Hin frjálsa frásögn eftir Einar Má Guðmundsson

Sjálfstætt fólk I 1934

Þessi grein birtist upphaflega í Skírni: tímariti hins íslenska bókmenntafélags vorið 2007.

Halldór Laxness
Í Gljúfrasteini býr hann
ljúfastur manna
öðlingurinn mikli
sei sei jú
mikil ósköp

Heim ég hann sótti
með vini mínum
í 14 stiga gaddi

Inn var oss boðið
spjölluðum saman
sei sei jú
mikil ósköp

Betri mann
hvar er að finna
stórskáldið góða

Hundurinn minn er orðinn gamall
og hættur að bíta
og trén í garðinum eru orðin stór
sei sei jú
mikil ósköp

Gaf okkur kaffi
vindla og kökur
brosti svo blíður
og sagði okkur sögur
sei sei jú
mikil ósköp

...

Þannig orti bróðir minn heitinn Pálmi Örn Guðmundsson um Halldór Laxness. Ljóð þetta heitir einfaldlega Halldór Laxness og er að finna í ljóðasafninu Á öðru plani. Ljóðið byggir á raunverulegum atburðum ef svo má segja: Bróðir minn, sem átti við andleg veikindi að stríða og einn vinur hans í sömu stöðu heimsóttu eitt sinn skáldið. Mig minnir að það hafi verið um jólaleytið. Allavega var stundin hátíðleg og oft rifjuð upp. Halldór Laxness sat lengi á spjalli við þá félagana og furðuðu sig nærstaddir á heimilinu hve náið samband hans við gestina var.

“Skáldið er tilfinning heimsins,” segir í Heimsljósi. Á vissan hátt minnir þessi heimsókn félaganna mig á þá staðreynd, því fáir höfundar hafa lýst fólki utan alfaraleiðar þjóðfélagsins af meiri næmni en einmitt Halldór Laxness.

Menn þurfa hvorki titla né búninga til að manneskjan í þeim komi í ljós. Það er heldur enginn mælikvarði á menn hvar þeir búa eða hve mikla peninga þeir eiga.

Það eru margir slíkir strengir í Sjálfstæðu fólki. Samlíðan er eitt af hennar höfuðstefjum og fegurðarþráin gengur ljósum logum, þó sviðið sé hrjúft á yfirborðinu og sá veruleiki sé í forgrunni verksins. Um leið hafa fáar sögur orðið einni þjóð annar eins spegill á eigið sálarlíf eða sjálfsmynd en einmitt Sjálfstætt fólk.

Líklega þarf að leita aftur í fornsögur til að finna hliðstæður. Söguhetjan Bjartur í Sumarhúsum lifir viðlíka sjálfstæðu lífi og Egill Skallagrímsson, Grettir Ásmundarson og Skarphéðinn Njálsson í hugum margra, enda teygja rætur hans sig aftur til þeirra: hinn þrjóski einfari, þverlyndur, orðheppinn.

Nei. Það er fyrsta orðið sem Bjartur í Sumarhúsum segir í sögunni; og hann hugsar einsog sauðkind og kastar af sér vatni. Það sem maðurinn leitar að finnur hann hjá hundinum og það sem hundurinn leitar að finnur hann hjá manninum: og áin fellur straumlygn úr vatninu. Sól skín í heiði.

Þetta er sviðið.

Til er saga sem segir að í einu af þorskastríðunum sem við háðum við Englendinga hafi utanríkisráðherra þeirra beðið ráðgjafa sinn um að færa sér skáldverk sem eyjaskeggjar þessir mætu mikils. Hann vildi kynnast hugarheimi andstæðingsins, líklega til að vita við hverja hann ætti í höggi og hvernig best væri að berja á þeim. Ráðgjafinn lagðist í rannsóknir og gróf upp Sjálfstætt fólk. Hóf nú ráðherrann lestur, en að lestri loknum mun hann hafa sagt: „Þetta stríð vinnum við aldrei.“ Það kom svo á daginn. Hinn íslenski Bjartur í Sumarhúsum sigraði flota hennar hátignar.

