Arnhildur Valgarðsdóttir töfraði fram seiðandi tóna úr flyglinum á Gljúfrasteini sunnudaginn 19. ágúst 2012 þegar hún lék verk eftir Leoš Janáček.
Leoš Janáček (1854-1928) var tékkneskt tónskáld og þjóðfræðingur. Hann rannsakaði móravíska og slavneska þjóðlagatónlist og nýtti sér þennan tónlistararf sem innblástur við eigin tónsmíðar. Hann er í dag, ásamt Antonín Dvořák and Bedřich Smetana, talinn eitt af höfuðtónskáldum tékkneskrar tónlistarsögu.
Arnhildur Valgarðsdóttir hóf sjö ára píanónám við Tónlistarskólann í Kópavogi en tveimur árum síðar við Tónlistarskólann á Akureyri. Þaðan lauk hún 8. stigi og starfaði um skeið við píanóleik, meðal annars hjá Leikfélagi Akureyrar. Eftir það lá leiðin til Royal Scottish Academy of Music and Drama en þaðan útskrifaðist Arnhildur árið 1995 með BA-gráðu og CPGS-diplómu í píanóleik með söng sem aukagrein.
Arnhildur er mjög virk í íslensku tónlistarlífi og starfar bæði sjálfstætt sem píanóleikari og í samstarfi við hina ýmsu tónlistarmenn. Hún hefur komið fram á fjöldamörgum tónleikum innanlands og utan. Arnhildur lauk kirkjuorganistaprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2010 og er starfandi organisti og kórstjóri við Lágafellssókn í Mosfellsbæ. Hún stjórnar einnig tveimur öðrum kórum og kennir á píanó við Listaskóla Mosfellsbæjar. Arnhildur hefur upptökur í haust á hljómdiski með verkum Leoš Janáček.