Fagra veröld

Tómas Guðmundsson (1901-1983), skáld

Halldór Laxness og Tómas Guðmundsson voru saman í þeim bekk Menntaskólans í Reykjavík er síðar var sagt að í hefðu verið sextán skáld.

Halldór ritaði árið 1933 ritdóm um frægustu ljóðabók Tómasar, Fögru veröld, sem síðar var prentaður í Dagleið á fjöllum. Í niðurlagi umsagnarinnar segir:

„Fegurðin er sjálfstæð höfuðskepna, hún er takmark. Um hitt er barist, hvort margir eða fáir eigi að njóta fagurra hluta. Að sögn Maxims Gorkis gekk Lenin út í miðjum saungleik vegna þess að fegurðin og snildin minti hann aðeins á hve mikla baráttu hann átti eftir óháða áður en fjöldinn, hinir umkomulausu, öðluðust þann rétt, það uppeldi og það næði sem útheimtist til að geta notið fagurra hluta. Þessi bók heimtar að vera lesin af mörgum - í næði."