Gljúfrasteinsannáll 2019

Nýjar sögur verða til daglega á Gljúfrasteini og þær eru sannarlega skreyttar mörgum góðum viðburðum og skemmtilegum uppákomum.
En það eru gestir safnsins sem halda sögunni lifandi.  Þeir koma, skoða hlusta og standa auglitis til auglitis við fortíðina. Þeir upplifa andrúmsloft liðins tíma sem stendur í stað í stofunni á Gljúfrasteini, í vinnustofunni, í svefnherbergjum Auðar og Halldórs, í málverkunum, í handverki Auðar og klukkan í anddyrinu tifar enn hægt og virðulega ,,ei-líbbð, ei-líbbð.”  

Fjölmargir gestir erlendir og innlendir sækja safnið ár hvert, stórir hópar, litlir hópar og einstaklingar. Sumir erlendir ferðamenn hafa farið um langan veg til þess eins að sjá heimili Nóbelsskáldsins í Mosfellsdal, hús rithöfundarins sem þau hafa lesið og dáð áratugum saman og fá núna tækifæri til að heimsækja heimili hans. 
Auk þess kemur mikill fjöldi barna og ungmenna í skólaferðir í dalinn til að fá fræðslu um safnið og verk Halldórs. Þau eru aufúsugestir á safninu.  

Í ár varð safnið fimmtán ára en það var opnað við hátíðlega athöfn 4. september árið 2004. 

,,Nú á þjóðin þetta hús,” sagði Auður Laxness í ræðu þennan dag fyrir fimmtán árum og bætti við að nú væri hún sjálf í hópi annarra gesta á sínu gamla heimili og óskaði safninu velfarnaðar um ókomna tíð.

 Kraftstöð íslenskrar menningar og lista

Haustið 2002 flutti Auður frá Gljúfrasteini tveimur árum áður en safnið var opnað tæplega fjórum árum eftir að Halldór Laxness lést. Auður og Halldór bjuggu saman á Gljúfrasteini í hálfa öld. Þau fluttu inn sama dag og þau giftu sig, á aðfangadag árið 1945.
Á opnunarhátíð safnsins sagði Þórarinn Eldjárn rithöfundur frá því þegar Halldór og Auður festu kaup á húsinu, byggingu þess og deginum sem þau fluttu inn:
,,og þar með hófst sagan sem gerði Gljúfrastein í einni svipan að einhverri helstu kraftstöð íslenskrar menningar og lista … Í dag hefst nýr kafli í þeirri sögu,”  sagði Þórarinn sem þá var formaður stjórnar Gljúfrasteins. 

Afmælisárið á Gljúfrasteini var afar viðburðarríkt.
Hér verður stiklað á stóru yfir helstu tíðindi ársins 2019 í húsi skáldsins. 

MARGNOTA, SVEIGJANLEGT OG LIFANDI
 

Þau gleðilegu tíðindi bárust í vor að rík­is­sjóður hefði fest kaup á húseigninni Jón­stótt við Köldukvísl. Þá voru liðin þrjú ár frá því Alþingi samþykkti að fela menntamálaráðherra að hefja uppbyggingu nýs menningarhúss við Gljúfrastein. En allt frá því að safnið var opnað hefur legið fyrir að þörf væri á viðbótarhúsnæði til að rúma starfsemi þess. Velunnarar safnsins geta tekið undir orð Þórarins um að Gljúfrasteinn sé kraftstöð menningar og lista. Og krafturinn verður enn meiri þegar byggingu menningarhússins Laxnessseturs er lokið.
Gljúfrasteinn er í raun safngripur en líka vinnustaður, þar eru sýningar og aðstaða fyrir menningarviðburði.  Húsið er hins vegar lítið og oft á tíðum er þröngt þegar fjölmennir hópar heimsækja safnið, vinnuaðstaða starfsfólks óviðunandi og bílastæði ófullnægjandi. Með tilkomu menningarhússins verður safninu gert kleift að skapa margbreytilegar forsendur fyrir ólíkum tegundum heimsókna og verður þannig betur í stakk búið að taka á móti fleiri og fjölbreyttari hópum gesta. Húsnæðið myndi sömuleiðis skapa svigrúm fyrir margbreytilegri fræðslu- og sýningarstarf sem verður til þess að hvetja almenna gesti til þess að heimsækja safnið reglulega.
Starfshópur sem ráðherra skipaði árið 2016 fór yfir fyrirliggjandi gögn og hugmyndir um byggingu setursins og endurmat þau eftir þörfum og skilaði haustið 2017 tillögum um næstu skref.

