Óartikúleraðir undirvitundarþánkar heillar kynslóðar

Vefarinn mikli frá Kasmír 1927

Hinn 28. nóvember árið 1925 skrifaði Halldór Laxness Erlendi Guðmundssyni í Unuhúsi bréf úr klaustrinu í Clervaux um Vefarann mikla frá Kasmír sem hann var þá að leggja lokahönd á. Þar hafði hann dvalið veturinn 1922-23 en var nú á heimleið frá Taormina á Sikiley með handritið að Vefaranum mikla frá Kasmír. Í bréfinu ritar Halldór meðal annars:

„Oft líður mér illa en stundum líður mér furðu vel. Ég vinn frá því kl. 7 á morgnana til 9 eða 10 á kvöldin, að hálfum þriðja tíma undanteknum. Svefn minn er óskilgreinilegt ástand; iðulega vakna ég eftir fárra tíma svefn, og er þá fullur af hugmindum, og fer þá upp úr rúminu um miðja nótt og skrifa. Oft er það hið allra snjallasta sem ég skrifa þannig um miðjar nætur. Ég er „haldinn" af ídeu minni (obsedé) nótt og dag, og það svo intensivt að það ætlar stundum að ríða mér að fullu; og undan þessu kvalafulla oki losna ég ekki fir en bókin er fullgerð. Ég er oft að hugsa að eina ráðið til að frelsa mig í nokkra daga væri að fara í dálítið ferðalag eitthvað út í buskann, en slíkar áætlanir stranda á þessum þrjátíu centimes sem ég hef verið að skrölta með í vasanum í mánuð. Því leingra sem ég eygi inn á svið viskunnar, því aumari finn ég sjálfan mig, og því hégómlegri þessi brotabrot sem ég er að fíflast við að fella í hinar takmörkuðu skorður mælts máls; það sem ég segi, verður ekkert nema hindurvitni í samanburði við það sem ég sé. Ég birjaði verk mitt uppstertur og ólgandi af máttarmeðvitund, en því leingur sem ég vinn, því ómerkilegri verð ég frammi firir hinu ómótstæðilega, sem ég sé. Öll vitund mín er takmarkalaus himinn af sínum, þar sem hvergi mundi sjá högg á vatni, þótt ég skrifaði þúsundir bóka og ritgerða, svo að mér fallast hendur, og ég streingi þess heit við sjálfan mig, að steinhætta að skrifa; að skrifa er hégómi og nichts, action exterieure, sem er ekki meira virði en aska. Og þegar ég lít ifir síðasta misserið, og öll þau ósköp sem ég hef átt við að stríða, þá finn ég að sælustu stundirnar vóru einmitt þessir átta dagar þegar ég sat hreifíngarlaus í hægindastólnum, suður í Taormina. Starfið, þessi svokallaða action exterieure, er alveg frámunalegur hégómi, og ég skil ekkert í jafn vitrum manni og mér, að geta lagt mig niður við slíkan hégóma.

Hvað stoða svo þessar hugsanir manns, ófullkomlega á bók festar? Þær vekja ekki annað en hroll og andstigð hjá líðnum! Ég get ekki búist við því að einn af tíuþúsund grípi alvöruna í grundvallarhugmind „Vefarans", auk heldur meir, og ef nokkur grípur hana, þá á ég víst að sá hinn sami fremur sjálfsmorð. Mennirnir þola ekki sannleika. Ég sé altaf betur og betur hvað Egiftar vóru snjallir; prestar þeirra einir vissu sannleikann og fóru með hann einsog mannsmorð, en prédikuðu fólkinu að trúa á krókódíla, naut, fugla og allskonar vitleisu. Kaþólskan hefur töluvert af þessari gagnsjálni. Það sem múnkarnir vita hér á kanúkasetrinu, það er svei mér ekki prédikað í kirkjunni. - Hvert einasta atriði í „Vefaranum" meðhöndla ég á þann hátt, að ég „færi það úr hverri spjör",- hvergi miskunn, hvorki við sjálfan mig né lesandann. Bókin er einn einasti hrillilegur dómsdagur. Oft verður mér á að stökkva upp frá skrifunum og segja við sjálfan mig: Nei, þetta má aldrei prentast! Það er ekki gustuk! Það er blátt áfram samviskulaus glæpur! Það er að eitra lífsgildi heilla miljóna!

En ég get ekki skrifað öðruvísi. Þetta verður að segjast! Ég get ekki að því gert! Þetta stendur skrifað í stjörnurnar, og það er ekki mín sök að ég hef lesið það! Ef ég segði eitthvað annað, þá íklæddist ég líginni. Hvort ég fæ alt mannfélagið á hálsinn firir það sem ég segi, þá verður það svo að vera. Óartikúleraðir undirvitundarþánkar heillar kinslóðar, eru settir fram í hinu agalegasta formi. Þegar ég hugsa út í hvað jafnmeinlaus bók og Bréf til Láru olli miklu fargani, þá hrillir mig við því sem Vefarinn á í vændum. Ég vona að hann verði gerður upptækur, en út skal hann, því eina ráðið er að hleipa greftrinum úr kílinu. - Skrifi ég nokkuð framar, þá hef ég heitið því að tala ekki nema sætt og fagurt. Mig tekur svo sárt að vita hvað mennirnir eru ósjálfbjarga; ég kenni innilega í brjósti um þá og lángar að geta sáð einhverju góðu, þegar ég hef lokið við að plægja jörðina."