Frumflutningur verka á fyrstu stofutónleikum sumarsins

Elín Gunnlaugsdóttir, Marta Guðrún Halldórsdóttir, Pamela de Sensi og Páll Eyjólfsson

Stofutónleikaröð sumarsins 2013 á Gljúfrasteini var ýtt úr vör 2. júní með tónleikum þar sem flutt voru verk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur tónskáld. Flytjendur voru Marta G. Halldórsdóttir sópran, Pamela De Sensi flautuleikari og Páll Eyjólfsson sem spilaði á gítar.

Á meðal verkanna sem flutt voru voru Tvö tré, sem samið var sérstaklega að beiðni Pamelu en það verður frumflutt á Íslandi á tónleikunum. Þar að auki var frumflutt nýtt sönglag við ljóð Halldórs Laxness, Dáið er allt án drauma.

Um efnisskrána:

Verkin eru öll eftir Elínu Gunnlaugsdóttur. Tvö verkanna, dúóið Þrjú þjóðlög og einleiksverkið Tvö tré voru skrifuð að beiðni Pamelu De Sensi og hefur hún flutt bæði verkin á Ítalíu. Þrjú þjóðlög eru útsetningar á íslensku þjóðlögunum Ljósið loftin fyllir, Sólskríkjan og Hjalla fyllir fennir dý. Verkið Tvö tré var frumflutt á Ítalíu fyrir um ári síðan. Titill verksins vísar til orða Jesú á leið sinni á Golgata. En þá talar hann um hið græna tré og hið visnaða tré.

Spænsku lögin eru sérstaklega skrifuð fyrir Mörtu G. Halldórsdóttur og Pál Eyjólfsson, en eitt þeirra, El viento (vindurinn) var frumflutt í nóvember 2011. Síðan þá hafa tvö önnur lög bæst við, La lluvia (rigningin) og El sol (sólin). Ljóðin El viento og La lluvia eru eftir spænska skáldið Juan Carlos Martín Ramos, en hann hefur hlotið mikið lof fyrir ljóð sín fyrir börn. Ljóð hans eru þó á engan hátt barnaleg. Ljóðið El sol er eftir Mariönu Castro.

Dáið er alt án drauma, er nýtt lag við samnefnt ljóð Halldórs Kiljans Laxness. Það má segja að það sé forsenda allrar sköpunar að láta sig dreyma aðeins um hið óorðna. Og það er einkar viðeigandi að enda tónleika á Gljúfrasteini á ljóði eftir Nóbelsskáldið.

Um tónskáld og flytjendur:

Elín Gunnlaugsdóttir er fædd á Selfossi árið 1965 og lauk hún tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987. Útskrifaðist frá sama skóla úr tónfræðadeild árið 1993 þar sem kennarar hennar í tónsmíðum voru Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson og Guðmundur Hafsteinsson. Árið 1998 lauk hún framhaldsnámi í tónsmíðum frá Konunglega tónlistarháskólanum í Den Haag. Þar voru kennarar hennar í tónsmíðum þeir Theo Loevendie og Diderik H. Wagenaar. Frá því Elín lauk námi hefur hún búið á Selfossi og unnið við tónsmíðar ásamt kennslu. Tónsmíðar hennar eru um fjörutíu talsins. Þeir hljóðfærahópar sem hún hefur m.a. skrifað fyrir eru: Caput-hópurinn, Kammerhópurinn Camerarctica, Dísurnar, danski blokkflautukvartettinn Sirena og CH.AU Ensemble í Sviss. Verk Elínar hafa verið flutt bæði hér heima og erlendis. Hún var auk þess staðartónskáld Sumartónleika í Skálholtskirkju árið 1998, 2004, og 2011. Sömluleiðis hafa nokkur verka hennar komið út á geisladiskum og árið 2011 gaf hún út bók og disk sem nefnist Póstkort frá París. Í desember 2012 kom út diskurinn Englajól sem unninn var í samvinnu við Töfrahurð, fjölskyldutónleikaröð.

Marta Guðrún Halldórsdóttir tók sín fyrstu skref í tónlistarlífinu sem meðlimur Hljómeykis á Sumartónleikum í Skálholti á sínum unglingsárum. Að loknu söngnámi í Þýskalandi árið 1993 hefur hún starfað sem söngkona og söngkennari og komið fram með helstu kórum, hljómsveitum og kammerhópum hér á landi. Marta hefur verið í fremstu röð túlkenda á sviði samtímatónlistar. Hún hefur frumflutt og hljóðritað íslensk verk og flutt íslenska tónlist á tónleikaferðum m.a. í Japan og víða í Evrópu. Marta hefur farið með aðalhlutverk í óperum og söngleikjum í Íslensku óperunni og Þjóðleikhúsinu, verið atkvæðamikil í flutningi barrokktónlistar og hefur unnið með fjölmörgum listamönnum á því sviði. Marta hefur lagt rækt við íslenskan tónlistararf og flutt íslensk þjóðlög í útsetningum ýmissa tónskálda, gjarnan með Erni Magnússyni píanóleikara. Þau eru stofnendur smásveitarinnar Spilmanna Ríkinis sem flytur gamla íslenska tónlist á forn íslensk hljóðfæri.

Pamela De Sensi lauk einleikaraprófi á flautu frá "Conservatorio di Musica L. Perosi” í Campobasso á Ítalíu og svo lokaprófi í kammertónlist frá "Conservatorio di Musica S.Cecilia" í Róm. Einnig hefur hún sótt tíma hjá heimskunnum flautuleikurum s.s. C. Klemm, M.Ziegler, F. Reengli, T. Wye, M. Larrieu. Hún hefur tekið þátt í mörgum keppnum sem sólisti og alltaf orðið í efstu sætum. Pamela hefur spilað á fjölda tónleika víðs vegar bæði sem einleikari sem og í kammertónlist og má þar nefna í Frakklandi, Spáni, Englandi, Rússlandi, Mexíkó, Íslandi, Færeyjum, Finnlandi, í Bandaríkjunum og víðsvegar á Ítalíu. Hún er stofnandi tónleikaraðarinnar “Töfrahurð„ fjölskyldutónleikar og meðhöfundur bókar og geisladisks Karnival dýranna, Forlagið 2010, og vann ásamt fleirum að útgáfu disksins Englajól, Sæmundur 2012.

Páll Eyjólfsson lauk einleikaraprófi á gítar frá Gítarskólanum, Eyþóri Þorlákssyni og í hliðargreinum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Páll fór í framhaldsnám til Alcoy á Spáni þar sem hann nam í einkatímum hjá José Luís González, sem var einn af nemendum Andrés Segovia. Fjölmargir tónlistarnemar hafa sótt gítartíma til Páls í ýmsum tónlistarskólum í Reykjavík, en hann hefur samhliða kennslunni haldið tónleika víðsvegar um landið og í nokkrum Evrópulöndum. Ríkisútvarpið hefur gert upptökur með leik hans, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, gítarkonsert eftir John A. Speight, og áður hafa komið út geisladiskar þar sem Páll spilar með öðrum hljóðfæraleikurum. Árið 2009 kom út einleiksdiskur þar sem Páll leikur verk eftir spænska tónskáldið Tárrega og brasilíska tónskáldið Villa-Lobos.