Gljúfrasteinsannáll 2022

Árið hennar Sölku

image

Árið í ár var tileinkað Sölku Völku en 90 ár eru liðin frá því bókin kom út í tveimur bindum 1931 og 32. Halldór Laxness var þá þrítugur og telst bókin til einna af þremur þjóðfélagslegu skáldsagna hans. Á Gljúfrasteini opnaði lítil sýning þar sem sjá má listaverk sem prýða bókakápur Sölku Völku á hinum ýmsu tungumálum. Í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands var boðið upp á námskeið um verkið og komu áhugasamir nemendur í lok námskeiðisins í fylgd kennara síns, Halldórs Guðmundssonar og Auðar Jónsdóttur. Stemmingin í stofunni var að vonum góð og sköpuðust fjörlegar umræður.

Salka Valka kom út í nýrri þýðingu á ensku bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum í þýðingu Philips Roughton. Óhætt er að fullyrða að viðtökurnar hafi verið framar vonum eins og lesa má um í þessum annál. Sú ánægjulegu tíðindi urðu einnig að Þórdís Þorfinnsdóttir leikkona las Sölku Völku á Storytel þannig að þessi klassíska og sívinsæla saga er aðgengileg fyrir bókaunnendur. Hlustun á hljóðbækur nýtur meiri vinsælda nú en áður. Upplestur Halldórs sjálfs er áfram aðgengilegur á Rúv sem færðu þjóðinni upplestrana að gjöf í samstarfi við Guðnýju Halldórsdóttur og Sigríði Halldórsdóttur, dætur skáldsins. 

Í annál ársins er farið yfir helstu þætti í starfssemi Gljúfrasteins. Verk skáldsins eru ávallt í öndvegi og raunar ástæða þess að rekið er safn á Gjúfrasteini. 

Íslensku þýðingaverðlaunin á Gljúfrasteini 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands afhenti Gunnari Þorra Péturssyni Íslensku þýðingaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini laugardaginn 19. febrúar. Gunnar Þorri hlaut verðlaunin fyrir þýðingu sína á Tsjernobyl-bænininni eftir Svetlana Aleksíevítsj. Angústúra gaf bókina út árið 2021. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars:  

„Hér skilar Gunnar Þorri góðu verki. Hann þarf að setja sig í spor allra þeirra ólíku aðila sem hér segja sögu sína og túlka stöðu þeirra og tilfinningar í gegnum málfarið. Hann gerir það af mikilli þekkingu og góðu innsæi sem sést best af því hvernig hann miðlar röddum verksins og af blæ orðanna skynjum við ólíkar persónur.“ 

Hér má sjá ræðu Gunnars Þorra á athöfninni. 

image
image
image
1. Guðrún C. Emilsdóttir, formaður Bandalags þýðenda og túlka, Guðni Th. Jóhannesson forseti, Þorgerður Agla Magnúsdóttir, Gunnar Þorri Pétursson og María Rán Guðjónsdóttir. 2. Gunnar Þorri sáttur í sófanum. 3. Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir.

Hugarflæði, stefnumótun og aðgerðaráætlun 

Yfirgripsmikil stefnumótunarvinna fór fram í mars með ráðgjöfunum Maríu Hrund Marinósdóttur og Bergi Ebba Benediktssyni. Stefnumótunin var unnin með tuttugu manna hópi sem lagði fram hugmyndir sínar um framtíð starfseminnar á Gljúfrasteini. Í framhaldinu var unnin aðgerðaráætlun og lagt til að henni yrði lokið á 20 ára afmæli safnsins vorið 2024 og á þeim tímamótum væri hægt að kynna „nýjan“ Gljúfrastein og opna þá m.a. nýjar sýningar á Gljúfrasteini og taka í notkun nýtt móttökuhús í Jónstótt sem stendur hinum megin Köldukvíslar.  

