Ljóðasöngur í stofunni

Signý Sæmundsdóttir, söngur

Signý Sæmundsdóttir og Þóra Fríða Sæmundsdóttir fluttu sannkallaðar ljóðaperlur fyrir gesti Gljúfrasteins 10. júní. Þar á meðal voru lög við ljóð Halldórs Laxness en einnig við ljóð eftir Davíð Stefánsson og Johann Wolfgang von Goethe. Tónskáldin sem smíðað hafa lög við þessi ljóð eru heldur ekki af verri endanum, Jón Þórarinsson, Jakob Hallgrímsson og Franz Schubert. Það má því segja að efnisskráin hafi einkennst af glæsilegri þýsk-íslenskri blöndu.

Þóra Fríða og Signý hafa haldið reglulega tónleika sl. 20 ár víða hérlendis og erlendis m.a. í London í St.Martin in the Field kirkjunni, Grimsby, Færeyjum, Þýskalandi, Róm og víðar. Signý Sæmundsdóttir Signý stundaði söng og hljóðfæranám við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Vín (Hochschule für Music und darstellendi Kunst). Helstu kennarar hennar þar voru Helene Karusso og Eric Werba. Signý hefur lengi verið áberandi í íslensku tónlistarlífi og sungið í Óperuuppfærslum í Íslensku Óperunni og Þjóðleikhúsinu ásamt því að koma fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur o.fl. Hún hefur haldið fjölda einsöngstónleika og sungið inn á upptökur fyrir útvarp og sjónvarp auk þess að flytja talsvert af samtímatónlist þ.á m. tónverk sem hafa sérstaklega verið samin fyrir hana. Signý hefur verið gestur á fjölmörgum tónlistarhátíðum hérlendis og erlendis. Þóra Fríða Sæmundsdóttir: Þóra Fríða Sæmundsdóttir lauk píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1978. Eftir það lá leið hennar til Þýskalands þar sem hún stundaði framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Freiburg im Breisgau. Þaðan lauk hún Diploma prófi í píanóleik 1981. Síðan var hún við nám í Tónlistarháskólanum í Stuttgart þar sem hún valdi ljóðaflutning ”Liedgestaltung” sem sérgrein undir handleiðslu próf. Konrad Richter. Eftir að Þóra Fríða kom heim frá námi 1984 hefur hún starfað sem píanóleikari og kennari í Reykjavík. Þóra Fríða hefur haldið fjölda tónleika aðallega sem meðleikari með söngvurum. Hún lék með íslensku hljómsveitinni um árabil og hefur oft leikið í útvarpi og sjónvarpi. Þóra Fríða kennir m.a. við tónlistarskóla FÍH og tónskóla Sigursveins.
Efnisskrá:
Jón Þórarinsson 1917-

Íslenskt vögguljóð á hörpu (Halldór Laxness)
Dáið er alt án drauma (Halldór Laxness)
Jakob Hallgrímsson 1943-1999
Vorvísa (Halldór Laxness)
Maístjarnan (Halldór Laxness)
Um hina heittelskuðu (Halldór Laxness)
Allar vildu meyjarnar eiga hann (Davíð Stefánsson)

Franz Schubert 1797-1828
Frühlingsglaube (Uhland)
Wanderers Nachtlied (W.Goethe)
Erster Verlust (W.Goethe)
Heidenröslein (W. Goethe)
Die Forelle (Schubert)