Tómas R spilar við Laxness

Kvikmyndatónlistina á LAXNESS spila þeir Tómas R. á kontrabassa, Davíð Þór Jónsson á píanó og básúnu, Ómar Guðjónsson á gítar, túbu og banjó og Matthías MD Hemstock á trommur. Þeir koma einnig við sögu í eldri lögunum ásamt saxófónleikurunum Óskari Guðjónssyni og Sigurði Flosasyni og píanistanum Eyþóri Gunnarssyni. Auk þeirra munu Ragnheiður Gröndal og Ragnhildur Gísladóttir syngja.

Tómas R. Einarsson og hljómsveit munu halda útgáfutónleika 1. maí 2012 á Gljúfrasteini kl. 16.00 og kl. 18.00. Hægt er að panta miða hjá Gljúfrasteini s. 586 8066 eða með því að senda tölvupóst á netfangið gljufrasteinn@gljufrasteinn.is Tónlistin er af nýútkomnum diski hans sem hann nefnir Laxness og hefur að geyma tónlist hans við heimildarmyndina Anti-American Wins Nobel Prize eftir Halldór Þorgeirsson, en hún nefnist Svarti listinn og Laxness í íslenskri útgáfu.  Auk þeirrar tónlistar eru á disknum tvö eldri lög sem Tómas gerði við ljóð Halldórs Laxness; S.S. Montclare sem Ragnhildur Gísladóttir syngur og Hjarta mitt í flutningi Ragnheiðar Gröndal.

Kvikmyndatónlistina á LAXNESS spila þeir Tómas R. á kontrabassa, Davíð Þór Jónsson á píanó og básúnu, Ómar Guðjónsson á gítar, túbu og banjó og Matthías MD Hemstock á trommur. Þeir koma einnig við sögu í eldri lögunum ásamt saxófónleikurunum Óskari Guðjónssyni og Sigurði Flosasyni og píanistanum Eyþóri Gunnarssyni.

Í innsíðu bæklings skrifar Halldór Guðmundsson um Halldór Laxness og djassinn og segir þar m.a.:

"Við vitum að tónlistin var æðst listgreina að dómi Halldórs og að hann hafði dálæti á Bach, og höldum kannski að hann hafi ekki hlustað á annað en klassíska tónlist. En þá gleymum við því að á millistríðsárunum er Halldór ungur maður sem vill gleypa við allri nútímamenningu og kynna sér nýjustu listastefnur, eins og víða má sjá í skrifum hans. Til dæmis lýsir hann í blaðagrein sem hann sendir heim frá Taormína á Sikiley árið 1925 hvernig öllu ægi saman þar á skemmtistöðum, jafnt kínverskum pótintátum, hálfblönkum listamönnum, máluðum auðmæringafrúm og hómósexúalískum dansmeisturum, og bætir við: „en meðan allt þetta gerist er stiginn foxtrott og tangó, sungið og híað og hlegið, eða talað hljóðskraf og þuklað og strokið, en jazz djöfullinn grenjar á alt saman með viðlíka krafti og uppskipunarvél í Leith...“. Fjórum árum síðar er hann staddur í Los Angeles, að taka saman efni í Alþýðubókina, og skrifar þá hjá sér í minniskompu: „En ef satt skal segja, þá voru negrarnir, saungmenning þeirra og dans, það merkilegasta og athyglisverðasta sem fyrir mig bar í Ameríku.” Og enn fimm árum síðar skrifar hann Ingibjörgu Einarsdóttur, fyrri eiginkonu sinni, frá Kaupmannahöfn: „Á kvöldin fer ég stundum í bíó, í gærkvöldi fór ég aftur að sjá Three little pigs og heyra Stormy weather.“ Hann stóðst ekki það lag, fremur en margir djassmenn."

G. Bjarki Guðmundsson hannaði albúm, upptökumaður var Georg Magnússon, hljóðblöndun var í höndum Matthíasar MD Hemstock og hljóðjöfnun annaðist Styrmir Hauksson. Ljósmyndir eru eftir Eggert P. Briem og Halldór Eldjárn og Smekkleysa SM dreifir diskinum en Blánótt ehf gefur út. Frumsamin tónlist Tómasar R. Einarssonar hefur komið út á nær tveimur tugum platna en síðast kom úr geisladiskurinn/mynddiskurinn STRENGUR sem var valin ein af bestu plötum ársins 2011 af Descarga.com í New York, helsta vefriti latíntónlistarinnar.