóðum af brennivínssölum, súkkulaðiframleiðendum og mojbúðum; þessir peníngar fara sömu leið og verkið sem þeir eru goldnir fyrir: fyrir norðan garð og neðan í íslenskum þjóðarbúskap.  Mér virðist ekki út í bláinn á fullveldisdegi Íslendínga, að leiða hugann að því hvort við eigum að sólunda íslensku vinnuþreki í útlenda verkleysu heldur en hagnýta hugvit og handafl landsmanna til að efla innlenda atvinnuvegi, siglíngar og verlsun, efla íslenskan þjóðarbúskap, efla það fullveldi Íslands sem ekki sé aðeins orðin tóm.

Við höfum á næstliðnum áratugum að verulegu leyti gert okkur fjárhagslega undirstöðu sem hæf sé að bera alþjóðlega nútímamenníngu.  Ég er ekki að hafa á móti úlendum áhrifum.  Menníng heimsins er fólgin í því að þjóðirnar noti sér af hugviti hver annararrar en ekki að þær gerist trosberar hver annarrar eða handbendi.

Þó við séum ríkari að afli og hugviti en nokkru sinni fyr í þjóðarsögunni, þá er slíkt lítilsnýtt ef við höfum ekki þá trú á manngildi okkar, þá virðíngu fyrir þjóðerni okkar, sem geri okkur stolta og fegna af hverju því verki er við vinnum.  Það er holt að minnast þess að trúin á Ísland og sannfæríng þess að við værum skapaðir sjálfstæð þjóð var stundum aleiga Íslendínga.  Þó við hefðum leyft purkunarlausum valdamönnum að spila öllu af okkur þángaðtil við stóðum uppi sem ein vesölust þjóða Evrópu hagsmunalega séð, og lifðum í moldarholum einsog refir eða mýs, þá var þó einn þáttur í þessari litlu fátæku þjóð sem aldrei brast, sannfæríngin um tilverurétt okkar, vissan um að við værum sjálfstætt fólk, dómgreind sem gerði fyrirskipanir útlendínga að hlægilegum bjálfaskap á Íslandi; - meira að segja á tímum meðan Ísland var kallað hjáland annars lands og þjóðarhafur vor háður dutlúngum nýlendustjórnar.  Á miðöldum, er erkibiskupar seildust hér til valda í nafni guðs, og sendu híngað bréf frá útlöndum um það hvernig íslendíngar ættu að sitja og standa í landi sínu, þá var hér fyrir í landinu þjóðlegur siðferðisstyrkur hverju erlendu valdboði meiri, sá sem lýsir sér í orðum höfðíngjans Jóns Loftssonar þegar honum var boðaður vilji erlends valdamanns um það hvernig hann ætti að haga sér á Íslandi og hverjum að þjónkast í heiminum; þá svaraði hann þeim orðum sem síðan hafa staðið næst hjarta sérhvers framlegs manns og sæmilegs dreings á Íslandi: „Heyra má ég erkibiskups boðskap“ sagði þessi gamli oddaverji, Jón Loftsson.  „En ráðnn er ég í að hafa hann að aungu.  Og eigi hygg ég að erkibiskup vilji betur né viti en mínir foreldrar, Sæmundur hinn fróði og synir hans.“

Útlent valdboð fær ekki snert þann mann né þá þjóð sem hefur ágæti forfeðranna sér að siðferðilegum bakhjalli og leiðarvísi í vandamálum líðandi stundar.  Sjálfstæðiskendin og sannfæríng manns um manngildi sitt er þesskonar verðmæti andlegt, sem ekkert valdboð megnar að skerpa, og ekki líkamlegar hirtíngar hafa mátt til að brjóta, jafnvel ekki hlekkir, hvortheldur þeir eru gerðir af járni ellegar eru þjóðmegunarlegs eðlis.  Játast aldrei undan því sem vér vitum að er réttur í þessu landi og réttur þessa lands: - Það er sjálfstæði.  Þó að við byggjum öldum saman sem ölmusumenn í moldarbíngjum eins og ég sagði áðan, þá vorum við sjálfstæðir og fullvalda að því leyti sem við viðurkendum ekki í hjarta okkar að nokkur útlendur landstjóarnarmaður, erkibiskup eða herstjóri ætti húsbóndarétt yfir Íslandi; og þó þessi tilfinníng lifði stundum veiku lífi djúpt undir þelanum hjá íslenskum almenníngi, þá skaut hún sprotum sem voldugt líftré í sjálfstæðishreyfíngu 19. aldar, þar sem Jón Sigurðsson var og svo ýmsir ágætir samverkamenn hans, sumir forgaungumenn hans, aðrir eftirmenn.

