Secret Swing Society kom fram á stofutónleikum Gljúfrasteins, sunnudaginn 24. ágúst.
Meðlimir hljómsveitarinnar eru Andri Ólafsson á kontrabassa, Grímur Helgason klarinettleikari, franski gítaristinn Guillaume Heurtebize og píanistinn og harmónikkuleikarinn Kristján Tryggvi Martinsson. En þeir syngja allir.
Hljómsveitin leikur og syngur gamaldags sveiflutónlist, frumsamda og ættaða frá höfundum og flytjendum á borð við Duke Ellington, Gershwin bræðrum, Louis Armstrong, The Mills Brothers, Louis Prima, Django Reinhardt og Fats Waller.
Secret Swing Society var stofnuð í Amsterdam, meðan meðlimir hennar stunduðu þar tónlistarnám og hefur hún spilað mikið úti á götum, mörkuðum og síkjum borgarinnar. Einnig hefur hún ferðast til fleiri borga í Hollandi, Belgíu, Frakklandi, Þýskalandi, Litháen og á austurströnd Bandaríkjanna, ýmist til að spila á jazzhátíðum, tónleikum eða úti á götum. Secret Swing Society hafa tvisvar komið fram á Jazzhátíð Reykjavíkur, ásamt því að standa sjálfir fyrir tónleikum og dansleikjum í Reykjavík og úti á landi.