Þannig er barátturitið Sjálfstætt fólk í hugum okkar Íslendinga. Eitt risavaxið NEI.  Hvað gerist þegar ein þjóð breytist í einstakling sem aldrei gefur sig, sama hvað á móti blæs og sama hve óskynsamlegt það er? Jú, það er alltaf sá möguleiki í stöðunni að Davíð sigri Golíat. Einhvers staðar djúpt í sálu okkar lofsyngjum við einyrkjann og þegar við förum okkar eigin leiðir líkjum við okkur við Bjart í Sumarhúsum. Svo hefur líka verið sagt að Bjartur sé eini Íslendingurinn sem allir skilja, því að hann sé til öllum löndum. Ótal New York búar gáfu sig fram við Halldór Laxness og sögðust þekkja þennan mann. Enginn vill kannski vera einsog Bjartur en allir segjast þekkja einhvern sem er einsog hann. Ég þekki Ameríkana sem safnar Sjálfstæðu fólki og á 75 eintök af frumútgáfunni. Þau eru kannski orðin fleiri, því nokkur ár eru síðan ég hitti hann síðast.

Hinu má heldur heldur ekki gleyma að fáar bækur hafa vakið aðrar eins deilur hér á landi og einmitt þessi dáða bók. Valdamiklir menn létu að sér kveða og tóku til máls. Sjálfstætt fólk var sögð vera árás á bændastéttina, árás á Íslendinga. Þessum höfundi var ekkert heilagt. Það má segja að ríkt hafi andleg borgarastyrjöld; og hún stóð lengi og á enn sínar birtingarmyndir. En Halldór Laxness átti sér líka góða stuðningsmenn, sem sáu hvílíkt stórvirki var fætt og þar voru einhverjir jafn blindir í dýrkun sinni og hinir í andúð sínni.

Á unglingsárum mínum, þegar Reykjavík var full af dularfullum fornbókaverslunum, fann ég eitt sinn í einni þeirra bækling eftir prest sem hét Pétur og kenndi sig við Vallanes. Bæklingurinn hét Nóbelsskáld í nýju ljósi. Þar hélt séra Pétur því fram að það væri mikið óþarfaverk að þýða bækur Halldórs Laxness yfir á erlendar tungur vegna þess að umfjöllun hans um sóðaskap þjóðarinnar gæti valdið sölutregðu á íslenskum matvælum á erlendum mörkuðum.

Það eru sem sé ýmsar úthliðar á verkinu, en Sjálfstætt fólk er spunnið úr mörgum þráðum, sem sumir rekast á, en verða samt að flík sem ekki er hægt að rekja upp. Það er ekki til að henni nein uppskrift. Samt liggur hún ljós fyrir og er heil í öllum sínum mótsögnum, einsog summa af ótal þversögnum. Já, líklega er starf rithöfundarins fólgið í því að vera alltaf að prjóna sömu peysuna og rekja hana upp aftur og aftur ef vera skyldi að úr yrði raunveruleg peysa. Atrennurnar að Sjálfstæðu fólki voru margar. Ófullburða útgáfur finnast.

"Sagnaskáld eru annálahöfundar í hjarta sínu en ævintýrasmiðir að íþrótt,” segir Halldór Laxness í ritgerð sinni Persónulegar minnisgreinar um skáldsögur og leikrit. “Sannleikur er þeim hugtak úr háspekinni. Jafnvel orðið sannleikur eitt saman felur í sér ógeðfelda réttrúnaðarhugmynd sem krefst viðurkenningar í eitt skifti fyrir öll með tilstilli einhvers konar einokunar. Í þeim tilfellum þar sem sannleikur merkir ekki goðsögn um staðreyndir, merkir hann goð¬sagnir án staðreynda. Hugtök yfirleitt, en þó einkum tilbúnar skilgreiningar, eru góðum skáldsagnahöfundi lítt hugarhaldin.“

Hvað er stórvirki? Ég get ekki hugsað mér neinn æðri mælikvarða stórvirkis en þann, að ekki sé hægt að hugsa sér heiminn án þess. Ansi margt í höfundarverki Halldórs Laxness fellur auðveldlega undir þá mælistiku. Verk hans eru greypt í huga okkar: Það er ekki hægt að hugsa sér heiminn án þeirra. Ella væri hugurinn undir fátækramörkum, fegurðarskynið þrengra og kímnin á annan veg. Ef rómantísku skáldin á nítjándu öld gáfu okkur myndina af landinu sem fögru landi – við höfðum ekki tekið eftir því fyrr - gaf Halldór Laxness okkur myndina af veruleikanum: bókmenntir okkar öðluðust keim af lífi og líf okkar andblæ bókmennta.

