Greinar

Halldór við skriftir á bókasafninu að Laugarvatni sumarið 1933. Þetta sumar var Halldór að vinna að Sjálfstæðu fólki en fleiri bækur hans urðu til þarna.

Ólafur Ragnarsson, fyrrverandi útgefandi verka Halldórs Laxness, hefur farið ítarlega yfir fyrstu skrif hans í bók sinni Líf í skáldskap sem út kom árið 2002. Þar segir að eftir því sem best er vitað hafi fyrsta greinin sem merkt er H.G. birst í Morgunblaðinu hinn 19. mars árið 1916 og bar hún heitið Hverasilungar og hverafuglar . Þá er Halldór aðeins 13 ára að aldri en lætur sig ekki muna um að setja sig í stellingar fræðimanns og lætur þrjár neðanmálsgreinar fylgja. Tveimur mánuðum síðar birtir hann grein undir nafninu H. Guðjónsson frá Laxnesi og telur Ólafur það vera fyrstu ritsmíð höfundarins unga undir eigin nafni. Um svipað leyti kom stutt bréf frá Halldóri í Sólskini sem var barnablað Lögbergs sem gefið er út í Winnipeg í Kanada.

Í nóvember árið 1916 sendi hann grein í Morgunblaðið sem nefnist „Gömul klukka". Hann segir umrædda klukku vera eina þá fyrstu er flutt hafi verið til landsins. Í viðtali við Jón úr Vör frá árinu 1944 víkur Halldór að sömu klukku. „Þarna sérðu klukku, sem hefur slegið í minni ætt í 150 ár." Hún hefur undanfarna áratugi staðið í anddyri Gljúfrasteins og slær enn.

Hér á þessari heimasíðu er bæði hægt að lesa greinar sem skrifaðar hafa verið um Halldór Laxness og greinar og útdrætti úr greinum sem Halldór skrifaði sjálfur á ritferli sínum um hin ýmsu málefni.

Við höfum skipt greinum Halldórs í þrjá flokka:

Einnig er hér hægt að lesa nokkur bréf Halldórs til vina og ættingja.

Til þess að nálgast þessar greinar, smellið á krækjurnar hér fyrir ofan eða nýtið ykkur valmyndina hér fyrir ofan.