Heimilisiðnaðarfélagið

Forsíða ársrits Heimilisiðnaðarfélags Íslands, Hugur og hönd, árið 1975. Auður hóf störf sín í ritnefnd ársritsins árið 1971 og starfaði í henni til ársins 1984. Í ritinu birtust eftir hana fjölmargar greinar um handverk og hannyrðir auk prjónauppskrifta.

Auður starfaði með Heimilisiðnaðarfélagi Íslands um skeið ásamt fleiri konum þar á meðal Vigdísi Pálsdóttur handavinnukennara sem hafði eins og Auður lagt stund á nám í handavinnudeild Handíðaskólans. Þær sátu meðal annars saman í ritnefnd ársrits Heimilisiðnaðarfélagsins, Hugur og hönd, en í henni sat Auður árin 1971 til 1984. Í ársritinu birtust eftir Auði margar greinar og prjónauppskriftir.

Frá árinu 1966 hefur ársritið komið út og í því birst fjölmargar greinar um handverk, listiðnað, munstur og vinnuteikningar en því var í upphafi ætlað að stuðla að aukinni verkmennt og efla bæði virðingu og áhuga fyrir hérlendu og erlendu handverki. Í félagsskap þeirra sem störfuðu með Heimilisiðnaðarfélaginu var Auður á heimavelli. Frá unga aldri hafði henni lærst að meta hvers kyns handverk og því hafði hún sýnt einlægan áhuga bæði í námi sínu við Handíðaskólann þar sem hún hvatti kennara sinn, Valgerði Briem, til þess að leyfa nemendum að sækja innblástur og uppörvun í munsturteikningu á Þjóðminjasafninu. Áhugi Auðar á sögu íslenskra hannyrða og handverks kemur einnig skýrt fram  í verkum hennar. Árið 2005 birtist í Hug og hendi grein um hannyrðir á Gljúfrasteini eftir Heiði Vigfúsdóttur þar sem rætt er við Auði um helstu verk hennar en um áratug fyrr eða árið 1996 birtist í sama riti grein Guðrúnar Hafsteinsdóttur um Maríuklæðið á Gljúfrasteini, sem saumað er eftir altarisklæði frá Reykjum í Tungusveit og varðveitt á Þjóðminjasafninu. Prjónauppskriftir Auðar ásamt fleiri verkum bera vott um skapandi og frjóan huga hennar.

Auður átti sér margar fyrirmyndir og var ein þeirra skáldið og hannyrðakonan Theodóra Thoroddsen en  um verk Theodóru skrifar Auður í einni af greinum sínum í Hug og hönd.

„Það hafa alltaf verið til konur á Íslandi sem samið hafa útsaum sinn á sama hátt og málarar. Teppin eru oft gerð í vissum tilgangi, til að hylja gat á vegg, jafnvel stundum, eða til gjafa þegar lítið er til að kaupa fyrir. Mér kemur í hug dæmi af Theodóru Thoroddsen sem tók til handargagns gatslitinn og dálítið sígarettubrunninn silkislopp af dóttur sinni, klippti hann niður í tuskur og saumaði svo tuskurnar niður á grunn með allskonar sporum og hingað og þangað saumaði hún frumsamdar vísur til áminningar fyrir dótturina, einlitur kantur var einsog rammi utanum teppið. Þetta teppi notaði svo Katrín Thoroddsen áfram til að leggja yfir sig, uns það var líka orðið að slitrum. Þannig var það þegar ég sá það síðast fyrir meira en tuttugu árum, en ég man varla eftir að hafa séð fallegri eða listrænni grip.“  (úr greininni „Veggtjöld“, birtist í Hug og hendi árið 1974)