Halldór í Hollywood - Kvikmyndahandritið “Salka Valka” birt í fyrsta sinn

Fræg mynd af Halldóri í Los Angeles en þar dvaldist hann frá 1927-8.

Halldór Laxness ætlaði sér nánast frá blautu barnsbeini að verða rithöfundur, og var sískrifandi unglingur sem kunnugt er. En hann fékk líka bíóbakteríuna snemma og er ekki orðinn tvítugur þegar hann tekur fyrstu atrennu sína að kvikmyndahandriti.

Þetta kemur fram í bréfi sem hann skrifaði í Leipzig 26. mars 1922 til Kristínar Pjetursdóttur Thurnwald, systur Helga Pjeturss, en hún bjó í Þýskalandi og var kunnug Halldóri. Þar segir: „Annars er það af mér að segja merkast að ég er að skrifa filmleik á ensku, - er það eitt af því sem á að erobrera heiminn.” (i)

Það er eins víst að hann hafi haft þennan “filmleik” með sér þegar hann hélt til Bandaríkjanna í maí þetta sama ár, en honum mistókst að sigra heiminn það sinnið, var snúið við á Ellis Island af því innflytjendaeftirlitinu leist ekki meira en svo á þennan félitla pilt.

En fimm árum síðar er Halldór – klausturdvöl og nokkrum bókum ríkari – aftur lagður af stað vestur um haf, og enn stendur hugur hans til kvikmynda. Hann dvelst að vísu fyrst í byggðum Vestur-Íslendinga, en bíómyndirnar eru byrjaðar að gerjast í huga hans, einsog fram kemur í bréfi til vinar hans Erlendar í Unuhúsi 20. júlí 1927: „Ég fann hjá mér alveg óstjórnlega köllun til að fara til Hollywood og semja 10 kvikmyndir. Ég er sannfærður um að ekkert liggur eins fyrir mér eins og kvikmyndin. Ég hef ekki auga fyrir neinu eins og því kvikmyndalega.” (ii)

Um haustið heldur Halldór af stað til Los Angeles, og hefur augastað á Hollywood. Hann fær sér umboðsmann, tekur þátt í samkvæmislífinu og kemst í kynni við fólk sem tengist kvikmyndaiðnaðinum. Hann skrifar vinstúlku sinni, Ingibjörgu Einarsdóttir, strax um haustið: „Film-lífið hér er stórkostlega interestíng og ég hef bestu vonir um að komast inn í það, óðar en ég hef tilbúið eitthvað af verkum á ensku. Lífið hér í Hollywood er alveg drepskemtilegt á kvöldin.” (iii)

Eitt var að komast inn í samkvæmislífið, annað var að skrifa eitthvað sem hentugt væri til kvikmyndunar. Þetta er Halldóri mæta vel ljóst, og í ársbyrjun 1928 skrifar hann Ingu um þessi mál: „Ég er sem stendur að vinna að tveimur stórkostlegum kvikmyndaleikritum. Annað heitir: Kári Káran or Judged By a Dog, hitt: Salka-Valka or A Woman in Pants. Alt þetta tekur tíma og fyrirhöfn að fullgera. En ef maður vinnur verk sín í anda fullkomnunarinnar, þá verður þeirra getið leingur en maður lifir.” (iv)

Þegar Peter Hallberg skrifaði sínar merku bækur um Halldór á sjötta áratugnum, hefur hann haft bæði þessi handrit undir höndum, og hann endursegir þau rækilega í Húsi skáldsins. En þau komu ekki með gögnum Hallbergs á Landsbókasafnið og hafa því ekki verið fræðimönnum aðgengileg um langt skeið. Hins vegar leyndust bæði handritin í gögnum Stefáns Einarssonar, fyrrum prófessors í Bandaríkjunum, sem þegar undir lok þriðja áratugarins tók sér fyrir hendur að setja saman bók um ævi og verk Halldórs – fyrstu ævisöguna, ef svo má segja. Stefán flutti síðar til Íslands og kom gögnum sínum í hendur sonar skáldsins, Einars Laxness, sem hefur góðfúslega látið undirrituðum þau í té.

Þetta er í fyrsta sinn sem kvikmyndahandrit Halldórs um Sölku Völku kemur fyrir sjónir íslenskra lesenda. Það er skrifað á ensku, og þarna eru augljóslega komin frumdrögin að skáldsögunni sem síðar hlaut sama nafn. Hér verður ekki farið út í samanburð þessara verka, en lesendur geta sannarlega skemmt sér við að velta því fyrir sér hverju Halldór heldur til haga og hverju hann kastar fyrir róða þegar hann tekur sér fyrir hendur – röskum tveimur árum síðar – að skrifa stóra skáldsögu um þetta efni.

Við lesturs handritsins er rétt að hafa í huga að það er skrifað á tímum þöglu myndanna, þótt þetta ár hafi mátt heyra óm talmynda framtíðarinnar í fjarska. Það er því fjarri því eins langt og kvikmyndahandrit nútímans, enda óhægt um vik þegar samtöl eru annars vegar; þeim þurfti að bregða upp á textaspjöldum og takmörkuðust því við það allra nauðsynlegasta. En það vantar ekki að jafnvel þessi ófullkomnu drög eru viðburðarík, djarfleg og dramatísk – hér er alvöruhöfundur í mótun.