Auðvitað eru þetta ýkjur, bæði þetta með rómantíkina og Laxness, en samt ... þetta er vitleysa sem stenst. Skáldskapur er fólginn í því að gera hið óskáldlega skáldlegt, að sjá það sem allir sjá en enginn tekur eftir. Myndin af sjávarþorpinu, myndin af sveitinni, myndin af landinu, konunni, ástinni, allt er þetta samgróið verkum Halldórs Laxness; með mótsagnakenndum hætti þó, enda tók heimsmynd hans margvíslegum breytingum, þó ýmsir rauðir þræðir gangi þar í gegn.

En þetta þekkjum við víðar að, hvernig persónur úr bókmenntum taka sér bólfestu í vitund okkar og verða raunverulegar. Hamlet Shakespears verður raunverulegri en Amlóði Saxos og hver tími skapar sinn Hamlet út frá áhersluatriðum eigin samtíðar. Síðan eru persónur einsog Don Kíkóti sem orðið hafa mælikvarði á athafnir manna og höfundar einsog Franz Kafka sem skapað hafa andrúmsloft sem við lesum inn í ótal aðstæður. Úr okkar sagnaveröld gætum við nefnt persónur úr sögum Halldórs Laxness, einsog Bjart í Sumarhúsum, Jón Hreggviðsson og Ólaf Kárason. Aðrar slíkar persónur mætti nefna af handahófi, Alexis Sorbas, Góða dátann Svejk, Oliver Twist, Bör Börson, Babbitt.

Bjarti í Sumarhúsum hefur oft verið líkt við Don Kíkóta sem persónu, þó Gerpla sé það af verkum Halldórs Laxness sem skyldast er hugsuninni í Don Kíkóta. Einhvern tíma var hún nefnd svar Norðurlanda við því verki Cervantesar. Sjálfstæðishugsjón Bjarts er lík riddarahugsjón Don Kíkóta, nema afleiðingarnar af þrjósku Bjarts ganga ekki bara yfir hann heldur alla hans nánustu. Bjartur sáir alla sína ævi í akur óvinar síns. Hugsjónum hans er aðeins haldið á lofti til að halda honum niðri. Söguskeiði hans er lokið en hann streitist við.

Skáldsagnahöfundur endurskapar tímann, bæði á grundvelli staðreynda, en líka á grundvelli tilfinninga. Auga hans fyrir því hvað er fréttnæmt og hvað ekki byggist ekki síður á innsýn hans og lífsskilningi en almennum sannindum og réttum niðurstöðum. Almenn sannindi og réttar niðurstöður er hvorugt gott veganesti fyrir skáldsagnahöfund. Það sem er vísindalega rétt í dag er kórvilla á morgun. Sá sem vill láta minnast sín fyrir að hafa haft rétt fyrir sér mun örugglega hafa rangt fyrir sér.

Þetta sést skýrt í persónu Bjarts í Sumarhúsum: kannski er hann sem alla tíð hefur verið álitinn á eftir tímanum allt í einu orðinn á undan tímanum, einmitt nú þegar menn draga framfarir iðnvæðingar í efa og mótmæla stórframkvæmdum sem fara fram í næsta nágrenni við sögusvið Sjálfstæðs fólks. Skáldsagnahöfundurinn fylgir nefnilega ekki endilega því sem sannara reynist, einfaldlega af því að sannleikurinn er sjaldnast hlutlæg staðreynd í skáldskap. Sannleikurinn verður til í skáldskap og því er skáldskapurinn boðskapur í sjálfu sér og þar með sannari en sannleikurinn.

