Nóbelsverðlaunin 1955
Halldór Laxness er eini Íslendingurinn sem hlotið hefur þessi eftirsóttu verðlaun. Bókmenntaverðlaunin voru fyrst afhent árið 1901 samkvæmt leiðbeiningum sem sænski uppfinningamaðurinn Alfred Nobel lét eftir sig í erfðaskrá sinni en hann lést árið 1896. Þar kvað á um að hin gífurlegu auðæfi sem hann skildi eftir sig ætti að nota til þess að setja á stofn fimm verðlaun. Þessi verðlaun skyldu svo veitt þeim einstaklingum sem skarað hefðu fram úr á sínu sviði í eðlis-, efna- eða læknisfræði, bókmenntum og friðarbaráttu. Árið 1969 bættust við hagfræðiverðlaun sænska seðlabankans í minningu Alfreds Nobel og eru þau veitt samhliða hinum upprunalegu Nóbelsverðlaunum.
Val á bókmenntaverðlaunahafa er í höndum Sænsku akademíunnar. Tilnefningar berast hvaðanæva að úr heiminum en leitað er til fagaðila eftir þeim. Þegar tilnefningarnar hafa borist í hús tekur Nóbelsnefnd Sænsku akademíunnar við. Hún er skipuð 5 af 18 meðlimum akademíunnar og fer yfir allar tilnefningarnar í samráði við aðra meðlimi. Nefndin grisjar listann þar til einungis fimm einstaklingar standa eftir. Um haustið, þegar meðlimir akademíunnar hafa kynnt sér möguleikana til hlítar, taka þeir ákvörðun sem yfirleitt er tilkynnt um í fyrri hluta október. Til að hljóta verðlaunin verður rithöfundur að fá meira en helming atkvæða.
Halldór var fyrst tilnefndur árið 1948 og er eftir það tilnefndur á hverju ári þar til hann hlýtur verðlaunin árið 1955. Þeir sem tilnefndu hann á þessu tímabili voru íslenskir fræðimenn, bæði við Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla: þeir Sigurður Nordal, Einar Ólafur Sveinsson og Jón Helgason, auk Halldórs Stefánssonar, formanns Rithöfundasambands Íslands.
Þann 10. desember ár hvert eru bókmenntaverðlaunin svo afhent við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi, ásamt hinum Nóbelsverðlaununum og hagfræðiverðlaununum. Það er konungur Svíþjóðar sem afhendir verðlaunin. Verðlaunaafhendingin hefur verið haldin í hljómleikahöll Stokkhólms síðan hún var fullbúin árið 1926. Þó eru undanskilin árin er seinni heimsstyrjöldin stóð sem hæst en þá voru engin verðlaun veitt. Við athöfnina fá verðlaunahafarnir orðu, skírteini og skjal sem staðfestir upphæð verðlaunafjárins. Einu Nóbelsverðlaunin sem ekki eru afhent í Stokkhólmi eru friðarverðlaunin, sem afhent eru í Osló af formanni norsku Nóbelsnefndarinnar.
Orðan hefur verið eins frá upphafi og er hönnuð af Svíanum Erik Lindberg. Hún er úr gulli og framan á henni er mynd af Alfred Nobel. Aftan á orðunni er mynd af skáldi sem situr undir lárviðartré og listagyðju hans. Þar er grafið nafn verðlaunahafans auk áletruninnar Inventas vitam juvat excoluisse per artes. Þetta er tilvitnun í Eneasarkviðu Virgils og merkir í lauslegri þýðingu að listin bæti lífið.
Nóbelsskírteinið er sérhannað fyrir hvern og einn og það var listamaðurinn Bertha Svensson-Piehl sem hannaði skírteini Halldórs.
Verðlaunaféð er umtalsvert enda var Alfred Nobel efnaður maður er hann lést. Þegar Halldór fékk verðlaunin var upphæðin 190 þúsund sænskar krónur.
Athöfnina 1955 má sjá á meðfylgjandi myndbandi.