Salka Valka

Salka Valka kom út í tveimur hlutum á árunum 1931-1932 og fagnar því níræðisafmæli sínu um þessar mundir. Fyrri bókin, Þú vínviður hreini, kom fyrst út árið 1931 og seinni bókin, Fuglinn í fjörunni kom út á afmælisdegi Halldórs Laxness 23. apríl 1932 þegar hann var þrítugur.  Verkið er fyrsta þjóðfélagslega skáldsaga hans. Sögusviðið er Óseyri við Axlarfjörð þar sem alþýðan lifir við bág kjör og Bogesen kaupmaður ræður örlögum hvers manns

image
Konur vaska saltfisk í kerjum innanhúss hjá Fiskverkuninni Th. Thorsteinsson á Kirkjusandi í Reykjavík. Myndin er frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Ljósmyndari: Magnús Ólafsson (1862-1937)

Nú stendur yfir sýning á Gljúfrasteini þar sem gefur að líta ljósmyndir sem veita innsýn í sögusvið verksins og í kringum 50 mismunandi bókarkápur. Salka Valka er fyrsta skáldsaga Halldórs Laxness sem þýdd var á erlent tungumál, en hún kom út á dönsku árið 1934 í þýðingu Gunnars Gunnarssonar. Síðan þá hefur Salka Valka verið þýdd á 25 tungumál og verið gefin út í fjölda útgáfna. Nýlega kom út enn ein þýðingin þar sem Philip Roughton þýddi á ensku. Bókarkápurnar á sýningunni eru fjölbreyttar enda gefnar út í mismunandi löndum og á mismunandi tímum. Sjálfur gerði Halldór Laxness tilraun til að hanna sína eigin bókarkápu. Hönnuður sýningarinnar er Ragnar Helgi Ólafsson rithöfundur og myndlistamaður. 

“Lífið er saltfiskur” lýsir vel þeirri veröld sem blasti við íbúum í sjávarbyggðum víðsvegar um landið á 19. öld og fyrstu áratugum 20. aldar. Á ljósmyndum má sjá hvernig saltfiskvinnslan setti svip sinn á byggðirnar, sjá má fólk vaska (þvo) fiskinn, bera hann á milli, breiða hann út, og lengst framan af var öll vinna unnin utan dyra. Saltfiskvinnslan breytti þyrpingum í þorp, bæi, kaupstaði, borg. Þéttbýlið var komið til að vera, með nýjum lífsháttum, tengslum og þörfum. Félög festu rætur sínar í þéttbýlinu, stúkan, hjálpræðisherinn, ungmennafélög, kvenfélög svo fátt eitt sé talið, settu svip sinn á bæina. Ný og sterk rödd skar sig úr, verkalýðsfélögin, sem börðust fyrir að fá að semja um kaup og kjör, og oft skarst í odda. Þessi veröld varð skáldinu að yrkisefni, Salka Valka, á sér örugglega margar fyrirmyndir meðal vinnandi kvenna þessa tíma, og aðrar persónur sem ljá bókinni lit sinn og líf. 
 

Greinar um kvikmyndadrauminn
Í lifandi myndum. Grein eftir Arnald Indriðason um kvikmyndadrauma Halldórs Laxness
Kvikmyndadraumur Halldórs Laxness
Woman in pants. Kvikmyndahandritið á ensku

 

Greinar úr erlendum miðlum
From Iceland, a Nobel winner’s rediscovered masterpiece (The Washington Post, 2022)
Village People (The New York Review, 2022)
The Faith of Halldór Laxness (The Nation, 2022)
The Rediscovery of Halldór Laxness (The New Yorker, 2022)