Kammerhópurinn Nordic Affect héldu tónleika þann 10. ágúst 2008. Nordic Affect hópurinn samanstendur af þeim Höllu Steinunni Stefánsdóttur fiðluleikara, Georgiu Brown þverflautuleikara og Hönnu Loftsdóttur sellóleikara. En allar eru þær sprenglærðar í sínu fagi og hafa verið áberandi í klassísku tónlistarlífi í Evrópu og víðar undanfarin ár. Hópurinn var settur saman árið 2005 og með það að markmiði að miðla ríkidæmi tónlistar 17.og 18.aldar og flytja samtímatónlist. Í sumar gáfu þær stöllur út sinn fyrsta disk , sem inniheldur Apocrypha, verk Huga Guðmundssonar sem hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin í ár. Á stofutónleikunum voru flutt tónverk eftir tvö tónskáld, sem bæði fundu hamingjuna í London, en það eru þeir Joseph Haydn og Johann Christian Bach. Sá síðarnefndi var yngsti sonur Johann Sebastians og kom hann til London 27 ára að aldri og fann þar frægð og frama. Haydn var nokkuð eldri en J.C.Bach þegar að hann kom í fyrsta skipti til London, eða 49 ára. Sjálfur talaði hann síðar hann um dvöl sína í borginni á árunum 1781-5 sem hamingjuríkustu ár ævi sinnar og fluttu Nordic Affect tvö tríó sem hann samdi á þessum sæluríka tíma.
Kammerhópurinn Nordic Affect var stofnaður 2005 með það að markmiði að miðla ríkidæmi tónlistar 17.og 18.aldar og flytja samtímatónlist. Nafn hópsins er tilvísun í þá yfirlýstu stefnu tónskálda fyrri alda að miðla affect eða tilfinningu til áheyrandans með tónsmíðum sínum. Með stofnun hópsins myndaðist starfsvettvangur fyrir tónlistarmenn sem eiga það sameiginlegt að vilja með flutningi sínum varpa nýju ljósi á verk fyrri alda og halda á ókönnuð mið. Meðlimir Nordic Affect eiga allir að baki sérfræðinám í Evrópu og Bandaríkjunum í sagnfræðilegum hljóðfæraleik og koma reglulega fram sem einleikarar, kammermúsíkantar og með hljómsveitum víða um Evrópu. Fyrstu tónleikar Nordic Affect fóru fram á Sumartónleikum í Skálholti sumarið 2005. Síðan þá hefur hópurinn komið fram á Íslandi og meginlandi Evrópu og vorið 2007 hófu þau vetrartónleikaröð í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík. Nordic Affect hefur með tónleikum sínum á Íslandi og erlendis flutt allt frá danstónlist 17.aldar til hinnar spennandi raftónsköpunar nútímans og hafa hlotið fyrir leik sinn afbragðs dóma og vakið athygli fyrir stílinnlifun og þróttmikinn leik. Nú í sumar kemur út fyrsti geisladiskur hópsins með verki Huga Guðmundssonar, Apocrypha, sem hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin í ár.
Halla Steinunn Stefánsdóttir nam fiðluleik hjá Guðnýju Guðmundsdóttur við Tónlistarskólann í Reykjavík og Elisabeth Zeuthen Schneider við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium þaðan sem hún útskrifaðist 2001. Við útskriftina hlaut hún ýmsa styrki, þar á meðal Fulbright styrk sem gerði henni kleift að leggja stund á nám í barokkfiðlu við Indiana University School of Music, Bloomington undir leiðsögn Stanley Ritchie. Hún útskrifaðist frá IU með P.D. in baroque violin árið 2004. Halla Steinunn hefur komið fram á tónleikum og tónlistarhátíðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún er stofnandi og listrænn stjórnandi Nordic Affect auk þess sem hún er í forsvari fyrir barokksveitina Camerata Drammatica. Halla Steinunn hefur leikið inn á geisladiska, þar á meðal á Melodia, geisladisk kammerkórsins Carmina sem hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin í ár. Halla Steinunn hefur komið að fyrirlestrarhaldi bæði erlendis og hér heima, kennt hljóðfærabókmenntir við LHÍ og unnið að dagskrárgerðr fyrir RÚV. Meðal verkefna næstu mánaða eru tónleikar með hinum virta kammerhóp The Burney Players auk tónleika á Íslandi, í Hollandi og Bretlandi.
Georgia Browne fæddist árið 1977 í Perth í Ástralíu. Að lokinni B.Mus gráðu í flautuleik við University of Western Australia flutti hún til Hollands til að leggja stund á nám í sagnfræðilegum flautuleik. Hún hóf nám við traverso deildina við Koninklijk Conservatorium í Haag árið 1999 sem nemandi Kate Clark og síðar Barthold Kuijken. Georgia er aðalflautuleikari og tíður einleikari með New Dutch Academy og hefur komið fram með hópum á borð við Orchestra of the Age of Enlightment, l'Orchestre des Champs Elysees, La Chambre Philharmonique, Divino Sospiro, Florilegium og Australian Chamber Orchestra. Hún hefur leikið á Íslandi með Nordic Affect og einnig Alþjóðlegu barokksveitinni í Haag og kammerhópnum L’Aia og hlotið fyrir mikið lof gagnrýnanda. Georgia er einleikari á fyrstu upptöku á flautukvartettum og sinfóníum eftir Joseph Schmitt „hinn hollenska Haydn” með New Dutch Academy. Hún leikur einnig á nýútgefnum geisladiski með Vivaldi konsertum í flutningi La Suave Melodia. Meðal þeirra virtu tónleikasala sem Georgia hefur nýlega komið fram í eru Royal Albert Hall í London, Cité de la Musique í París, Getty Museum í Los Angeles og Concertgebouw í Amsterdam. Á undanförnum árum hefur hún m.a. komið fram á Handel Festival í Halle, Potsdam Barokfestspiele, Amsterdam City of Music Festival og í Utrecht sem einleikari á Holland nemmtónlistarhátíðinni. Hún hefur komið fram á vegum Hollenska Útvarpsins 4, Ástralska Útvarpsins og Sambands Evrópskra Útvarpsstöðva.
Hanna Loftsdóttir hóf sellónám níu ára gömul við Tónskóla Sigursveins D.Kristinssonar og síðar við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þaðan lá leiðin til Danmerkur þar sem hún stundaði nám hjá prof. Morten Zeuthen við Det Kgl.Danske Musikkonservatorium. Eftir að hafa lokið diplóm gráðu í sellóleik þaðan, hélt Hanna til Hollands þar sem hún stundaði nám hjá Jaap ter Linden í barokkselló- og gömbuleik við barokkdeildina í Koninklijk Conservatorium í Haag. Í námi sínu og starfi hefur Hanna lagt mikla áherslu á barokktónlist og flutning hennar á upprunaleg hljóðfæri, bæði á gömbu og barokkselló. Hanna kemur reglulega fram með fjölmörgum barokkhópum bæði á Íslandi og erlendis. Þar má m.a. nefna Bachsveitina í Skálholti, Nordic Affect, Holmens Barokensemble, Ensemble Casia, The Luna Consort og The New Dutch Academy.
Efnisskrá:
Joseph Haydn Tríó nr. 3 í G-dúr
Spiritoso
Andante
Allegro
Johann Christian Bach Tríó í C-dúr
Allegretto
Adagio
Allegro
Joseph Haydn Tríó nr. 1 í C-dúr
Allegro moderato
Andante
Finale (Vivace)