Þann 22. júlí fluttu þau Hildigunnur Einarsdóttir mezzosópran og Hannes Guðrúnarson gítarleikari sönglög eftir John Dowland (1563-1626) á stofutónleikum á Gljúfrasteini.
John Dowland (1563-1626) var eitt vinsælasta lútusöngvaskáld Englands við upphaf barrokktímabilsins. Hann starfaði við hirð Kristjáns IV í Danmörku og seinna við hirð Jakobs I Bretakonungs. Árið 1597 kom út bók með verkum Dowlands, First Booke of Songes, en sú bók varð geysivinsæl og kom hún út alls fimm sinnum í tíð tónskáldsins. Munu Hildigunnur og Hannes flytja nokkur lög úr þeirri bók.
Hildigunnur Einarsdóttir hóf snemma tónlistarnám og söng í Barnakór Grensáskirkju alla sína grunnskólagöngu. Hún lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík 2010 og hefur stundað einkanám í Þýskalandi og Hollandi. Hildigunnur er mjög virk í kórastarfi og hefur m.a. sungið með Carminu, Barbörukórnum, Schola Cantorum og Kór Íslensku óperunnar. Hún kemur reglulega fram sem einsöngvari með kórum og hljóðfæraleikurum.
Hannes Guðrúnarson lauk burtfararprófi frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar vorið 1993. Hann stundaði framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Bergen á árunum 1993-1997 og starfaði jafnframt sem kennari og tónlistarmaður í Vestur-Noregi á þeim árum. Hannes flutti til Akureyrar haustið 1997 og kenndi þar til ársins 2002 ásamt því að vera virkur tónlistarmaður. Síðan þá hefur hann starfað sem kennari og tónlistarmaður í Reykjavík.