Árið 2019 festi ríkið kaup á eigninni Jónstótt undir starfsemi Gljúfrasteins. Var það gert í kjölfarið á samþykktri þingsályktunartillögu frá 2016 og skýrslu starfshóps sem skilaði þarfagreiningu og skýrslu til mennta- og menningarmálaráðherra 2017. Alþingi samþykkti 30. mars 2020 að ráðstafa í aukafjárlögum fyrir árið 2020 sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins. Í áætluninni var gert ráð fyrir viðhaldi á ýmsum fasteignum og fjárfestingum á vegum ríkisins. Jónstótt við Gljúfrastein var inni í þessum tillögum. Í Jónstótt verður vinnuaðstaða starfsfólks á efri hæð og gestamóttaka og safnbúð á neðri hæð hússins. Í framtíðinni verður skipulagi Þingvallavegar breytt þannig að lokað verður fyrir núverandi bílastæði og aðkomu að Gljúfrasteini og gestum beint upp Jónstóttarveg sem verður fyrsti viðkomustaður gesta safnsins.   

Af hálfu stjórnar og starfsfólks Gljúfrasteins hefur margskonar undirbúningur átt sér stað, í anda aðgerðaráætlunarinnar, á árinu sem senn er á enda. Þegar mögulegt verður að hefja starfsemina í Jónstótt verður Gljúfrasteinn alfarið sýningarsvæði því vinnuaðstaða starfsfólks mun flytjast út úr húsinu. Því verður hægt að opna þrjú sýningarrými, þ.e. barnaherbergi og unglingaherbergi á annarri hæð auk bílskúrsins. Mikilvægt er að undirbúa þessar breytingar vel. Rannveig Jónsdóttir, fulltrúi fjölskyldu Halldórs Laxness í stjórn Gljúfrasteins mun afla heimilda og taka viðtöl til að fá sem gleggsta mynd af hvernig var umhorfs í barna- og unglingaherbergjunum. Þær heimildir verða notaðar til að ákveða hvaða sögu verður miðlað þar og hvaða munir verða þar til sýnis.  

Í stefnumótunarvinnunni var stefna Gljúfrasteins einnig rædd í víðara samhengi og sjónum beint að því hvernig þróa megi áfram þá þjónustu, miðlun og fræðslu sem safnið sinnir. 

image
image
Málin rædd í stofunni á Gljúfrasteini og verðskuldaður kaffisopi í ókláraðri Jónstótt.

Bókmennta- og heilsuátakið Laxness 120 

Annað árið í röð stóðu íslenskukennarar við nokkra erlenda háskóla að bókmennta- og heilsuátaki. Að þessu sinni var yfirskriftin Laxness120 en í apríl voru liðin 120 ár frá fæðingardegi Halldórs Laxness. Fólk var hvatt til að taka þátt með því að lesa og stunda hreyfingu á tímabilinu 8. febrúar, sem var dánardagur Halldórs Laxness, til 23. apríl, sem er fæðingardagur skáldsins. Að þessu sinni var Salka Valka í öndvegi í tilefni af 90 ára útgáfuafmæli verksins. Ásamt því að lesa bókina eða önnur verk Halldórs Laxness gat fólk til að mynda gengið, skokkað, synt eða hjólað 120 kílómetra á þessu tímabili. Átakinu lauk með beinu streymi úr stofunni á Gljúfrasteini þar sem Dagný Kristjánsdóttir fjallaði um Sölku Völku og Halldór Guðmundsson fjallaði um ævi og verk Halldórs Laxness. Verkefnið var unnið í góðu samstarfi Gljúfrasteins, Stofnunar Árna Magnússonar og Bókmenntaborgarinnar.

image
image
Halldór Guðmundsson og Dagný Kristjánsdóttir héldu erindi fyrir þátttakendur í bókmennta- og heilsuátakinu Laxness120.

Salka Valka 90: Sýning í móttöku Gljúfrasteins 

Sýningin Salka Valka 90 opnaði með pompi og prakt á fæðingardegi Halldórs Laxness þann 23. apríl. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra opnaði sýninguna. Ekki skemmdi fyrir að veðrið lék við sýningargesti á Gljúfrasteini þennan fallega vordag. Sýningin var sett upp í tilefni af 90 ára útgáfuafmæli Sölku Völku sem kom út í tveimur hlutum á árunum 1931-1932. Fyrri bókin, Þú vínviður hreini, kom fyrst út árið 1931 og seinni bókin, Fuglinn í fjörunni, á afmælisdegi Halldórs Laxness 23. apríl 1932, á þrítugsafmælinu. Hönnuður sýningarinnar var Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur og myndlistarmaður. Sýningin hlaut styrk frá Safnasjóði og stendur enn yfir í móttöku safnsins. Á henni gefur meðal annars að líta ljósmyndir sem veita innsýn í sögusvið Sölku Völku og í kringum 50 mismunandi bókakápur frá hinum ýmsu löndum, enda hefur bókin verið þýdd á 25 tungumál. Bókin hefur verið í stöðugri útgáfu frá því að hún kom fyrst út fyrir 90 árum, nú síðast á ensku. Sjá má brot af þessari útgáfu á sýningunni. 