Það er ekki óalgengt viðkvæði hér á landi nú á dögum, þegar talið berst að nauðsyn þess að marka stefnu Íslands sem sjálfstæðs og fullvalda ríkis í einhverju máli, að menn segja svo: „Ég er þessu máli fylgjandi í hjarta mínu og ég skal reyna að styðja það svo lítið ber á, en ég vil ekki láta bendla mig við það opinberlega, því þá getur verið að ég fái ekki stöðu sem ég er að hugsa um, ellegar missi þá stöðu sem ég hef; að mér verði synjað um lán sem ég þarf að fá; eða fái ekki að fara til Ameríku og verði meira að segja kanski skammaður í blöðunum.“

Það eru heimildir fyrir því að barátta Jóns Sigurðssonar og samherja hans hafi ekki í fyrsta lagi verið háð við hina erlendu nýlendustjórn, heldur einkum og sérílagi við þá menn hér heima á Íslandi sem hugsuðu og töluðu eins og þeir sem ég nú vitnaði til.  Menn af þessu tagi eru höfuðóvinir sjálfstæðis og fullveldis þjóðar sinnar, ekki vegna þess að þeir eigi beinan þátt í að ráða landið undir útlendínga, það gera venjulega aðirir sem standa þeim ennþá ofar að mannvirðíngum; heldur af því að þeir eru hræddir við að fylgja því sem þeir vita rétt.  Það er hörmulegt þegar menn fara að líta á embætti sín, stöður eða lánstraust sem gýligjafir sér til handa fyrir að fylgja fram því sem þeir vita að er rángt.  Þegar einhver álitlegur hópur manna í frammáliði þjóðar hefur þannig mist hið innra sjálfstæði, glatað hugmyndinni um manngildi, þá er ekki góðs að vænta.

Sjálfstæði þjóðar hefst ekki í fullveldi á pappírnum, né í skálaræðum og húrrahrópum, heldur á því að trúnaðarmenn almenníngs, aungusíður en almenníngur sjálfur, þori að vera menn; þori að standa uppi í hárinu á hvaða útlendum erkibiskupi sm er og staðfesta að maður sé íslendíngur eftir þeirri siðferðiskröfu sem í orðinu íslendíngur felst.  Útlendir ofríkismenn sem hafa troðið sér inn og sest upp í ókunnu landi, fyrirlíta aungva jafninnilega og þá menn innlenda sem mæla þeim uppí eyrun; þeir virða þá yfirleitt ekki viðtals nema til að skipa þeim fyrir verkum.  Það liggur í hlutarins eðli að útlendur ásælnismaður virðir þann íslendíng einan sem stendur fast á sjálfstæði og fullveldi lands síns.  Ef mómæli gegn útlendri ásælni og yfirgángi aldrei þagna með þjóðinni; ef það er gegn skýrum vilja landsfólksins, ekki síst þeirra sem skipa trúnaðarstöður, að hervæddir útlendir þrásetumenn traðki hér tún og haga, þá erum við sjálfstæðir hvað sem við kunnum að vera kallaðir þjóðréttarlega.  Land verður ekki heldur ósjálfstætt þó útlent stríðsfólk troði landsfólkinu um tær; menn eru ekki orðnir ósjálfstæðir að marki fyren þeir biðja útlendínga að gánga á sér.  Það er eingin kúnst að vera sjálfstæður ef ekkert aðvífandi vald hefur reynt að troða mönnum um tær.  Þegar japanir höfðu troðið sér inn í mitt Kína í minnum þeirra manna sem nú lifa, og sest meðfram fljótum og öðrum samgaunguæðum, og meira að segja fluttu þángað með sér nútímatækni, sem var í sjálfu sér gott, þá sátu þeir í landinu gegn mótmælum allrar kínversku þjóðarinnar, og aungum datt í hug að þeir mundu haldast þar við til leingdar.  Ef tíu miljónir kínverja stæðu gráir fyrir járnum á bökkum Mississippi-fljóts, og segðust vera komnir þángað til að vernda Bandaríkin, þá fyrst mundi koma í ljós hvort Bandaríkin væru sjálfstæð þjóð eða ekki.  Nú er ég ekki að segja að kínverjar séu að neinu leyti verri menn heldur en bandaríkjamenn, fremur en mér dytti í hug að segja að danir væru verri menn en íslendíngar, þó dönsk stjórn hafi haft Ísland að nýlendu og hjálendu í mörghundruð ár.  Öðru nær ég held að kínverjar séu hvorki verri né betri þjóð en bandaríkjamenn.  En ef bandaríkjamenn létu sér lynda að hafa tíu miljónir vopnaðra kínverja inní landi sínu miðju, án þess að mótmæla þessum aðskotadýrum seint og snemma, vaknir og sofnir, af instu djúpum sálar sinnar; ef þeir segðu: „ég er hræddur um að ég missi stöðuna eða fái ekki lán ef ég er á móti þessum mandarínum,“ þá mundu bandaríkjamenn vera ekki aðeins ósjálfstæð og ófullvalda þjóð í landi sínu (og það ekki síður þó þeir hétu sjálfstæð þjóð í einhverjum pappírsgögnum); heldur mundu þeir vera verri þjóð en kínverjar.

Þessar hugleiðíngar um sannverulegt sjálfstæði þjóðar og hið innra fullveldi, enda þótt landið sé nýlenda einsog Ísland var áður fyr, eða útlend herstöð einsog það er nú, hljóta að vakna hjá sérhverjum íslendíngi af því tilefni er íslenskir æskumenn og menta halda þennan desemberdag heilagan.

1955