Atlantshafið ég einatt fór

Í maí 1927 tók Halldór Laxness sér far með skipinu S.S. Montclare frá Glasgow til Montreal. Í þeirri ferð orti hann ljóð samnefnt skipinu.

Í maí 1927 tók Halldór Laxness sér far með skipinu S.S. Montclare frá Glasgow til Montreal. Um borð orti hann ljóð samnefnt skipinu. Annað ljóð, Atlantshafið, er úr sama ferðalagi og Ontaríó er ort í sömu ferð, reyndar ekki á skipsfjöl heldur í járnbrautarvagni C.P.R.-félagsins.

Þetta hefur verið góð ferð fyrir íslenskar bókmenntir því að í fyrrnefndum ljóðum er verið að leggja áfram drög að ljóðagerð sem var nýstárleg og er það jafnvel enn að nokkru leyti. Áður hafði Halldór ort tímamótaljóðið Únglínginn í skóginum ölvaður af súrrealisma, einnig hið einkennilega og um leið skemmtilega bull Rhodymenia palmata og tilraunaljóðin Nótt á tjarnarbrúnni, Apríllinn, Borodin og Snjógirni. Ég ætla ekki að halda því fram að þetta séu „betri“ ljóð en hin dæmigerðu kvæði Halldórs, oft lögð persónum í skáldsögunum í munn, eins og til dæmis Frændi, þegar fiðlan þegir, Stríðið og Þótt form þín hjúpi graflín. Í áfánga og Bautastein Púsjkíns (þýðing) mætti líka nefna þótt þau séu ekki úr sögum. En „nýmóðins“ ljóð Halldórs höfðu meira gildi og skiptu meira máli fyrir þróun ljóðlistar en hefðbundnu kvæðin (sem þó vel að merkja eru ekki að öllu leyti hefðbundin). Tómas Guðmundsson, Steinn Steinarr og Jón Helgason voru alveg nógu góðir til að halda uppi merki gamla stílsins með nútímalegum viðbótum hvað varðaði form og yrkisefni. Í S.S. Montclare er órói nútímans lifandi kominn, óþol lífsins, einsemd manns sem þó er dálítið hamingjusamur þegar hann heyrir fótatak mannabarna:

Atlantshafið ég einatt fór einsog að drekka vatn. Einn ég sat bakvið aðra menn in the smoking room. Og einginn tók eftir mér. Það tala allir um eitthvað stórt, ­ allir nema ég. Hér reykir í hljóði saklaus sál sígarettuna smáu. Í ljóðinu beitir Halldór sérkennilegri aðferð í ljóðagerð sem hann hafði tileinkað sér áður. Raulkennd kveðandi er rofin af lausu máli afar prósaísku og erlend sletta sem mátti kalla höfuðsynd á þessum tíma verður í skyndi eins konar lykill að ljóðinu og hugarástandi skáldsins: I'm the happiest Charleston man on board. Líka aðferð má finna í Únglínginum í skóginum til dæmis. Í byrjun er vikið að draumi, en mestallt ljóðið er myndríkt og hljómmikið, upphafið og tilkomumikið uns það endar hversdagslega, eiginlega fáránlega, eins og viðvaningur en ekki stórskáld hafi ort það: Þá þótti mér ég fara að gráta og þá vaknaði ég. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Halldór var ekki hrifinn af öllum skáldskap og skorti líklega nauðsynlegt umburðarlyndi í þeim efnum. Hann kunni til dæmis lítt að meta þá Matthías Jochumsson og Einar Benediktsson og orðaði það svo að „hvorugur þessara skálda virðist hafa borið skynbragð á dýrlíng okkar allra, Heine“. Eitt mesta kvæði Einars Benediktssonar, Útsær, verkaði á hann eins og viðhafnarmikið bull: „Hið þrúngna málfæri Einars Benediktssonar, einhverskonar öfgakend útvíkkun þeirrar nýklassísku íslensku sem fjölnismenn skópu, hittir ekki í mark hjá mér, því miður; skáldið er mér næst þá sjaldan það nær í skánka á einhverjum algeingum hlut og gæðir hann lífi án þess að blása hann uppí kosmíska ófreskju.“ Halldór kom með hversdagsleikann, hraða samtímans og ýmiss konar duttlunga inn í ljóðlistina. Hann gerði það „ljóðrænt“ sem áður var ekki talið eiga heima í ljóði. Eða eins og segir í Ontaríó: Eimlestin flytur einatt þreyttan mann með átta tennur gulls og mjóa fíngur; Abdúlla reykir, ice-cream étur hann. Er ekki sál hans skrýtinn vítahringur? „Hina ljóðrænu skynjun rúmhelginnar“ sem Halldór Laxness fann hjá Tómasi Guðmundssyni átti hann ekki til nema í takmörkuðum mæli vegna þess að skynjun hans er einkar prósaísk og við finnum að það er fyrst og fremst uppreisnargjarn endurskoðunarmaður sem talar í forvitnilegustu ljóðunum. Ljóðrænir kaflar eða innskot í skáldsögum Halldórs sem margir hrífast af (samanber upphaf Vefarans mikla frá Kasmír og Fegurðar himinsins) geta ekki staðið einir sér sem ljóð, ekki einu sinni prósaljóð, aðeins brot vegna þess að byggingarlistina sem gerir ljóð að ljóði, vantar. Þetta gerir Halldór sér vitanlega ljóst sjálfur, enda forðast hann yfirlýstan ljóðrænan prósa í seinni verkum sínum án þess þó að gera ljóðskáldið í sjálfum sér útlægt. Halldór benti eitt sinn á vegna ágengra fyrirspyrjenda í dagblöðum (sjá Upphaf mannúðarstefnu) að æðsta skylda rithöfundar væri að skrifa það sem honum líst og sjá aðra rithöfunda í friði. Þessu var hann að mestu trúr, en meðal fróðlegra undantekninga hvað snýr að síðari hluta stefnuskrárinnar er jafn sjálfsögð áminning og sú sem hafnaði í kvæði í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930: „Þér semjið leirhnoð, góðskáld sögu og siðar.“ Ljóðum góðskáldanna líkir hann við „hávært garg í hænum“. Jafn afdráttarlausir hlutir um ljóðagerð komu naumast frá Halldóri eftir þetta.

Eftir Jóhann Hjálmarsson