Björg Þórhallsdóttir og Jónas Ingimundarson fluttu úrval sönglaga

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona og Jónas Ingimundarson píanóleikari

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona og Jónas Ingimundarson píanóleikari komu fram á fimmtu stofutónleikum sumarins. Þau fluttu m.a. úrval sönglaga eftir íslensk tónskáld, þ.á.m. Jakob Hallgrímsson, Guðna Franzson, Daníel Þorsteinsson og Michael Jón Clarke við ljóð Halldórs K. Laxness, Jónasar Hallgrímssonar, Davíðs Stefánsson o.fl., ásamt þekktum erlendum sönglagaperlum eftir Schumann, Brahms, Mendelsohn, Bethoveen, Schubert og Richard Strauss.

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona stundaði söngnám við Tónlistarskólann á Akureyri og framhaldsnám í óperu- og ljóðasöng við óperu- og einsöngvaradeild Konunglega tónlistarháskólans í Manchester á Englandi. Hún lauk þar námi vorið 1999 með sérstakri viðurkenningu fyrir framúrskarandi túlkun á þýskum ljóðasöng. Frá árinu 2000 til 2007 bjó hún og starfaði í Lundúnum og naut þar leiðsagnar hins virta söngkennara Dr. Iris Dell’Acqua.  Björg hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim. Hún sendi frá sér þrjár hljómplötur á árunum 2000-2007 og hefur hljóðritað fyrir bæði sjónvarp og útvarp hér á landi. Hún hefur verið sérstaklega virk í flutningi íslenskrar tónlistar og haldið fjölda einsöngstónleika á Íslandi, Englandi og Þýskalandi undanfarin ár þar sem hún hefur lagt áherslu á ljóðsöng og flutning kirkjulegrar tónlisatar. Nú nýverið kom hún fram á Alþjóðlegu kóramóti í Svíþjóð með Kammerkór Suðurlands undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar og á Alþjóðlegu listahátíðinni í Salisbury á Englandi á tónleikum með Kammerkór Suðurlands. Þar kom hún einnig fram á einsöngstónleikum með Elísabetu Waage hörpuleikara og Hilmari Erni Agnarssyni orgelleikara þar sem þau fluttu úrval íslenskra sönglaga.

Jónas Ingimundarson píanóleikari stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Jónas hefur síðan starfað sem píanóleikari, tónlistarkennari og kórstjóri. Hann hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og komið fram víða í Evrópu og í Bandaríkjunum ýmist einn eða með öðrum, einkum söngvurum, má þar nefna áratuga samstarf með  Kristni Sigmundssyni. Jónas hefur leikið inn á fjölda hljómplatna og hljómdiska og hefur staðið fyrir öflugu tónlistarkynningarstarfi í tengslum við tónleikahald sitt.