image
image
image
1. Salka Valka 2. Gestir við opnun sýningarinnar 3. Ingibjörg Sigurjónsdóttir formaður stjórnar Gljúfrasteins.

Laxnessganga á fæðingardegi skáldsins 

Í tengslum við bókmennta- og heilsuátakið #Laxness120 var boðið upp á göngu um Mosfellsdal. Bjarki Bjarnason, leiðsögumaður og rithöfundur leiddi hópinn um æskuslóðir Halldórs Laxness frá Mosfellskirkju að Gljúfrasteini með viðkomu á völdum stöðum. Lesin voru brot úr verkum Halldórs Laxness og mæðinni kastað við Guddulaug, sem samkvæmt skrifum skáldsins er sannkölluð kraftaverkalind. Göngufólk fékk sopa úr lindinni en Bjarki hafði komið fyrir glösum við lækinn sem hann kallaði Guddubar. Þegar á Gljúfrastein var komið lauk göngunni með fjöldasöng í hlaðinu í blíðskaparveðri. 120 ára fæðingarafmæli skáldsins var þannig fagnað með margvíslegum hætti á Gljúfrasteini.

image
image
image
1. Göngufólk við Gljúfrastein 2. Bjarki Bjarnason leiðsögumaður

Salka Valka í nýrri enskri þýðingu 

Í vor kom Salka Valka út í nýrri enskri þýðingu. Þýðandinn er Philip Roughton en áður hefur hann þýtt Gerplu og Vefarann mikla frá Kasmír auk fjölda annarra íslenskra skáldverka. Bókin kom út hjá forlaginu Penguin Random House í Bretlandi og Archipelago Books í Bandaríkjunum. Tímasetningin var aldeilis viðeigandi í ljósi þess að í apríl fagnaði Salka Valka 90 ára útgáfuafmæli. Útgáfunnar hafði verið beðið með talsverðri eftirvæntingu og það má segja að Salka Valka hafi loksins „meikað það“ í Ameríku, en upphaflega ætlaði Halldór Laxness að skrifa Sölku sem kvikmyndahandrit fyrir Hollywood.  

Glimrandi fín umfjöllun um Sölku Völku birtist í The Washington Post í kjölfar útgáfunnar. Hér að neðan er brot úr umfjölluninni, en textann í heild má nálgast hér.  

“For modern readers, especially those who are aware of what a prosperous and enlightened tourist destination Iceland has become, “Salka Valka” is a wonderful exposure to Iceland’s troubled past and to the Icelandic sensibility that comes from making the best of things even when there isn’t much to be made. Laxness’s characters are rough and honest, and “Salka Valka” is one of the most empathetic portraits of a girl and a woman that I’ve read by a male author. This new translation is readable and compelling.” (Jane Smiley, The Washington Post, 6. júní 2022) 

Iceland Writers Retreat 

Dagana 27. apríl – 1. maí fóru ritlistarbúðirnar Iceland Writers Retreat fram í sjöunda sinn. Líkt og undanfarin ár hafði hópurinn viðkomu á Gljúfrasteini en að þessu sinni var það Ármann Jakobsson, rithöfundur og prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda, sem hélt erindi fyrir þátttakendur í stofu skáldsins.

image
Þátttakendur í Iceland Writers Retreat skoðuðu sig um á Gljúfrasteini og hlýddu á erindi Ármanns Jakobssonar.

Laxness í köldu stríði 

Bandaríski bókmenntafræðingurinn Chay Lemoine hélt fyrirlestur þann 15. maí á Gljúfrasteini þar sem hann rak rannsóknir sínar á afskiptum FBI og CIA af Halldóri Laxness.  

