Kvæðakver

Kvæðakver 1930

Halldór Laxness sendi árið 1930 frá sér Kvæðakver en síðar var aukið við það ljóðum sem birst höfðu í skáldsögum hans.

Mörg ljóða hans hafa öðlast sjálfsætt líf með þjóðinni eftir að ýmis af þekktustu tónskáldum þjóðarinnar hafa tónsett þau. Nægir þar að nefna Maístjörnuna sem eignuð er Ólafi Kárasyni í Heimsljósi og Jón Ásgeirsson samdi vinsælt lag við.

Ljóðin í Kvæðakveri Halldórs Laxness þóttu allnýstárleg á sínum tíma. Þar komu fram djarfar tilraunir til að leysa íslenskt ljóðmál úr viðjum hins hefðbundna forms og tónninn var ögrandi. Í ljóðunum mátti finna háðsádeilu, stælingar og gamanmál, uppreisn gegn fáfengilegu orðaprjáli og uppblásnum hátíðleik. Meðal ljóðanna í Kvæðakveri var Únglíngurinn í skóginum en það er fyrsta súrrealíska kvæðið á íslensku. Alþingismenn voru hins vegar ekki ýkja sáttir við Únglínginn og sviptu Halldór Laxness skáldalaunum fyrir kveðskapinn.

Ljóðagerð var alla tíð aukageta hjá Halldóri Laxness. Hann einbeitti sér að ritun skáldsagna um áratuga skeið en kryddaði þær gjarnan með ljóðum og er þar Heimsljós frægasta dæmið - enda er Ólafur Kárason, aðalpersóna verksins, skáld. Ljóðin eru flest í hefðbundnu formi - bundin í stuðla og höfuðstafi. Í minningabókinni Í túninu heima sem út kom 1975 er að finna meitlað ljóð sem ort er í svokölluðu frjálsu formi. Þannig má segja að hringnum hafi verið lokað:

Í túninu heima
Á þessu nesi
í þessu túni
stóð bær.
Brúnklukka í mýri?
Nei, ekki meir.
En altær lind og ilmur af reyr.
Og þegar þú deyr þá lifir reyr
á þessu nesi
við þessa lind
í þessu túni
þar sem stóð bær:
Lind
Reyr -

Síðar hafa einnig komið í leitirnar ljóð sem ekki rötuðu í bækur Halldórs og er þeirra frægast líklega Maríukvæði en Atli Heimir Sveinsson samdi lag við ljóðið sem orðið er nokkuð fleygt.

Maríukvæði
Hjálpa þú mér helg og væn,
himnamóðirin bjarta:
legðu mína bljúgu bæn
barninu þínu að hjarta.
Þá munu ávalt grösin græn
í garðinum skarta,
í garðinum mínum skarta.

Bænheit rödd mín biður þín,
blessuð meðal fljóða;
vertu æ uns ævin dvín
inntak minna ljóða;
móðir guðs sé móðir mín
og móðir þjóða,
móðir allra þjóða.

Kenn mér að fara í för þín ein,
fram að himnaborðum,
leiddu þennan litla svein,
líkt og son þinn forðum.
Líkt og Krists sé heyrn mín hrein
að hlýða orðum,
hlýða þínum orðum.