Safnkostur

Gljúfrasteinn – hús skáldsins var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans. Árið 2002 þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Halldórs Laxness festi íslenska ríkið kaup á Gljúfrasteini með því skilyrði að þar yrði safn um Halldór Laxness. Fjölskylda skáldsins gaf safninu allt innbú á Gljúfrasteini sem tilheyrði fjölskyldunni með sérstöku gjafabréfi.

Safnkostur Gljúfrasteins er allt það innbú sem fjölskylda skáldsins færði ríkinu að gjöf.  Munir og ljósmyndir eru skráðar í Sarp en bókasafn skáldsins er skráð í Gegni. Þá voru handrit, dagbækur, sendibréf og þau skjöl sem fylgdu með í gjöfinni skráð og eru varðveitt á Handritadeild Landsbókasafns Íslands. Á Gljúfrasteini er leitast við að safna öllu því er viðkemur ævi og verkum Halldórs Laxness.