Þótt friður hafi komist á í Evrópu árið 1945, þá varð snemma ljóst að Bandaríkin og Sovétríkin sátu ekki á friðarstóli. Hér á landi urðu háværar deilur um stefnumótun hins unga lýðveldis í stórum og viðsjárverðum heimi. Þessi togstreita braust út með miklum látum þegar Alþingi greiddi atkvæði árið 1949 um aðild landsins að NATO. Inn í þetta andrúmsloft gaf Halldór út Atómstöðina árið 1948. Afstaða Halldórs er skýr og átti eftir að hafa afleiðingar fyrir framgang skáldsins í Bandaríkjunum. 

Á þessum árum fóru fram leynilegar viðræður milli bandaríska sendiráðsins á Íslandi og Bjarna Benediktssonar, þáverandi utanríkisráðherra, um hvernig mætti draga úr trúverðugleika Halldórs Laxness. Inn í það blandaðist FBI lögreglan og meira að segja forstjóri hennar, J. Edgar Hoover, sem hafði sjálfur afskipti af málinu eins og fram kom í skjölum sem Chay Lemoine útvegaði og lagði m.a. fram í grein í Mannlífi árið 2005.  

Fyrir nokkrum árum tók Chay Lemoine aftur upp þennan þráð og reyndi m.a. að komast yfir skjöl frá CIA sem einnig hafði fylgst með Halldóri. Í erindinu gerði Chay grein fyrir þessum leiðangri sínum og svaraði spurningum viðstaddra. 

image
image
1. Chay Lemoine rak rannsóknir sínar á afskiptum FBI og CIA af Halldóri Laxness. 2. Úr umfjöllun Mannlífs frá árinu 2005.

Stofutónleikar 

Loksins, loksins! Eftir mikla bið var hægt að endurvekja stofutónleikaröð Gljúfrasteins en hún hafði legið í dvala undan farin tvö ár út af svolitlu... Hjartaknúsarinn og Vestfjarðarokkarinn Mugison reið á vaðið og söng inn sumarið í stofunni á Gljúfrasteini. Tónleikar voru haldnir á hverjum sunnudegi í júní, júlí og ágúst þar sem einvalalið tónlistarfólks steig á stokk. Tónleikarnir hafa verið fastur liður á safninu frá árinu 2006 en í tíð Halldórs og Auðar voru reglulega haldnir tónleikar í stofunni þar sem innlent og erlent tónlistarfólk lék listir sínar.  

Dagskráin var fjölbreytt og spannaði allt frá óperuaríum til tilraunakenndra raftóna. Meðal þeirra sem komu fram á tónleikum Gljúfrasteins í sumar voru Salóme Katrín og Bjarni Daníel, Vigdís Hafliðadóttir og Baldvin Hlynsson, Magnea Tómasdóttir, Kjartan Guðnason og Kjartan Valdemarsson, Katrín Halldóra og Hjörtur Ingvi, Dísella Lárusdóttir og Helga Bryndís, Álfheiður Erla og Valgeir Daði, Sólborg Valdimarsdóttir og Júlía Traustadóttir, Sigrún Jónsdóttir, félagar úr Leikfélagi Mosfellssveitar, Herdís Anna Jónasdóttir og Bjarni Frímann, Kristjana Stefánsdóttir og Tómas Jónsson.  

Síðustu helgina í ágúst sló svo Davíð Þór Jónsson botninn í vel heppnað tónleikasumar fyrir fullu húsi gesta. 

image
image
image
1. Mugison flytur lagið „Stolin stef“ eftir Tómas R. Einarsson á fyrstu tónleikum sumarsins. 2. Efnisskrá og villt blóm úr garðinum við Gljúfrastein. 3. Davíð Þór Jónsson.

Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness 

Úkraínski rithöfundurinn Andrej Kúrkov

hlaut Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. Verðlaunin eru veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma. Athöfnin fór fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands þann 7. september og veitti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verðlaunin. 

Andrej Kúrkov er einn þekktasti rithöfundur Úkraínu og hafa verk hans verið gefin út á 42 tungumálum. Bók hans, Dauðinn og Mörgæsin, sló í gegn víða um heim þegar hún kom út. Bókin var gefin út á íslensku í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur árið 2005 og var endurútgefin í ár. Kúrkov er forseti alþjóðlegu rithöfundasamtakanna PEN í Úkraínu og hefur einsett sér undanfarið að fjalla um innrásina í Úkraínu. Bók hans, Diary of an Invasion, kom út í haust.  