Hvatinn á bak við skáldsöguna og hversdagssöguna í sagnfræðinni, sem sumir kalla einsögu, er ekki ósvipaður: að skilja fólk á eigin forsendum og komast handan almennra sanninda, sem oft enda sem tuggur, yfirbreiðsla, hugmyndir sem notaðar eru til að kúga fólk og halda því niðri. Skáldsagan leitar inn í lífskviku atburða, framhjá opinberum sjónarmiðum. Þar býr hið smáa samfélag skáldsögunnar sem speglar allan heiminn. Þess vegna verða þverhausar einsog Bjartur í Sumarhúsum og Don Kíkóti að heimsborgurum.

Upplýsingagildi skáldsögunnar mun alltaf vera afstætt. Eftir lestur Heimsljóss er þekking okkar á sögu niðursetninga og tökubarna ef til vill lítið meiri en hún var fyrir, en skilningur okkar á tilveru þeirra er allur annar. Sama er að segja um Sjálfstætt fólk. Hún er sagan um bóndann, „saga mannsins, sem sáði í akur óvinar síns allt sitt líf, dag og nótt.“ Þar býr lífskraftur hennar en ekki í því hvað okkur finnst um landbúnaðarmál á þeim tíma þegar heiðabýlin eru að hverfa og einyrkjabúskapur að renna sitt skeið á enda.

Væri það svo höfðaði hún ekki til nokkurs manns nú á tímum og stæði aðeins sem minnisvarði þessara þjóðfélagsbreytinga. Tökum sem dæmi Rauðsmýrarmaddömuna: allar greinar, öll störf, öll menning, í stuttu máli, öll kerfi sem vilja viðhalda sjálfu sér koma sér upp sinni Rauðsmýrarmaddömu. Einn dag er hún stjórnmálamaður, næsta dag stofnun, menningarviti, íþróttafrömuður. Það gat jafnvel hlaupið Rauðsmýrarmaddama í Laxness sjálfan þegar hann mærði það sem hann mærði, þjóðina, menninguna.

En sem sé, sagan og tíminn, þjóðfélagsástandið, staða bænda, allt kann þetta að hafa verið styrkur Sjálfstæðs fólks þegar hún kom út, en í nútíma umræðunni er margt annað upp á teningnum. Hvaða merkingu öðlast Bjartur í veröld sem vill steypa alla í sama mót og Rauðsmýrarmaddömurnar pípa stöðugt um hagvöxt? Þegar nær allir stjórnmálaflokkar segja það sama; og þannig mætti lengi spyrja. Þó að Sjálfstætt fólk flytji skýran boðskap um vonlausan málstað er sjálfur tilverukjarni verksins með einhverjum dularfullum hætti miklu stærra en málstaðurinn. Sjálfstætt fólk er þannig óháð ritunartíma sínum og hefur öðlast sígilda skírskotun.

...

Halldór Laxness fæddist árið 1902 og lifði næstum því í heila öld. Engu að síður hermir sagan að hann hafi ekki verið nema sjö ára þegar hann fékk vitrun þess efnis að hann myndi deyja á sautjánda aldursári sínu. Fyrst svo var í pottinn búið var hann staðráðinn í að láta liggja eftir sig eina skáldsögu og fyrsta skáldsagan hans, Barn náttúrunnar, kom út árið 1919. Var það ástarsaga sem þótti lofa góðu.

Vitrun hins sjö ára drengs reyndist sem betur fer ekki rétt og Halldór Laxness átti eftir að skrifa margar sögur, svo margar að Barn náttúrunnar og næstu bækur, teljast nú bernskuverk þó furðumikils þroska gæti víða í þeim; en það verður að teljast sérkenni þegar skáldverk Halldórs Laxness eru skoðuð í heild hve mörg meistaraverk eða stórvirki þar er að finna.

Margir höfundar hafa komið sér upp góðu höfundarnafni með tveimur, þremur eða fjórum úrvalsverkum og þá gjarnan einu sem stendur upp úr. Slíkt er í sjálfu sér fínt og afrek á bókmenntasviðinu verða seint mæld í magni. Eitt ljóð sem lifir er nóg. En það hve afrek Halldórs Laxness á skáldsagnasviðinu eru mörg og það hve ólík þau eru - sem sé, hve vítt svið hann spannar - verður að teljast eitt af sérkennum hans.