Gljúfrasteinn er viðurkennt safn samkvæmt safnalögum og hefur í því samhengi ákveðnu hlutverki að gegna gagnvart íslensku samfélagi. Í greiningu starfshópsins kemur fram að þörf sé á sýningarsal, varðveislurými, veitingasölu, safnbúð, vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk safnsins og aðstöðu til að taka á móti skólahópum á öllum skólastigum. Hið mikilvæga fræðslu- og miðlunarstarf mun því eflast til muna.
Menningarhúsið við Gljúfrastein á að vera allt í senn margnota, sveigjanlegt og lifandi. Það er því tilhlökkunarefni að hefja vinnu við undirbúning uppbyggingar og viðgerða á Jónstótt.
Ef allt gengur að óskum má gera ráð fyrir að húsið verði opnað í síðasta lagi árið 2022 þegar 120 ár verða liðin frá fæðingu Halldórs Laxness.


KVEÐJA SKÁLDSINS TIL BERNSKUDAGA SINNA 

Sem fyrr segir var ýmsum tímamótum fagnað á árinu á Gljúfrasteini og ber einna hæst 100 ára útgáfuafmæli Barns náttúrunnar en hún kom út í október árið 1919 þegar Halldór var aðeins 17 ára. Hann skrifaði bókina þegar hann var 16 ára.  Af þessu tilefni var opnuð sýning með ýmsum textabrotum úr skáldsögunni sem komið var listilega fyrir á veggjum í móttökuhúsinu á Gljúfrasteini.  Enn er hægt að skoða sýninguna.  Þá var Barn náttúrunnar endurútgefin og er það áttunda útgáfa bókarinnar en hún kom síðast út fyrir 13 árum. Í formála annarrar útgáfu bókarinnar árið 1964 skrifaði Halldór meðal annars:

Nú er ég hef látið tilleiðast að renna augum yfir bókina í fyrsta sinni síðan ég sendi hana frá mér sextán vetra gamall,
þá uppgötva ég að þetta muni vera besta bók mín, og liggja til þess þær orsakir að hún geymir óm bernskunnar.
Þetta er kveðja mín til bernskudaganna.




Í tilefni endurútgáfu bókarinnar í ár voru einnig prentuð afar falleg póstkort og veggspjöld eftir teikningum Haraldar Guðbergssonar sem birtust í viðhafnarútgáfu bókarinnar árið 1977 í tilefni 75 ára afmælis Halldórs Laxness.  Þau eru einungis til sölu í safnbúð Gljúfrasteins. 

   

Þá var sett upp sýning í Landsbókasafninu í tilefni aldarafmælis Barns náttúrunnar. Hún var opnuð við hátíðlega athöfn á fæðingardegi Halldórs Laxness þann 23. apríl. Sýningin ber heitið Að vera kjur eða fara burt og er samstarfsverkefni Landsbókasafnsins, Gljúfrasteins og Forlagsins. Safnaráð og Vinafélag Gljúfrasteins styrktu verkefnið. Vegleg sýningarskrá var einnig gefin út en í henni eru greinar eftir fræðimenn og listafólk.  

Frétt um sýninguna í Landsbókasafninu


NÝ BÓKMENNTAVERÐLAUN KENND VIÐ LAXNESS


Sömu viku hófst Alþjóðleg bókmenntahátíð í Reykjavík en hún var nú í fyrsta skipti haldin að vori. Hátíðin í ár litaðist af aldarafmæli fyrstu skáldsögu Halldórs.  Haldið var alþjóðlegt málþing um skáldið þar sem íslenskir og erlendir fyrirlesarar fjölluðu um Halldór Laxness og verk hans. Þingið var haldið í samvinnu við Gljúfrastein, sendiráð Noregs á Íslandi, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Fritt ord og Kulturrådet í Noregi.
Gestum hátíðarinnar var að lokinni setningu hennar boðið á Gljúfrastein. Veðrið lék við gesti þennan dag og breyttist boðið í góða garðveislu. 

