Sigrún Hjálmtýsdóttir og Jóhann G. Jóhannsson fluttu sönglög Jóhanns við ljóð Halldórs

Sigrún Hjálmtýsdóttir sópransöngkona og Jóhann G. Jóhannsson píanóleikari/tónskáld

Sigrún Hjálmtýsdóttir og Jóhann G. Jóhannsson fluttu sönglög Jóhanns við úrval ljóða eftir Halldór Laxness á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 10. ágúst.

Sigrún Hjálmtýsdóttir hóf feril sinn á sviði dægurtónlistar. Síðar hóf hún sígilt söngnám við Guildhall School of Music and and Drama í London og stundaði framhaldsnám á Ítalíu. Hún hefur tekið þátt í margvíslegum uppfærslum, jafnt á sviði sem og í kvikmyndum.

Sigrún var valin söngkona ársins 2011 fyrir hlutverk Næturdrottningarinnar í uppsetningu Íslensku Óperunnar á Töfraflautunni. Hún hefur á löngum ferli margoft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem og erlendum hljómsveitum víða um heim. Með Sinfóníuhljómsveitinni hefur hún hljóðritað fjórar einsöngsplötur, en alls hefur hún sungið inná marga tugi platna gegnum árin. Hún söng á eftirminnilegum tónleikum í Laugardalshöll með José Carreras og steig á stokk með Placido Domingo á tónleikum hans í Egilshöll.

Sigrún hefur haldið tónleika víða um heim, t.d. í Kína, þar sem hún hélt tónleika í Egginu í Peking ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur. Hún hefur sungið í Japan, Kanada, Bandaríkjunum, Rússlandi, Balkanlöndunum, Norðurlöndunum, Frakklandi, Ítalíu, Slóveníu, Austurríki og Tékklandi. Árið 1995 var Sigrún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu og árið 1997 Ljónaorðu Finnska ríkisins.

Jóhann G. Jóhannsson stundaði nám í píanóleik hjá Carl Billich og hjá Halldóri Haraldssyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann nam tónlistarfræði, hljómsveitarstjórn og eðlisfræði við Brandeis-háskólann í Boston á árunum 1975-79 og stundaði síðan framhaldsnám í tónfræðum við Tónvísindastofnum Uppsalaháskóla frá 1979-80.

Jóhann var tónlistarstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó og Borgarleikhúsinu 1980-91 og tónlistarstjóri Þjóðleikhússins 1991-2010. Hann hefur samið leikhústónlist af ýmsu tagi, meðal annars tónlistina í ævintýrasöngleiknum Skilaboðaskjóðunni, en auk þess sönglög, kórverk og hljóðfæratónlist.