Strengjakvartettinn Spúttnik var stofnaður árið 2018. Meðlimir í Spúttnik eru fiðluleikararnir Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir og Diljá Sigursveinsdóttir, víóluleikarinn Vigdís Másdóttir og sellóleikarinn Gréta Rún Snorradóttir. Spúttnik hefur komið reglulega fram á tónleikum frá stofnun hans og leikið kvartetta og tríó allt frá barokktímabilinu til okkar tíma.
Á næstkomandi tónleikum mun Spúttnik leika einn kafla úr strengjakvartettinum Þrjú minni eftir Gylfa Garðarsson og strengjakvartett op. 76 nr. 3 í C- dúr eftir Joseph Haydn en kvartettinn er talinn einn áhrifamesti strengjakvartett tónskáldsins og þar að auki eitt þekktasta tónverk Haydns. Kvartettinn dregur nafn sitt af 2. kafla verksins en kaflinn var upphaflega saminn til heiðurs Austurríkiskeisara (Franz ll). Laglínan varð síðar að þjóðsöng Þjóðverja.
Tónleikarnir hefjast kl. 16 í stofunni á Gljúfrasteini. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika.
Við bendum gestum á að næg bílastæði eru við Jónstótt.
Hér má sjá dagskrá sumarsins í heild sinni. Stofutónleikaröð Gljúfrasteins 2024 er haldin í samstarfi við Vinafélag Gljúfrasteins.
Til baka í viðburði