Ég man enn hvern kipp hjarta mitt tók snemma árs 1972 er Jón Þórarinsson kallaði mig inn á skrifstofu sína og tjáði mér að sjónvarpið í Hamborg hefði ákveðið að kvikmynda skáldsögu Halldórs Laxness, Brekkukotsannál, þá um sumarið, í samvinnu við allar sjónvarpsstöðvarnar á Norðurlöndum.
Leikstjóri og höfundur handrits héti Rolf Hädrich, en allir leikarar yrðu íslenskir. Framlag sjónvarpsins fælist einkum í því að sjá verkefninu fyrir margvíslegri aðstoð og aðstöðu auk þess að annast um útlit myndarinnar, og skyldi ég hafa það verkefni með höndum. Þá var hrognkelsatíð við Faxaflóa og ég lét það verða mitt fyrsta verk að fara vestur á Ægisíðu og kaupa 40 rauðmaga og setja í frysti.
Smám saman kom svo í ljós hvers kyns stórvirki hér var á ferð og undirbúningur hófst af kappi. Tökustaðir voru rúmlega 20, bæði innanhúss og utan, og skyldi kappkostað að ná fram andblæ Reykjavíkur á fyrsta áratug 20. aldar. Voru margar ferðir farnar í leit að tökustöðum og leikmyndagerðin hófst í byrjun maí í leikmunageymslu sjónvarpsins við Lækjarteig í einmuna blíðu. Jón Þórisson, leikmyndateiknari, var mín hægri hönd, og reyndar oft einnig sú vinstri, og máttum við saman líða marga raun þetta eftirminnilega sumar. Í leit að tökustöðum notuðu menn þá þýsku sem þeir kunnu, bentu út um bílgluggann og sögðu: „Das Haus", „Guten Tag" (gott þak) og „Schöner Wohnen". Ekki varð vart misskilnings út af þessu. Framlag norska sjónvarpsins til myndarinnar var öðlingurinn Sölve Kern sem talaði reiprennandi þýsku og gegndi oftar en ekki hlutverki túlks og sáttasemjara ef listrænn skoðanaágreiningur varð uppi.
Drjúgur hópur manna var ráðinn til starfa; yfirsmiður, flokksstjóri, sjö smiðir, fjórir málarar, tveir leikmunaverðir og fjórir aðstoðarmenn, auk tveggja bílstjóra, saumakonu og sérfræðinga til ákveðinna verka. Þeirra á meðal var Þorgeir bóndi í Gufunesi sem tók að sér að útvega hesta og venja þá við að ganga í skreiðarlest.
Sjálfur torfbærinn í Brekkukoti var reistur við litla tjörn í Gerðum í Garði, sáð til rófna og kartöflur settar niður í blíðunni. Gamall hjallur var fenginn af Vesturgötu, og er sá nú í Árbæjarsafni. Skikinn var girtur af á meðan hann var að gróa og vorum við skammaðir alvarlega af ritstjóra Tímans fyrir að nota gaddavír. Slíkt hefði hann Björn í Brekkukoti aldrei gert. Gaddavírinn var fjarlægður þegar rófurnar voru sprottnar og þekjan gróin.
Og það var eins og við manninn mælt, þegar tökur hófust í júní brast á með einhverju alræmdasta rigningarsumri sem um getur. Götumyndin „Langastétt" var byggð í heilu lagi í holtinu fyrir ofan Geldingarnes-eiðið í Gufunesi (nú hluti af Grafarvogshverfi) og fauk í það minnsta einu sinni eins og hún lagði sig. Sömu nótt hurfu hafnarkamrar, hátíðarhlið og önnur nýreist mannvirki á Eyrarbakka í mesta brimi sem þar hafði gert í manna minnum. Allt var þetta þó endurreist í tæka tíð, en veðráttan gerði margan usla.