En um leið og ég nefni sögur Halldórs Laxness er líf hans ekki svo ólíkt sögu; æfintýri: sonur bóndans og vegaverkstjórans og húsfreyju hans, alinn upp við fótskör ömmu sinnar, drengurinn sem hvorki festist við nám né störf en hélt ungur út í heim, flakkaði um Evrópu í styrjaldarrústum og upplausn, þar til hann settist að hjá munkum, skírðist til kaþólskrar trúar og tók sér dýrlingsnafnið Kiljan, skrifaði nokkur verk í anda þeirrar trúar þar til hann tókst á við hana í nútímalegu uppgjöri og skrifaði, þá búsettur á Sikiley, Vefarann mikla frá Kasmír, sem kom út árið 1927 og er oft talinn marka upphaf íslenskra nútímabókmennta, eyddi næstu tveimur árum í Hollywood með það fyrir augum að hasla sér völl í kvikmyndaiðnaðinum, en sneri aftur þaðan sem sósíalisti og hóf sitt flakk um Ísland og leit svo við í Sovétríkjunum og gerðist þeim handgenginn, einsog frægt er orðið, þó aldrei tækist honum að fylgja þeim rétttrúnaði í skáldverkum sínum, til þess var hann of mikill höfundur.

Vefarinn mikli frá Kasmír er undarlegt ferðalag í gegnum upplausn tímans og óreiðu. Allir hinir nútímalegu bókmenntastraumar þess tíma, expressionismi, surrealismi og dadaismi, öðlast líf á hinni fornu tungu sagnalistarinnar. Heimur skáldsögunnar er menningaróreiða tímans. Myndmál hennar og skynjun kemur beint úr nýjustu menningarstraumunum. Í henni má jafnvel finna tískudekur af því tagi sem Halldór Laxness lagðist síðar mjög gegn: þeirri tilhneigingu þegar rithöfundar ganga ötullega fram í að sýna kunnáttu sína. Slíkt átti Halldór Laxness eftir að telja í andstöðu við einlæga sagnalist og lærdóma hinna fornu meistara. Sá sem býr yfir kunnáttunni þarf ekki að veifa henni einsog ökuskírteini. Þvert á móti ekur hann án skakkafalla með kunnáttuna í farangrinum.

Eitt leiðarstefið í Vefaranum mikla frá Kasmír er dýrð heimsins, eða andrúmsloft dýrðarinnar. Síðan taka önnur stef við, eiginlega andhverfa dýrðarinnar, eymdin, volæðið og hið félagslega óréttlæti. Ferðalög um Ísland og Ameríkudvölin móta sýn hans á veruleikann. Þjóðfélagsraunsæið í anda bandarísku skáldanna og kommúnisminn opna augu hans fyrir hinu sama, hinu þjóðfélagslega óréttlæti. Þessir þættir hafa oft verið nefndir í sömu andrá og næstu verk Halldórs Laxness: þjóðfélagslegu skáldsögurnar, Sölku Völku, Sjálfstætt fólk og Heimsljós.

Samt eru þessar þrjár skáldsögur í raun alveg jafn róttækar og nútímalegar og Vefarinn mikli frá Kasmír. Í þeim byrjar Halldór Laxness hins vegar þá list að fella hina nútímalegu strauma að söguefni úr hversdagslegum raunveruleika. Aðferðin verður hluti af efninu, en efnið ekki grundvallað á aðferðinni. Eða með öðrum orðum: Þetta tvennt verður ekki greint í sundur heldur hluti hvort af öðru. Í stuttu máli sagt: sígild nútímaleg frásagnarlist.

