Grikklandsárið

Grikklandsárið 1980

Grikklandsárið (1980) er fjórði og síðasti hluti endurminningabóka Halldórs Laxness en hinar eru Í túninu heima (1975), Úngur eg var (1976) og Sjömeistarasagan (1978).

Bókin fjallar um nítjánda árið í lífi höfundar og gerist árið 1920 eftir að skáldið hefur snúið heim úr dvöl sinni í Danmörku og Svíþjóð. Hún er þannig beint framhald af Úngur eg var. Söguhetjan er átján ára skáldsagnahöfundur sem stendur á krossgötum; höfundur á barmi þess að verða fullorðinn. Að baki eru verk bernskunnar, Barn náttúrunnar (1919) og nokkrar smásögur í dönskum blöðum. Framundan er leitin að fullkomnun í listinni. Í bókinni skilur Halldór Laxness við söguhetjuna á þessum tímamótum: sakleysi bernskunnar, sveitin og sagan eru að baki en við tekur harður heimur hins fulltíða manns, nútíminn og veröldin.

Fleyg orð

„Það er auðvelt að vera seinnitímamaður og finna upp skothvellinn þegar aðrir hafa fundið upp púðrið."
(21. kafli.)

„Mannréttindi eru fólgin í því að hver fái að vera svo heimskur sem hann vill."
(15. kafli.)

„Spakmæli frelsa mann frá því að hugsa, nema þau séu sögð annaðhvort á raungum stað eða rángri stundu, og þó helst hvortveggja í senn, þeas bæði á raungum stað og á rángri stundu, gjarnan með sérstökum merkissvip og draga niður í sér röddina."
(5. kafli.)