Ævinlega voru tvær tökuáætlanir klárar fyrir næsta dag, plan A og plan B, annað inni, en hitt úti. Lifðu leikmyndagerðarmenn í stöðugri óvissu um hvort yrði ofaná, en þeirra var að undirbúa tökustaði. Hófu þýskir gjarnan símhringingar í veðurstofu og hvern annan um það leyti sem rofaði af degi og spáðu í skýjafar. Stundum kom fyrir að þeir hringdu í allan hópinn klukka sex að morgni og sögðu mönnum að sofa alveg rólegir til sjö. Fljótlega gekk á innitökur vegna tíðarfarsins. Kvikmyndað var í Árbæjarsafni, íbúð við Hverfisgötu, Lágafellskirkjugarði, Eyrarbakkakirkju, Gúttó í Hafnarfirði og víðar, en aðal myndverið var í Skeifunni 11. Þar var bærinn byggður fyrir innitökur, stofan og miðloftið, ásamt fjóslofti og herbergi á Hótel Íslandi.
Margir þjóðkunnir einstaklingar brugðu sér í smáhlutverk og spókuðu sig á Löngustétt eða á samkomu í Gúttó. Meðal þeirra var Halldór Laxness sem lék biskupinn með talsverðum tilþrifum. Þótti mörgum skondið að sjá töframanninn Baldur Georgs draga gullpeninga út úr nefi Nóbelskáldsins á saungskemmtun. Halldór lét sér margt varða við gerð myndarinnar, lánaði muni og lagði á ráðin. Til eru fyrirsagnir frétta af Garðari Hólm í „Foldinni’’, sem hann páraði á blað fyrir leikmyndagerðarmenn, og klukkan góða sem James Cowan smíðaði í Edinborg árið 1750 og segir „eilíbbð, eilíbbð...’’, og sýndi túnglkomur áður en klastrari komst í hana, kom ofan af Gljúfrasteini ljúflega og umyrðalaust ásamt gráum belgvettlingum, mynd af Guðrúnu Klængsdóttur og hundinum Lubba.
Upptökur stóðu lengi hausts og reyndu mjög á menn og málleysingja; hænur sem þvælst höfðu í pappakössum vikum saman töpuðu tímaskyninu og urpu hvar sem þær tylltu niður fæti, og kýrin sem flengdist í sendiferðabíl frá Garðinum upp á Lágafell, í Árbæjarsafn og á fleiri staði, missti nytina. Og rauðmagarnir 40 enduðu í Kleifarvatni þegar síðustu upptökum á „vornótt á Skerjafirði’’ lauk þar í slydduveðri og hraglanda í október. Þeir höfðu þá leikið grásleppu af og til allt sumarið og voru ekki sjón að sjá. Hinn frábæri kvikmyndatökumaður, Peter Hassenstein, var sá sem hélt þráðunum saman til enda. Það var hann sem keyrði menn áfram þegar aðrir voru að gefast upp, og það var hann sem gaf leikmyndamönnum stóra rommvindla þegar þeir voru að missa móðinn.
En útkoman var dásamleg. „Brekkukotsannáll" er falleg, einlæg og vel heppnuð sjónvarpsmynd, þótt menn deili um hvort söngur Garðars Hólm hefði átt að heyrast eða ekki. Hinu verður ekki mótmælt, að túlkun Jóns Laxdals á hinu harmræna hlutverki heimssöngvarans var frábær. Margir öndvegisleikarar af eldri kynslóð, sem nú eru flestir horfnir, léku einnig af list; Regína Þórðardóttir, Þorsteinn Ö. Stephensen, Þóra Borg, Jón Aðils, Brynjólfur Jóhannesson, Valur Gíslason, Valdimar Helgason, Nína Sveinsdóttir, Bríet Héðinsdóttir og Helgi Skúlason, auk Árna Tryggvasonar, Róberts Arnfinnssonar, Margrétar Helgu Jóhannsdóttur og fleiri, sem enn eru á fjölunum. Þá kom ung stúlka á óvart í hlutverki óhemjunnar fröken Gúðmúnsen, nefnilega Sigrún Hjámtýsdóttir, Diddú. Óhætt er að þakka Sveini Einarssyni hve vel var skipað í hlutverkin.