Halldór Laxness hafði velt kotbóndanum lengi fyrir sér og gert að honum nokkrar atrennur. Fyrir daga Sölku Völku og Sjálfstæðs fólks, á meðan Halldór Laxness drakk í sig Evrópumenninguna einsog ölvaður unglingur, ferðaðist hann um Ísland og kynnti sér aðstæður þess fólks sem hann ætlaði að skrifa um. Með Sjálfstæðu fólki tókst honum að láta hið lokaða íslenska sögusvið tákna heiminn og höfða til lesenda um allan heim. Mér persónulega finnast sömu þættir vera komnir fram í Sölku Völku, en hinu er ekki að neita, hún hefur ekki öðlast sess Sjálfstæðs fólks og raunar Heimsljós ekki heldur.

Í þessum verkum öllum er Halldór Laxness í stanslausum samræðum við heimsbókmenntirnar og í Sjálfstæðu fólki er hann að skora ákveðna heimsmynd á hólm, helst þá sem birtist í Gróðri jarðar eftir Knut Hamsun. Bjartur er hliðstæður Ísak, aðalpersónunni í Gróðri jarðar, en án fegrunar sveitalífsins og andúð á framförum sem einkenndi hugmyndaheim Hamsuns. Í bók sinni Halldór Laxness ævisaga segir Halldór Guðmundsson um þennan mun: „Báðir skrifa þeir sögu um sterkan mann, sem yfirgefur siðmenninguna. En Hamsun er í raun svartsýnn á menningu og mannlegt félag og skrifar því gamanleik um efnið, það er grunntónninn í Gróðri jarðar. Halldór er hins vegar bjartsýnismaður um möguleika mannlífsins, og skrifar harmleik um þennan mann.“ (bls.367)

Um þennan mun á verkunum tveimur segir Halldór Laxness sjálfur: „Því hefur verið haldið fram að Sjálfstætt fólk væri að nokkru leyti stælt eftir Hamsun, Markens Gröde. Það er að því leyti rétt sem hér er spurt sömu spurningar og í Markens Gröde, - þó svarið sé að vísu þveröfugt við svar Hamsuns. Ég er ekki að segja að allar þjóðfélagsniðurstöður – eða aðrar – í Sjálfstæðu fólki séu réttar, en sinn þátt í samningu bókarinnar átti sú vissa mín að þjóðfélagsniðurstöður Hamsuns í Markens Gröde væru yfirleitt rangar. Þessar tvær bækur eiga það sameiginlegt, einsog reyndar þúsund bækur aðrar, að þær fjalla um bændamál; en þær eru bersýnilega með andstæðum forteiknum.“

Hið biblíulega svið landnáms er í rauninni það sama hjá Halldóri Laxness og Knut Hamsun, en það vísar líka fram fyrir til verka einsog Hundrað ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marquez. Í eftirmála sínum að þýðingu sinni segir Guðbergur Bergsson: „Einhver biblíulegur blær hvílir yfir frásögu Hundrað ára einsemdar, og hún er eins konar stef við Mósebók.

Það mun hafa verið Hamsun sem fyrstur höfunda færði þá goðsögu í nútímalegan búning og niður á jörðina í skáldsögu, þegar hann leiddi fólk sitt yfir fjöll og heiðar í leit að gróðri jarðar í einhverju nýbroti. Síðan rís þar bær í þessu fyrirheitna landi, einhver sumarhús sem leggjast í eyði eftir uppgangstíð og blóðskömm og syndaflóð í sál mannanna. Ýmsir höfundar hafa endurtekið þetta efni gamla testamentisins með ótal tilbrigðum og misjöfnum árangri. Sagnaviðurinn hefur verið einkar kær löndum sem einhvern tíma voru nýr heimur en nú er spilltur. Þetta eru fjölskyldusögur innblásnar anda hreinnar lútersku eða kommúnisma, en fitla með sérkennilega úrkynjuðum hætti við syndina og hafa það markmið að vera þjóðtákn, refsivöndur og ástarjátning til ættlandsins í senn. Þekktustu höfundar þannig ástarhaturssagna eru Hamsun, Faulkner, Laxness, Rúlfó og Marquez.“

