Reginfjöll á haustnóttum

Halldór Laxness með Kjartani Júlíussyni bónda á Skáldstöðum efri í Eyjafirði árið 1978

Halldór Laxness skrifaði árið 1978 formála að bók eftir íslenskan afdalabónda sem nefnist Reginfjöll á haustnóttum og aðrar frásögur eftir Kjartan Júlíusson á Skáldstöðum efri.

Í bók Kjartans Júlíussonar er að finna frásagnir hans af „skemtigaungum [hans] um reginfjöll á síðhausti“ en einnig sögur af „mönnum sem lenda í skrýtilegum lífsháska, tam vegna príls í klettum ellegar þeir eru eltir uppi af mannýgum nautum … Einnegin … skrýtlur um svipi og ýmiskonar spaugelsi sem sveitamanni er títt að hafa uppi til að kollvarpa fyrir okkur vísindum heimsins og umturna náttúrufræðinni“. Þessi alþýðumaður og afdalabóndi bjó með innan við tuttugu kindur, eina kú og geldkú af næsta bæ sem þjónaði sem stallsystir eða selskapsdama hjá Búkollu sem mjólkaði annars ekki sakir myrkfælni. Til hliðar við bústörfin setti Kjartan síðan á blað frásagnir sem komu út á bók í lok áttunda áratugarins. Halldór Laxness skrifaði formála að bókinni sem vitnað er til hér að framan en þar segir Nóbelsskáldið meðal annars um höfundinn, Kjartan Júlíusson á Skáldstöðum efri:

„Af bréfum hans, minnisblöðum og skrifuðum athugunum sá ég að þessi kotbóndi hafði snemma á valdi sínu furðulega ljósan hreinan og persónulegan ritstíl, mjög hugþekkan, þar sem kostir túngunnar voru í hámarki, blandnir norðlenskum innanhéraðsmálvenjum sem alt er gullvæg íslenska; og ég velti þessu hámentabókmáli fyrir mér af þeirri orðlausu undrun sem einstöku sinnum grípur mann gagnvart íslendíngi. Þarna skrifaði blásnauður afdalakall, ósnortinn af skóla, svo dönskuslettulaust, þeas svo lítt þrúgaður af kúgun fyrri alda, að maður gat lesið hann af álíka öryggi og Njálu … Ég spurði hvar hann hefði lært að stílsetja. Hann svaraði því til að hann hefði líkt eftir skrifuðu máli föður síns. Þau rit fékk ég að sjá og voru sumpart í annálastíl, sumpart með blæ þjóðsagna, en slíkur stílsmáti er alt að því fornmál og á, eins lángt og hann nær, innangeingt í íslendíngasögur. Þessi ósjálfráði snildarblær úr íslenskri hreintúngustefnu hafði geingið að erfðum frá föður til sonar, í afdölum Eyafjarðar, hver veit hvað leingi, hjá mönnum sem aldrei höfðu leitt danska bók augum né heyrt nokkurn mann sletta dönsku; því síður komist í tæri við fyrri tíma heldra fólk á Akureyri.“