Skyldi einhvern tímann í alvöru hafa staðið til að kvikmynda þetta verk? Halldór vann að því af kappi ásamt umboðsmanni sínum, Harriet Wilson, og reyndi að koma sér vel við leikstjóra og framleiðendur í kvikmyndaheiminum. Hann sagði sjálfur í bréfi til Ingu um sumarið: „Leingst hef ég komist við Metro-Goldwyn-Mayer félagið, - hef bréf frá þeim í dag, þar sem þeir skýra mér frá því, að komið hafi til mála að taka leikrit mitt fyrir með Greta Garbo, en sem stendur séu þeir að brúka hana til annars. Þetta er prívat-bréf frá supervisor M.-G.-M. Studios, - gefur hvergi afsvar en opnar ýmsa möguleika. Ég ætla að hitta hann bráðlega. O, það er spennandi, skal ég segja þér. Ef það kemst í gegnum þá er ég „made”.” (v)

Þessi bréf og mörg fleiri til vina og kunningja staðfesta að Halldóri var sannarlega ítrasta alvara með sínu kvikmyndabrölti, og þess má geta að enga leikkonu dáði skáldið unga meir en Gretu Garbo.

Tveimur dögum síðar er Halldór búinn að fá nýtt bréf frá kvikmyndafélaginu, og hefur nú heldur aukist bjartsýnin. Hann skrifar Ingu um nótt:

Þegar þessar línur eru ritaðar, er alt útlit fyrir að mitt „game” hér í Hollywood sé að bera árángur. Það er jafnvel alt útlit fyrir að ég leggi af stað til Íslands innan fárra vikna með fjórar kvikmyndamanneskjur í eftirdragi: „Karlstjörnu” (sem um leið er business manager ferðarinnar),  „kvenstjörnu”, leikstjóra og camera-man. Mér hefur sem sagt tekist að gera Hollywood interesseraða, og það eru 50.000 dollars fyrir hendi til þess að filma leikrit eftir mig. Ég á að hafa umsjón með öllu skíttinu. Ef við leggjum ekki af stað innan þriggja vikna, þá komum við ekki á þessu sumri, því úr því sem komið er fram í september er ekki hægt að reikna með nægilegu sólskini fyrir kvikmyndatöku á Ísl. Við verðum að vera komin til Íslands fyrstu dagana í ágúst, annars er alt ónýtt. Það er í ráði að fara á flugvél yfir ameríska meginlandið til New York. Þú getur skilið, að það er töluvert spennandi að vita hvort tekst að útbúa förina á næstu dögum eða ekki. Ferðin er semsagt ekki fastákveðin sem stendur, en það eru allar líkur fyrir því að hún verði farin. Ófyrirséð forföll geta auðvitað hindrað, - en þá er það bara spursmál um eitt ár, hvenær myndin verður gerð (og Íslandsferðin farin), því þetta félag hefur tilkynt mér í dag að það sé tilbúið að eyða 50.000 dollars í fyrirtækið. (vi)

Þessa júnídaga 1928 í Los Angeles komst Halldór Laxness næst því að gerast kvikmyndamógúll. En svo dregst á langinn að kvikmyndafólk verði ferðbúið því myndin sem verið var að vinna að kláraðist seinna en talið var, hið stutta íslenska sumar er liðið. MGM er ekki reiðubúið að gera samning við Halldór fyrir næsta ár, en segist munu hafa samband við hann í janúar, og með haustinu kemur annar tónn í bréf Halldórs. Hann er að sögn orðinn dauðþreyttur á Ameríku, hefur skömm á kvikmyndaiðnaðinum, langar heim að duga sinni þjóð, skrifar ritgerðir í róttækum anda, þar á meðal um list og iðnað í kvikmyndum, og snýr sér loks að því síðasta sumarið í Los Angeles að skrifa bók um íslenskan bónda á afskekktri heiði. Ósigur Halldórs í Hollywood varð sigur íslenskra bókmennta.

Samt fer ekki hjá því, þegar þessi bréfaskipti eru lesin, að maður hugsi til þess að gaman hefði verið að eiga Frum-Sölku kvikmyndaða á Íslandi sumarið 1928, með Gretu Garbo í aðalhlutverki ...

Kvikmyndahandritið er birt hér með góðfúslegu leyfi handhafa höfundarréttar, útgefandans Vöku-Helgafells og Einars Laxness, sem jafnframt lét mér í té bréfin sem Halldór skrifaði Ingibjörgu, móður hans. Magnús Guðmundsson sagnfræðingur lánaði mér afrit af bréfum Halldórs til Kristínar Pjetursdóttur Thurnwald. Hafi þau öll bestu þakkir.

Tilvísanir
(i) Halldór Kiljan Laxness: Bréf til Kristínar Pjetursdóttur Thurnwald, í gögnum Helga Pjeturss sem varðveitt eru í Skjalasafni Háskóla Íslands.
(ii) til. eftir Peter Hallberg: Hús skáldsins I, bls. 52
(iii) dags. í Los Angeles, 1. 11. 1927
(iv) 3/1 1928
(v) 20/6 1928
(vi) 22/6 1928