Juan Rúlfó skrifaði Pedro Paramo og nefndi Hamsun og Laxness sem lærimeistara sína. Hún gerist í þorpinu Comala sem sagt er vera ein kveikjan að Macondo, þorpi Gabriel Garcia Marquez í Hundrað ára einsemd, en í því þorpi rúmast einmitt saga heillar heimsálfu. Þetta litla dæmi birtir áhrif og skyldleika Norðurlandabókmennta við bókmenntir frá Suður-Ameríku, því oft er rætt um bókmenntir þessara svæða einsog austur og vestur. Í því samhengi er líka vert að minna á Jorge Luis Borges og hvernig hann vinnur úr áhrifum frá Snorra Sturlusyni og Íslendingasögum. Þau áhrif birtast í fjölmörgum ljóða hans en þó fyrst og fremst í hinum svonefndu blátt áfram smásögum, straight forward stories. Annað glæsilegt dæmi um þessa aðferð, það er hvernig lítill heimur rúmar stóran, eru skáldsögur William Heinesen frá Færeyjum. Þannig mætti lengi telja, en kjarni málsins er sá í hve lifandi samræðum bókmenntir eiga, ekki bara á milli staða, heldur á milli tímabila. Þær kallast á heimshorna á milli einsog húsmæður á milli svala.


Í ritgerð sinni Perónulegar minnisgreinar um skáldsögur og leikrit segir Halldór Laxness eftirfarandi um söguna og skáldskapinn: “Talsverður tími hefur farið í það fyrir mér að setja skáldsögur saman, svo ég komst ekki hjá því að fá dálitla sjálfsreynslu af þessum miðli. Ég reyndi að gera það sem ég gat úr því sem mér virtust höfuð¬kostir þessa forms, sumum að minnsta kosti. Einn þeirra og sá sem mér hefur einlægt fundist nokkuð mikilvægur, ef ekki aðalundirstaða þess, það er annálseðlið: höfundur læst vera að breyta liðnum atburðum í skrifaða frásögn, breyta mannlegum staðreyndum í bók. Hann fyllir bók að dæmi sagnfræðings með fólki og atburðum. Óþarft er að taka fram að sagnritun til forna var starfsemi sem liggur fjarri sagnfræði einsog nú tíðkast; mörkin milli staðreyndar og sögu færast úr stað eftir því sem tímar líða. Þó hygg ég að sagnfræði áður fyr hafi átt fleira sammerkt við skáldsagnagerð vorra tíma heldur en við nútíma sagnfræði; ég á við Þúkydídes sé fjarskyldari nútíma sagnfræði en nútíma skáldsögu.”

Í framhaldi af þessu talar hann um höfunda Íslendingasagnanna og segir þá hafa verið gædda hæfileikum að koma heimssögulegum veruleika fyrir með fáum og einföldum orðum í litlu dæmi. “Þeir kunnu að draga upp myndir sem útheimtust til æsilegrar frásögu, oft af mönnum sem enginn kannaðist við annars staðar að, úr marklitlum plássum. Þeir voru varkárir í meðulum sem meðal annars lýsti sér í því að fullyrða alltaf minna en efni stóðu til. Þungi frásagnarinnar skapaðist ekki af hæð raddarinnar, heldur temprun tilfinningarinnar og aga hugarins."

Halldór Laxness sagði einnig um Heimskringlu Snorra Sturlusonar: "Sjóræningjar, búhöldar og afdalakóngar norðan af hjara veraldar rísa tignarstórir úr ósannfróðlegri fornaldar¬nótt sinni og spyrna enni við himinhvelinu."

Þessi  viðhorf Halldórs Laxness til sagnalistar ríma ekki svo illa við lýsingu hans á húsi Ólafs Kárasonar í Heimsljósi: “Þetta litla hús sem gat í rauninni varla heitið hús, það bæði víkkaði út og hækkaði uns það var eins stórt og allur heimurinn.”

Nú vil ég gera langa sögu stutta og segja að með skáldsögunum þremur, sem hafa verið nefndar, sem sé, Sölku Völku, Sjálfstæðu fólki og Heimsljósi, hefjist innganga Halldórs Laxness í klaustur hinnar miklu sagnahefðar. Hann sem hóf feril sinn með vissum hætti í uppreisn gegn henni barði nú að dyrum hennar, reiðubúinn að krjúpa á kné frammi fyrir hinum fornu meisturum en án þess að gleyma samtíma sínum. Modernisminn fellur að episku samhengi sínu eða hið episka samhengi gleypir modernismann.