Kúrkov heimsótti Gljúfrastein á meðan Íslandsdvölinni stóð þar sem hann gerði sér lítið fyrir og lék á flygilinn í stofunni að kaffisopa loknum. Hann kom einnig fram á upplestrarkvöldi í Iðnó í tilefni verðlaunanna en ásamt honum lásu Guðrún Eva Mínervudóttir og Bergþóra Snæbjörnsdóttir. Þá var Kúrkov viðmælandiKastljóss

image
image
image
1. Óskar Árni Óskarsson, Áslaug Agnarsdóttir, Andrej Kúrkov og Elizabeth Sharp að lokinni verðlaunaafhendingu í Hátíðarsal Háskóla Íslands. 2. Halldór Guðmundsson færði Andrej Kúrkov ævisögu Halldórs Laxness á ensku. 3. Verðlaunahafinn stillir sér upp.

Opið hús á Gljúfrasteini 

Um 400 manns lögðu leið sína á Gljúfrastein laugardaginn 27. ágúst. Safnið opnaði dyrnar upp á gátt og frítt var inn í tilefni bæjarhátíðar Mosfellsbæjar, Í túninu heima. Í stofunni var plata á fóninum og gestir á öllum aldri gengu á milli hæða og skoðuðu húsið. Sumir tylltu sér í garðinn að heimsókn lokinni og nutu veðurblíðunnar.

image
image
image
1. Vinnuherbergi Halldórs Laxness 2. Flygillinn í stofunni 3. Sumarblóm

Upplestur úr Sölku Völku 

Salka Valka hélt áfram að vera í öndvegi á Gljúfrasteini þótt haustvindar væru teknir að blása. Sunnudaginn 2. október las leikkonan Þórdís Björk Þorfinnsdóttir valda kafla úr verkinu, en bókin kom út fyrr á árinu sem hljóðbók hjá streymisveitunni Storytel. Túlkun Þórdísar var vægast sagt glæsileg og óhætt að mæla með upplestri hennar á hljóðbókinni. 

image
Þórdís Björk að upplestri loknum.

Námskeið: Salka Valka – níræð og síung 

Námskeiðið Salka Valka - níræð og síung var haldið í Endurmenntun dagana 3., 5. og 8. október. Halldór Guðmundsson hafði umsjón með námskeiðinu og fékk til sín góða gesti. Fjallað var um sögulegan jafnt sem ævisögulegan bakgrunn verksins, um byggingu þess og persónu- og samfélagslýsingar en einnig var umrætt hvaða erindi sagan eigi við nútímann. Námskeiðið var haldið í samstarfi við Gljúfrastein og fór síðasti tíminn fram á safninu þar sem Halldór og Auður Jónsdóttir leiddu líflegar umræður.

Skólaheimsóknir

Eins og ævinlega settu skólahópar svip sinn á haustið á Gljúfrasteini. Á safninu fá hóparnir leiðsögn um húsið þar sem þeir fræðast um ævi og verk Halldórs Laxness auk þess að kynnast lífinu á Gljúfrasteini. Tekið er á móti nemendum á öllum aldri og einnig er boðið upp á sérstök safnaverkefni fyrir grunnskólanema. Framhaldsskólanemar eru tíðir gestir á Gljúfrasteini og koma í heimsókn því flest eru búin að lesa einhverja af bókum Halldórs.

image
image
image
1. Grunnskólanemi sýnir vinnu sína með safnverkefnið: Hvað dettur þér í hug? 2. Nemendur frá Flensborgarskóla ásamt kennara sínum Símoni Jóni. 3. Arkitektanemar úr LHÍ með Birtu Fróðadóttur.

Ritlistarnemar á Gljúfrasteini

Í sumar hófu tveir nýjir starfsmenn störf á Gljúfrasteini, í hlutastarfi enda báðar enn í námi við Háskóla Íslands. Þær Kristín Nanna og Sunneva Kristín hafa lagt stund á meistaranám í ritlist við HÍ en mjög áhugavert hefur verið að heyra þær segja frá náminu. Ákveðið var að bjóða ritlistarnemum að lesa úr verkum sínum á Gljúfrasteini á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Áttum við ánægjulega stund á heimili skáldsins.

image
image
1. Ritlistarnemar að loknum skemmtilegum upplestri á degi íslenskrar tungu. 2. Kristín Nanna og Sunneva taka til hendinni í stofunni en þær hófu störf á Gljúfrasteini á árinu.

