Salka Valka

Salka Valka - Þú vínviður hreini 1931

Salka Valka kom út í tveimur hlutum 1931 - 1932 og markar tímamót á ferli Halldórs Laxness í að minnsta kosti tvenns konar skilningi. Hún er fyrsta þjóðfélagslega skáldsaga hans og ruddi honum auk þess braut á erlendan bókamarkað. Upphaflega átti sagan að verða að kvikmynd í Hollywood undir heitinu A woman in pants. Til stóð að senda leikflokk til Íslands til að taka myndina en ekkert varð úr.

Salka Valka gerist á Óseyri við Axlarfjörð þar sem alþýðan lifir við kröpp kjör og Bogesen kaupmaður ræður örlögum hvers manns. Í sögunni eru Salka Valka og Arnaldur í forgrunni en litlu minna áberandi eru Sigurlína, móðir Sölku, og Steinþór ástmaður hennar og örlagavaldur í lífi þeirra mæðgna. Þegar bókin er lesin er m.a. hægt að leggja áherslu á hið pólitíska svið verksins, þar sem Arnaldur er í aðalhlutverki. Hins vegar má túlka hana sem þroskasögu Sölku þar sem mestu máli skiptir samband hennar við móðurina enda þótt samskipti hennar við Arnald og Steinþór séu einnig mikilvæg.

Ef litið er á Sölku Völku sem þroskasögu hennar má segja að nöfn fjögurra hluta bókarinnar vísi til áfanganna á þeirri leið. Hún kynnist „Ástinni" í gegnum Steinþór í fyrsta hluta, í öðrum hluta „Dauðanum" þegar móðir hennar kveður þennan heim, í þriðja hluta „Öðrum heimi" með sambandi sínu við Arnald og loks rennur upp „Kjördagur lífsins" í fjórða og síðasta hluta þegar hún verður að kjósa sér hlutskipti.

Fleyg orð

„... þegar öllu er á botninn hvolft þá er lífið þó umfram alt saltfiskur en ekki draumaríngl ?" (Fuglinn í fjörunni. 7. kafli. Salka Valka.)

„Hugsjónina sakar ekkert þótt einstaklíngarnir deyi eða svíki. Það eru hugsjónirnar sem stjórna mannkyninu, en mannkynið ekki hugsjónunum." (Fuglinn í fjörunni. 25. kafli. Arnaldur.)

„Sá er ekki altaf tryggastur, sem situr kjur, heldur hinn sem kemur aftur." (Þú vínviður hreini. 18. kafli. Steinþór.)