Paradísarheimt

Paradísarheimt 1960

Paradísarheimt kom út samtímis á Íslandi og í Svíþjóð árið 1960. Síðar sama ár var hún gefin út í Danmörku og Noregi og árið 1962 í Bretlandi og Bandaríkjunum

Þetta sýnir glögglega stöðu Halldórs Laxness í bókmenntaheiminum í kjölfar þess að hann fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Helstu persónur bókarinnar eiga sér sögulegar fyrirmyndir, t.d. er kveikjan að sögunni ferðasaga Eiríks Ólafssonar á Brúnum sem hélt til Utah til að kynnast mormónum.

Sagan segir frá Steinari Steinssyni, bónda í Steinahlíðum. Hann hverfur frá búi sínu og fjölskyldu til að lifa meðal mormóna í Utah, þar sem hann telur sig hafa fundið fyrirheitna landið, hinn endanlega sannleika. Þar tekur hann upp nafnið Stone P. Stanford. Sögunni lýkur þannig að söguhetjan stendur aftur hjá bæ sínum undir Hlíðum sem kominn er í eyði, nánast jafnaður við jörðu. Og nú er maðurinn einn. Hann hefur glatað öllu og hefur tekið til við að reisa við vallargarðinn í túninu heima.

Paradísarheimt má meðal annars túlka í samhengi við feril Halldórs Laxness og vonbrigði hans með framkvæmd sósíalismans í Sovétríkjunum. „Mormón verður sá einn sem hefur kostað öllu til," segir Þjóðrekur biskup í sögunni. Sá sem vill ná landi í sæluríkinu verður að fórna öllu fyrir hugsjón sína. Út úr Paradísarheimt má kannski lesa uppgjöf skáldsins, vonbrigði hans vegna liðsinnis í þágu voldugrar hugmyndafræði og brostna drauma um fyrirheitna landið. Hann hafi kostað öllu til en ekki fundið það sem hann vonaðist eftir.

Fleyg orð

„... þegar heimurinn er hættur að vera dásemdafullur í augum barnanna okkar þá er nú lítið orðið eftir ..." 
(2. kafli. Steinar.)

„Að vakna við að maður hefur mist alt og veit að maður á ekki leingur neitt, er það þá að vera manneskja?"
(27. kafli. Steina.)

„Ég hef fundið sannleikann og það land þar sem hann býr, áréttaði vegghleðslumaðurinn. Það er að vísu allmikils vert. En nú skiftir mestu máli að reisa við aftur þennan vallargarð."
(30. kafli. Steinar.)