Aðventan á Gljúfrasteini 

Sú hefð hefur skapast á aðventunni að rithöfundar lesi upp úr nýjum bókum á Gljúfrasteini. Jólabókaflóðið var aldeilis spennandi í ár og Gljúfrasteinn fór ekki varhluta af því. Upplestrar fóru fram á sunnudögum á aðventunni og alls komu 12 höfundar sér vel fyrir í stofunni og lásu upp úr verkum sínum. Því miður féll síðasti upplesturinn niður vegna mikillar fannfergi í Mosfellsdal. Á upplestrunum var Jólaóratóría Bachs sett á fóninn enda fátt hátíðlegra. 

Í lok nóvember hafði starfsfólk safnsins lagt á borð fyrir hátíðarkvöldverð í borðstofunni eins og gert var í tíð Auðar og Halldórs. Þá fengu valdar dúkkur „þjóðarinnar“ að prýða skenkinn í borðstofunni en þær eru alla jafna geymdar í vinnustofu skáldsins á efri hæðinni. Halldór ferðaðist víða og hafði þann vana að kaupa

minjagripi handa dætrum sínum og sú hefð skapaðist á jólum að velja nokkrar brúður til að skreyta skenkinn.

image
image
1. Jón Kalman les upp úr bók sinni, Guli kafbáturinn. 2. Flautuleikarinn frá Hamelin er hluti af „þjóðinni“ sem býr í vinnustofu skáldsins á Gljúfrasteini en flutti niður í borðstofu á aðventunni.

Jagúarinn í Borgarholtsskóla

Samið var við Borgarholtsskóla um að nemendur tækju að sér viðgerð á jagúar Halldórs. Umfjöllun um verkefnið var í fréttum á sínum tíma. Töluvert margir af gestum safnsins höfðu einmitt tekið eftir því og voru mjög sáttir við þessi málalok, þótt margir söknuðu þess að sjá ekki bílinn prýða hlaðið á Gljúfrasteini. Erlendir gestir spurðust líka fyrir um bílinn en æði oft má sjá hann þegar safnið er auglýst og eða um það fjallað. 

Safnið er í samvinnu við hóp bílaunnenda, einkum bíla af eldri gerðinni en margir fylla þann hóp og oft er þar að finna mikinn fróðleik og þekkingu á til dæmis viðgerðum þessara eðalvagna. Einn mikill áhugamaður er Óskar Magnússon sem gaf út bók á árinu um bílinn: Jagúar skáldsins.  

image
image
image
1. og 2. Jagúarinn í meðferð Borgarholtsskóla, þar sem allt ryð var fjarlægt og nú er unnið að sprautun. 3. Óskar Magnússon höfundur "Jagúar skáldsins".

Laxness í heimspressunni 

Á árinu voru birtar ýmsar greinar um Halldór Laxness á erlendum vettvangi í tilefni af nýrri enskri þýðingu Sölku Völku. Í The New Yorker birtist greinin The Rediscovery of Halldór Laxness: A long eclipse for Iceland’s greatest novelist has been followed by a continuing renaissance þar sem sagt er nokkuð ítarlega frá ævi og ferli Halldórs Laxness auk þess sem fjallað er sérstaklega um Sjálfstætt fólk og Sölku Völku. Í The Washington Post birtist glimrandi fín umfjöllun um Sölku Völku í kjölfar útgáfunnar í Bandaríkjunum: From Iceland, a Nobel winner’s rediscovered masterpiece. Þá fjallaði The New York Review um Sölku Völku auk annarra verka Halldórs Laxness og ævisögu Halldórs Guðmundssonar um skáldið.

Klukkan tifar

Klukkan í forstofu Gljúfrasteins vekur ávallt athygli gesta og þrátt fyrir háan aldur lætur hún ekki bilbug á sér finna, gengur rétt og slær inn hvern nýjan klukkutíma. Starfsmenn trekkja klukkuna einu sinni í viku en stundum þarf aðeins meira og þá fáum við Guðmund Hermannsson úrsmið í heimsókn. 