„Brekkukotsannáll" var stærsta kvikmyndaverkefni sem ráðist hafði verið í hér á landi og kom á afar mikilvægum tíma. Þar fengu margir sína eldskírn og reynslan sat eftir. Nú voru menn tilbúnir til að takast á við hvað sem var. Að lenda í verkefni eins og þessu var á við marga skóla. Allt útlit myndarinnar var með ágætum og undirrituðum var tjáð að hans biði vís frami í þýsku sjónvarpi, stæði hugurinn til þess. Myndin var sýnd í allmörgum evrópskum sjónvarpsstöðvum og fékk margvíslegar viðurkenningar. Nú, réttum 30 árum síðar, er sumarið ´72 enn í fersku minni þeirra sem þá stigu sín fyrstu skref á sviði Kvikmyndagerðar með stórum staf.
Björn G. Björnsson tók saman
Smám saman kom svo í ljós hvers kyns stórvirki hér var á ferð og undirbúningur hófst af kappi. Tökustaðir voru rúmlega 20, bæði innanhúss og utan, og skyldi kappkostað að ná fram andblæ Reykjavíkur á fyrsta áratug 20. aldar. Voru margar ferðir farnar í leit að tökustöðum og leikmyndagerðin hófst í byrjun maí í leikmunageymslu sjónvarpsins við Lækjarteig í einmuna blíðu. Jón Þórisson, leikmyndateiknari, var mín hægri hönd, og reyndar oft einnig sú vinstri, og máttum við saman líða marga raun þetta eftirminnilega sumar. Í leit að tökustöðum notuðu menn þá þýsku sem þeir kunnu, bentu út um bílgluggann og sögðu: „Das Haus", „Guten Tag" (gott þak) og „Schöner Wohnen". Ekki varð vart misskilnings út af þessu. Framlag norska sjónvarpsins til myndarinnar var öðlingurinn Sölve Kern sem talaði reiprennandi þýsku og gegndi oftar en ekki hlutverki túlks og sáttasemjara ef listrænn skoðanaágreiningur varð uppi.
Drjúgur hópur manna var ráðinn til starfa; yfirsmiður, flokksstjóri, sjö smiðir, fjórir málarar, tveir leikmunaverðir og fjórir aðstoðarmenn, auk tveggja bílstjóra, saumakonu og sérfræðinga til ákveðinna verka. Þeirra á meðal var Þorgeir bóndi í Gufunesi sem tók að sér að útvega hesta og venja þá við að ganga í skreiðarlest.
Sjálfur torfbærinn í Brekkukoti var reistur við litla tjörn í Gerðum í Garði, sáð til rófna og kartöflur settar niður í blíðunni. Gamall hjallur var fenginn af Vesturgötu, og er sá nú í Árbæjarsafni. Skikinn var girtur af á meðan hann var að gróa og vorum við skammaðir alvarlega af ritstjóra Tímans fyrir að nota gaddavír. Slíkt hefði hann Björn í Brekkukoti aldrei gert. Gaddavírinn var fjarlægður þegar rófurnar voru sprottnar og þekjan gróin.
Og það var eins og við manninn mælt, þegar tökur hófust í júní brast á með einhverju alræmdasta rigningarsumri sem um getur. Götumyndin „Langastétt" var byggð í heilu lagi í holtinu fyrir ofan Geldingarnes-eiðið í Gufunesi (nú hluti af Grafarvogshverfi) og fauk í það minnsta einu sinni eins og hún lagði sig. Sömu nótt hurfu hafnarkamrar, hátíðarhlið og önnur nýreist mannvirki á Eyrarbakka í mesta brimi sem þar hafði gert í manna minnum. Allt var þetta þó endurreist í tæka tíð, en veðráttan gerði margan usla.
Ævinlega voru tvær tökuáætlanir klárar fyrir næsta dag, plan A og plan B, annað inni, en hitt úti. Lifðu leikmyndagerðarmenn í stöðugri óvissu um hvort yrði ofaná, en þeirra var að undirbúa tökustaði. Hófu þýskir gjarnan símhringingar í veðurstofu og hvern annan um það leyti sem rofaði af degi og spáðu í skýjafar. Stundum kom fyrir að þeir hringdu í allan hópinn klukka sex að morgni og sögðu mönnum að sofa alveg rólegir til sjö. Fljótlega gekk á innitökur vegna tíðarfarsins. Kvikmyndað var í Árbæjarsafni, íbúð við Hverfisgötu, Lágafellskirkjugarði, Eyrarbakkakirkju, Gúttó í Hafnarfirði og víðar, en aðal myndverið var í Skeifunni 11. Þar var bærinn byggður fyrir innitökur, stofan og miðloftið, ásamt fjóslofti og herbergi á Hótel Íslandi.