                                                                                                                         

Hápunktur hátíðarinnar var þegar tilkynnt var hver hlyti fyrstur rithöfunda, ný alþjóðleg bókmenntaverðlaun kennd við Halldór Laxness. Að verðlaununum standa forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðherra, Forlagið, Gljúfrasteinn og Bókmenntahátíð Reykjavíkur. Fyrir valinu varð breski rithöfundurinn Ian McEwan. Hann gat ekki verið viðstaddur en tók á móti verðlaununum í september síðastliðnum. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra afhenti honum þá verðlaunin og sagði af því tilefni að nú væru leiddir saman tveir af meisturum bókmenntanna; okkar eigin Halldór Laxness og Ian McEwan.  Hún sagði að Halldór hefði verið óhræddur við að tjá skoðanir sínar á stjórnmálum og samtímanum án þess að taka beinan þátt í pólitík. Sama væri að segja um McEwan  ,,Með því hjálpuðu þeir okkur hinum að skilja samfélagið betur og það er hugsanlega eitt mikilvægasta hlutverk hvers listamanns.” sagði Katrín Jakobsdóttir. 
Ian McEwan talaði um Sjálfstætt fólk í þakkarræðunni, sagði hana stórbrotið verk. Hann átti hins vegar erfitt með að skilja hvers vegna Atómstöðin hefði ekki fengið meiri athygli í Bretlandi.
 

                                                                                                                            


AFTENGIST NETINU, FINNIÐ SKJÓL OG SKRIFIÐ
 

Í lok þakkarræðunnar velti McEwan því fyrir sér hvað Halldór Laxness myndi ráðleggja ungum rithöfundum í dag. Hann sagði að á tímum hins ljúffenga og lokkandi veraldarvefs væri afar mikilvægt fyrir unga rithöfunda að aftengjast netinu einu sinni á dag, finna skjól og skrifa niður hugsanir sínar. ,,Ég vona að Halldór Laxness hefði ráðlagt ungum rithöfundum þetta líka.“ Sagði McEwan og lauk máli sínu á því að þakka Halldóri Laxness fyrir einsemdina því það væri hans tilfinning að Halldór hafi sótt mikið í einveru þegar hann var að skrifa og með henni auðgað líf okkar. En að hann hefði líka sýnt okkur hætturnar sem geta skapast ef við förum að telja okkur trú um að við getum lifað án annars fólks, ef við einangrum okkur of mikið og of lengi.   

                                                                                                                              

Daginn áður en verðlaunaafhendingin fór fram heimsóttu Ian McEwan og Annalena McAfee eiginkona hans Gljúfrastein. Nöfnurnar Guðný Dóra Gestsdóttir, forstöðukona safnsins og Guðný Halldórsdóttir, leikstjóri og dóttir Halldórs og Auðar Laxness tóku á móti hjónunum, sögðu þeim frá safnastarfinu í húsinu og af lífinu á Gljúfrasteini þegar Halldór Laxness og fjölskylda bjuggu þar. Ian McEwan ræddi síðan við fjölmiðla í stofunni í húsi skáldsins.  

               



Það er sælt að sofna og svífa í draumalönd inn.
Dáið er alt án drauma; og dapur heimurinn.   

Barn náttúrunnar



LJÚFIR TÓNAR Á SAFNANÓTT
 

Fyrsti viðburður ársins 2019 var á Safnanótt sem haldin er árlega í samstarfi við Vetrarhátíð og Gljúfrasteinn hefur ávallt tekið þátt í.
Að þessu sinni var gestum boðið uppá tónleika með Sigríði Thorlacius, söngkonu og Guðmundi Óskari Guðmundssyni, bassaleikara og gítarleikara. Ekki er hægt að segja að veðrið hafi leikið við gesti safnanætur því það stormur þetta kvöld en tónleikarnir inni í hlýrri stofunni á Gljúfrasteini voru vel sóttir og afar vel heppnaðir. 

                                                                                                                             

 


ÞÝÐINGARVERÐLAUN AFHENT Á GLJÚFRASTEINI

Nokkrum dögum eftir Safnanótt voru Íslensku þýðingarverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini. Að þessu sinni hlutu Gunnar Þorri Pétursson og Ingibjörg heitin Haraldsdóttir verðlaunin fyrir þýðingu á verki Fjodors Dostojevskís, Hinir smánuðu og svívirtu. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands afhenti verðlaunin en í dómnefnd voru Steinþór Steingrímsson, Hildur Hákonardóttir og Brynja Cortes Andrésdóttir.  

                                                                                                                            

NORRÆNIR RÁÐHERRAR HEIMSÓTTU SAFNIР

Um miðjan ágúst komu forsætisráðherrar Norðurlandanna ásamt fjölmennu fylgdarliði á Gljúfrastein. Um var að ræða sumarfund ráðherranna þar sem meðal annars var rætt um loftslagsmál og umhverfismál almennt. Að fundarhöldum loknum heimsóttu þau Gljúfrastein og nutu kyrrðarinnar eftir fundi og ferðalög. 