Klukkan var smíðuð hjá James Cowan í Edinborg og er úrverkið frá 1770. Klukkan kemur frá bernskuheimili Halldórs að Laxnesi. Klukkan var fyrirmynd klukkunnar í Brekkukotsannáli þar sem Álfgrímur taldi sig heyra að klukkan segði: eilíbð, eilíbð... 

image
image
Guðmundur Hermannsson lagfærði gömlu klukkuna 18. febrúar.

Gjöf frá sænska sendiherranum 

Það var ánægjulegt að fá sænska sendiherrann Pär Ahlberger í heimsókn í safnið en hann er mikill áhugamaður um tengsl Íslands og Svíþjóðar. Hann kom færandi hendi og gaf safninu plakat fyrir kvikmyndina um Sölku Völku í leikstjórn sænska leikstjórans Arne Mattson en hún var frumsýnd árið 1954.

image
Pär Ahlberger og Guðný Dóra safnstjóri með plakatið fína.

Safnkostur á flakki

Þótt safnið á Gljúfrasteini sé ekki stórt þá er til töluverður fjöldi gripa sem ekki er til sýnis. Þessa muni þarf að varðveita við góðar aðstæður. Gljúfrasteinn hefur fengið afnot af geymslurými í félagsheimilinu Hlégarði. Sú lausn er til bráðabirgða því Mosfellsbær ráðagerðir að ljúka viðgerðum á öllu húsinu og nýta allt rýmið undir fjölbreytta menningarstarfsemi. Í júní 2021 þurfti að flytja alla muni Gljúfrasteins úr geymslunni í Hlégarði í tímabundið geymsluhúsnæði. Í maí 2022 var safnkosturinn fluttur aftur í geymsluherbergið í Hlégarði.  

Safnkostur muna, mynda og listaverka er skráður í menningarsögulega gagnagrunninn Sarp og almenningur getur nálgast og skoðað stóran hluta af safnkosti Gljúfrasteins á vefútgáfu Sarps

Bókakostur Gljúfrasteins er nánast allur skráður í Gegni, sem er sameiginlegur gagnagrunnur íslenskra bókasafna. Á árinu var nýr Gegnir tekinn í notkun á vegum Landskerfis bókasafna. Hann byggir á Alma bókasafnskerfinu sem er veflægt og nútímalegt kerfi. Starfsmaður frá Gljúfrasteini hefur nú þegar farið á námskeið á vegum Landskerfa til að læra á nýtt kerfi. Árlega fær Gljúfrasteinn bókagjafir og nýjar útgáfur af verkum skáldsins sem halda þarf utan um og skrá.

image

Nýr vefur um skáldið

Pétur Már Ólafsson bókaútgefandi birti skrif sín um Halldór Laxness á nýjum vef á árinu. Á vefnum Skáldatími er að finna fróðlegar greinar um skáldið, bókaútgáfu ásamt fjölda ljósmynda. Pétur Már var í ritstjórn vefs Gljúfrasteins þegar safnið hóf göngu sína og gaf þá leyfi til að birta valdar greinar á nýjum safnavef. Pétur Már var útgáfustjóri hjá Vöku - Helgafelli og starfaði lengi með Ólafi Ragnarssyni bókaútgefanda m.a. að útgáfu og endurútgáfu verka Halldórs Laxness.

Árið í einum konfektmola

Árið á Gljúfrasteini hefur verið viðburðaríkt. Í ársbyrjun voru ennþá samkomutakmarkanir og var því sérstaklega skemmtilegt að fá allt þetta fólk í hús á hina margvíslegu viðburði og uppákomur þegar líða tók á árið. Aðventan var hugguleg og upplestur rithöfunda úr bókum í flóðinu var kærkomin rúsína. Fyrsti vetrarsnjórinn náði þó að loka heiðinni og hlaðinu á Gljúfrasteini fyrir síðasta upplesturinn þann fjórða sunnudag í aðventu. Lýkur því ári starfsfólks Gljúfrasteins með jólasnjó í hlaðinu og konfektmola með kaffinu.

Starfsfólk Gljúfrasteins óskar landsmönnum nær og fjær gleðilegrar hátíðar með þakklæti fyrir árið sem er að líða.

image