Bach og Ysayee á Gljúfrasteini

Una Sveinbjarnardóttir, fiðla

Fiðluleikarinn Una Sveinbjarnardóttir lék verk eftir J.S. Bach og Eugene Ysayee á stofutónleikum Gljúfrasteins þann 13. ágúst 2006.

Una Sveinbjarnardóttir stundaði fiðlunám í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og hjá Mark Reedman í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún lauk þaðan einleikaraprófi með ágætiseinkunn 1995. Sama ár hóf hún nám við Tónlistarháskólann í Köln hjá prófessor Gorjan Košuta og í kammertónlist hjá Alban Berg-strengjakvartettinum. Í Köln hlaut hún m.a. fyrstu verðlaun í keppninni Brahms Kammermusik. Árið 1998 hóf Una nám hjá Thomas Brandis við Universität der Künste. Í febrúar árið 2001 lauk hún diplóm-prófi með hæstu einkunn og í janúar 2005 einleikaragráðu, Konzertexamen.

Una hlaut Jean-Pierre Jacquillat-styrkinn árið 1999 og vann sama ár keppni um þýska styrkinn á Holland Music Sessions.

Una hefur komið fram á tónleikum víða í Evrópu og í Bandaríkjunum og flutt kammertónlist í DeutschlandRadio, RAI og Radio France. Hún var konsertmeistari hljómsveitar Hochschule der Künste í Berlín á Michael Nyman Festival, konsertmeistari Klassische Philharmonie Bonn og tók þátt í hljómsveitarakademíu Bayerischer Rundfunk undir stjórn Mistislav Rostropovich. Hún hefur leikið með Ensemble Modern Frankfurt, Rundfunk-Sinfonieorchester Berlin, Deutsche Oper Berlin og Klangverwaltung München. Una lék fiðlukonsert nr. 1 eftir Dimitri Sjostakovitsj, fiðlukonsert Philip Glass, Draumnökkva, fiðlukonsert Atla Heimis Sveinssonar og Beethoven fiðlukonsertinn í upptöku RÚV, með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Una spilar á Camillus Camilli fiðlu, smíðaða í Mantua 1732.

EFNISSKRÁ

Chaconna í d moll úr Partitu no 2 BWV 1004 eftir Bach 
Sólósónata opus 27 nr. 6 (tileinkuð Manuel Quiroga) eftir Ysayee