                                                                                                                       


LISTASAFNIÐ Á GLJÚFRASTEINI 

Starfsfólk Gljúfrasteins gladdist mjög á árinu þegar ljóst var að Safnasjóður myndi veita styrk til að ráðast í það verkefni að fara yfir skráningu og ástand alls listasafns Gljúfrasteins sem telur um 100 verk.

Samningur var gerður við Nathalie Jacqueminet forvörð og stýrði hún verkefninu og bar hitann og þungann í mati á ástandi listaverkanna. Myndir voru teknar af verkunum og skrifuð forvörsluskýrsla um hvert og eitt. Þau voru svo skráð í Sarp sem er kerfi sem varðveitir upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús og fleira. Undanfarin ár hafa söfn og stofnanir skráð rúmlega milljón færslna í gagnasafnið og nú er búið að bæta nær öllu listaverkasafni  Gljúfrasteins í þann góða hóp. Gögnin eru varðveitt á innri vef Sarps en meirihluti þeirra verður aðgengilegur almenningi á ytri vef kerfisins Sarpur.is á vordögum 2020. Það hafa verið teknar ljósmyndir af öllum verkunum sem eru skráð í Sarpi. Oddgeir Erlendur Karlsson, ljósmyndari, tók vandaðar myndir af um helmingi safnkostsins en aðrar myndir hefur starfsfólk safnsins tekið. Pétur Örn Friðriksson kom á safnið til að laga upphengi flestra þeirra verka sem prýða veggi Gljúfrasteins. Settir voru öryggislásar á öll stærri verk en þeir koma meðal annars í veg fyrir að verkið hoppi af upphengjunni og falli í gólfið við jarðskjálfta. Fyrir hönd Gljúfrasteins vann Sigrún Ásta Jónsdóttir safnvörður að þessu verkefni með Natalie í samvinnu við Guðný Dóru Gestsdóttur safnstjóra. 

                                                                                                                      

 

TÖFRANDI TÓNLEIKARÖÐ

Sumartónleikaröð Gljúfrasteins var með eindæmum glæsileg í ár og það fór ekki framhjá tónlistarunnendum en 640 manns komu á tónleika sumarsins, fleiri en nokkru sinni áður.

                                                                                                                                              

Boðið var uppá þrettán tónleika í stofunni og spönnuðu þeir allt frá há-klassík með Guðnýju Guðmunds og Nicola Lolli yfir í einlæga stofustund þar sem farið var um Regnbogansstræti með Bubba Morthens, til spuna-djassstundar með Davíð Þór Jónssyni og Jóel Pálssyni og aftur til lágstemmdra popptónleika GDRN og Moses Hightower.

                                                                                                                           
Stofutónleikar hafa verið haldnir á Gljúfrasteini öll sumur frá árinu 2006, að undanskildu sumrinu 2016 þegar safnið var lokað vegna viðgerða. Alls hafa verið 171 tónleikar og hafa 431 listamaður komið fram. Tónleikarnir eru í anda sögu hússins en í tíð Halldórs og Auður voru oft haldnir tónleikar á Gljúfrasteini.

                                                                                                                                
Þetta var þrettánda sumarið sem haldnir eru stofutónleikar í húsinu og í ár sá Valdís Þorkelsdóttir, starfskona á Gljúfrasteini um að skipuleggja þá.
Lögð var áhersla á að þeir hæfðu umhverfinu og stemningunni í stofunni þar sem ávallt myndast einstök nálægð áhorfenda við tónlistarfólk.

                                                                                                                                

METAÐSÓKN Á EINUM DEGI


Umhverfið í nágrenni Gljúfrasteins laðar til sín mikinn fjölda göngufólks á sumrin og er gönguleiðin upp að Helgufossi sérstaklega vinsæl. Einmuna veðurblíða var sumarið 2019 og því enn fleiri sem nýttu frítíma sinn í gönguferðir og var oft mikið líf og fjör í kringum Gljúfrastein. Í móttökuhúsinu á Gljúfrasteini er hægt að sækja kort með gönguleiðum í Mosfellsbæ og þar má einnig finna skemmtilegar og fróðlegar sögur um ýmsa staði í dalnum.