Sem ungur maður sagði Halldór Laxness í hálfkæringi: “Er ekki endirinn á öllum Íslendingasögum sá að Njáll er brendur?” Hann hikaði ekki við að rísa gegn hinu viðtekna, hefðinni, en kraup síðan jafn ákafur við dyr hennar og miðlaði henni sem eilífum lærdómi, eilífri leit.

Eða - og að því má líka spyrja - var hefðin það sterk að hún gleypti uppreisnina og lagaði hana að sínum eigin þörfum? Þannig lesum við skáldsögur Halldórs Laxness í dag sem endurnýjun sagnahefðarinnar fremur en tilraun til að brjóta hana niður. Hefð og endurnýjun er eitthvað sem verður að haldast í hendur: og þau verk Halldórs Laxness sem hann átti eftir að skrifa og ég hef ekki nefnt, einsog Íslandsklukkan, Gerpla, Atómstöðin, Brekkukotsannáll, Paradísarheimt, Kristnihald undir jökli, Innansveitarkróníka og Guðsgjafaþula ganga öll ekki skemur í þessa átt.

Hið smáa og hið stóra: maðurinn sem mælikvarði allra hluta. Það er alkunna hvernig Halldór Laxness endurlífgaði hinn forna sagnaheim en var um leið allra höfunda nútímalegastur og lék sér með stílbrögð og flækjur ef því var skipta. Hann færði hinn alþjóðlega bókmenntaheim inn á sögusvið okkar; og breytti honum um leið. Hann sá fljótt að tískusveiflurnar, tiktúrurnar og stælarnir skiptu litlu máli. Kjarninn bjó í hinu einfalda, í litlu dæmi, sem kannski var alls ekki svo einfalt.

Að vera sjálfum sér samkvæmur þýðir ekki að hafa sömu skoðun allt sitt líf heldur hitt að horfast í augu við hið margbrotna og lifa í mótsögnunum sem umlykja allt okkar líf eða einsog Halldór sagði í einni af ritgerðum sínum um skáldskapinn: “Skáldsaga gerist raunar ekki í veruleikanum, en það gerir sönn saga ekki heldur. Saga gerist í epískum tíma á epísku sviði, því sviði þar sem Úlfar sterki er fjórði launsonur Klarelíusar konungs af Afríku.”

Við sem sýslum með sömu verkfæri og Halldór Laxness, skrifum á sama tungumáli og komum úr sama menningarheimi: hvaða máli skiptir hann okkur? Ég hef stundum verið spurður að því, einsog aðrir íslenskir höfundar, hvernig sé að skrifa í skugga jafn mikils höfundar. Svar mitt hefur verið einfalt: Ég hef aldrei séð neina skugga, bara sólargeisla.

Halldór Laxness er ekki höfundur sem menn herma auðveldlega eftir; og slíkt er í sjálfu sér ekki eftirsóknarvert. Slíkt væri einsog falsað málverk. Hver höfundur finnur sinn tón sjálfur en það gerir hann með hjálp annarra höfunda. Á þann hátt verða bókmenntirnar til. Allt tekst á: Nútíminn og fornöldin, hið staðbundna og hið hnattræna.

Þannig ganga menn til verka, í eilífum lærdómi, í eilífri leit.

Gabriel Garcia Marquez hefur lýst því þegar hann gekk dapur um regnþungar götur Bogotaborgar. Þegar hann las Hamskiptin eftir Frans Kafka, fyrstu setninguna, þegar Gregor Samsa vaknar sem bjalla, hugsaði hann: Þetta er hægt.

Fyrir íslenska rithöfunda nútímans er Halldór Laxness slíkt fordæmi: Þetta er hægt. Ekkert þarf að hindra þig: ekki tungumálið, ekki fólksfæðin og söguefnin þau liggja í loftinu, eða þú grefur þau upp með skóflu orðanna, í eilífum lærdómi, í eilífri leit.


Helstu heimildir:
Halldór Guðmundsson: Halldór Laxness ævisaga
Vésteinn Ólason: Halldór Laxness, Sjálfstætt fólk