Margir þjóðkunnir einstaklingar brugðu sér í smáhlutverk og spókuðu sig á Löngustétt eða á samkomu í Gúttó. Meðal þeirra var Halldór Laxness sem lék biskupinn með talsverðum tilþrifum. Þótti mörgum skondið að sjá töframanninn Baldur Georgs draga gullpeninga út úr nefi Nóbelskáldsins á saungskemmtun. Halldór lét sér margt varða við gerð myndarinnar, lánaði muni og lagði á ráðin. Til eru fyrirsagnir frétta af Garðari Hólm í „Foldinni’’, sem hann páraði á blað fyrir leikmyndagerðarmenn, og klukkan góða sem James Cowan smíðaði í Edinborg árið 1750 og segir „eilíbbð, eilíbbð...’’, og sýndi túnglkomur áður en klastrari komst í hana, kom ofan af Gljúfrasteini ljúflega og umyrðalaust ásamt gráum belgvettlingum, mynd af Guðrúnu Klængsdóttur og hundinum Lubba.
Upptökur stóðu lengi hausts og reyndu mjög á menn og málleysingja; hænur sem þvælst höfðu í pappakössum vikum saman töpuðu tímaskyninu og urpu hvar sem þær tylltu niður fæti, og kýrin sem flengdist í sendiferðabíl frá Garðinum upp á Lágafell, í Árbæjarsafn og á fleiri staði, missti nytina. Og rauðmagarnir 40 enduðu í Kleifarvatni þegar síðustu upptökum á „vornótt á Skerjafirði’’ lauk þar í slydduveðri og hraglanda í október. Þeir höfðu þá leikið grásleppu af og til allt sumarið og voru ekki sjón að sjá. Hinn frábæri kvikmyndatökumaður, Peter Hassenstein, var sá sem hélt þráðunum saman til enda. Það var hann sem keyrði menn áfram þegar aðrir voru að gefast upp, og það var hann sem gaf leikmyndamönnum stóra rommvindla þegar þeir voru að missa móðinn.
En útkoman var dásamleg. „Brekkukotsannáll" er falleg, einlæg og vel heppnuð sjónvarpsmynd, þótt menn deili um hvort söngur Garðars Hólm hefði átt að heyrast eða ekki. Hinu verður ekki mótmælt, að túlkun Jóns Laxdals á hinu harmræna hlutverki heimssöngvarans var frábær. Margir öndvegisleikarar af eldri kynslóð, sem nú eru flestir horfnir, léku einnig af list; Regína Þórðardóttir, Þorsteinn Ö. Stephensen, Þóra Borg, Jón Aðils, Brynjólfur Jóhannesson, Valur Gíslason, Valdimar Helgason, Nína Sveinsdóttir, Bríet Héðinsdóttir og Helgi Skúlason, auk Árna Tryggvasonar, Róberts Arnfinnssonar, Margrétar Helgu Jóhannsdóttur og fleiri, sem enn eru á fjölunum. Þá kom ung stúlka á óvart í hlutverki óhemjunnar fröken Gúðmúnsen, nefnilega Sigrún Hjámtýsdóttir, Diddú. Óhætt er að þakka Sveini Einarssyni hve vel var skipað í hlutverkin.
„Brekkukotsannáll" var stærsta kvikmyndaverkefni sem ráðist hafði verið í hér á landi og kom á afar mikilvægum tíma. Þar fengu margir sína eldskírn og reynslan sat eftir. Nú voru menn tilbúnir til að takast á við hvað sem var. Að lenda í verkefni eins og þessu var á við marga skóla. Allt útlit myndarinnar var með ágætum og undirrituðum var tjáð að hans biði vís frami í þýsku sjónvarpi, stæði hugurinn til þess. Myndin var sýnd í allmörgum evrópskum sjónvarpsstöðvum og fékk margvíslegar viðurkenningar. Nú, réttum 30 árum síðar, er sumarið ´72 enn í fersku minni þeirra sem þá stigu sín fyrstu skref á sviði Kvikmyndagerðar með stórum staf.
Björn G. Björnsson tók saman