Dúó Stemma samanstendur af Herdísi Önnu Jónsdóttur víóluleikara og Steef van Oosterhout slagverksleikara. Saman hafa þau leikið í tæp 10 ár og frumflutt mörg verk sem skrifuð hafa verið fyrir þau. Má þar nefna verk eftir tónskáldin Áskel Másson, Snorra Sigfús Birgisson, Jónas Tómasson, Svein Lúðvík Björnsson og fleiri.
Á efnisskránni hjá þeim er íslensk þjóðlagatónlist þar sem Steef spilar m.a. á steinaspil Páls frá Húsafelli. Þessa efnisskrá hafa þau flutt í fjölmörgum kirkjum og söfnum á Íslandi og fengið mikið lof fyrir. Herdís og Steef hafa auk þess sett saman efnisskrá fyrir börn „Töfraveröld tóna og hljóða” og spilað í um 100 leikskólum og yngri bekkjum grunnskóla, víðsvegar á Íslandi og í Hollandi.
Dúó Stemma hlaut viðurkenninguna „Vorvindar" frá IBBY samtökunum árið 2008 fyrir framlag þeirra til barnamenningar á Íslandi.
Herdís Anna Jónsdóttir lauk prófum frá Tónlistarskóla Akureyrar 1983, Tónlistarskólanum í Reykjavík 1986 og Hochschule fur Musik und Darstellende Kunst Stuttgart 1992. Hún er fastráðinn víóluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan 1995 og hefur spilað með fjölmörgum kammerhópum á Íslandi m.a Kammersveit Reykjavíkur og Dísunum.
Steef van Oosterhout lauk einleikaraprófi frá Sweelinck Conservatorium Amsterdam 1987. Hann starfaði í Hollandi með ýmsum kammerhljómsveitum m.a. Nederlands blazersensemble og lék með sinfóníuhljómsveitum þ.á.m. Consertgebouwhljómsveitinni í Amsterdam. Árið 1991 var hann ráðinn sem slagverks- og pákuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur leikið með ýmsum kammerhópum þ.á.m. Caput og slagverkshópnum Bendu.
Efnisskrá:
Fimm lög frá Gautlöndum
þjóðlög í útsetningu Snorra Sigfúsar Birgissonar fyrir víólu og marimbu
Þjóðlög
í útsetningu Dúó Stemmu