                                                                                                                       

Sumarvertíðinni lauk svo með því að dyr Gljúfrasteins voru opnaðar upp á gátt laugardaginn 31. ágúst í tilefni af bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima. 350 gestir sóttu þá safnið heim sem er metaðsókn á einum degi. 

                                                                                                                         


EINSTAKUR VETRARVIÐBURÐUR
                                                                                                    

Nokkrum vikum eftir að stórblaðið Guardian valdi verk Ragnars Kjartanssonar, The Visitors, besta myndlistarverk 21. aldar kom Ragnar á Gljúfrastein ásamt tónlistarfólkinu Davíð Þór Jónssyni og Kristínu Önnu Valtýsdóttur til að spila og lesa upp úr bókinni Reginfjöll að Haustnóttum fyrir gesti í stofunni.

                                                                                                  

Um einstakan viðburð var að ræða og þegar miðasala var opnuð hafði þegar myndast röð í móttökuhúsinu. Ragnar, Davíð og Kristín sem öll komu við sögu í Visitors spiluðu fyrir gesti Gljúfrasteins og lásu upp úr bókinni sem er eftir Kjartan Júlíusson á Skáldastöðum-efri en Halldór Laxness skrifaði formála hennar árið 1978. Í henni má finna frásagnir Kjartans um skemmtigöngur hans um reginfjöll að síðhausti og undurfagrar frásagnir af draumum og heimalningum.                                                                                                                                                                                                       

                                                                                                              

 

AUÐUR Í HUNDRAÐ OG EITT ÁR 

Áfram var boðið upp á sérstaka leiðsögn, sem hönnuð var árið 2018 í tilefni hundrað ára fæðingarafmælis Auðar Laxness. Mikil spurn var eftir leiðsögninni þar sem hönnun Auðar og handverk var í öndvegi og vel af henni látið. Því var ákveðið að halda áfram að ganga með gesti um húsið til að sýna og segja frá lífi Auðar sem var framkvæmdastýra á Gljúfrasteini, líka húsfreyja sem gekk í öll störf, sá um fjölskylduna, tók á móti stórum hópum gesta héðan og utan úr heimi, veitti þeim beina og skipulagði oft tónleika þeim til gleði, fann líka tíma til að vélrita handrit eiginmannsins og síðast en ekki síst er sagt frá lífi listakonunnar Auðar sem skapaði ómetanlega list með handverki sínu.                                                      

 

                                                                                                                                 

,,Ég var afskaplega frjáls í mínu lífi og gat gert hvað sem ég vildi” sagði Auður eitt sinn í viðtali og var ákveðið að  yfirskrift sýningarinnar og leiðsagnarinnar yrði Frjáls í mínu lífi.   

                                                                                                                           

 

100 ERLENDIR GESTIR Í STOFUNNI 

Í byrjun apríl heimsóttu Gljúfrastein um eitthundrað erlendir þátttakendur í ritlistarbúðunum Iceland Writers Retreat. Um er að ræða árlegan viðburð þar sem þekktir rithöfundar, erlendir og innlendir leiða vinnustofur og pallborðsumræður um bókmenntir. Þeim er síðan boðið að skoða safnið á Gljúfrasteini og að hlýða á íslenskan rithöfund. Í ár varð það Auður Jónsdóttir, rithöfundur sem hitti hópinn í stofunni þar sem hún talaði um rithöfundarferil sinn og sagði sögur af Halldóri afa sínum og Auði ömmu sinni. 

 

EF HALLDÓR VÆRI RAPPARI EÐA INSTAGRAM-STJARNA

Á haustin boða skólahópar komu sína á Gljúfrastein og flesta vetrarmánuði er mikið líf í húsinu þar sem nemendur leik- grunn- og framhaldsskóla koma í fræðslu- og skemmtiferðir sem hæfa hverjum aldurshópi. Börnunum er sagt frá stráknum Dóra sem var sískrifandi, manninum Halldóri Laxness sem hélt áfram að skrifa, frá bókunum hans og persónunum sem þær geyma. Þau heyra líka af lífi hjónanna Auðar og Halldórs á Gljúfrasteini, af sögu safnsins, Nóbelsverðlaununum, Álfgrími í Brekkukoti, klukkunni sem sagði eil-líbbð, eil-íbbð, litlu brúðinni með stóra nafnið sem Dóra litla í Laxnesi þótti svo vænt um. Fyrir nemendur á miðstigi grunnskóla er áhersla lögð á skapandi hugsun og þau hvött til að taka eftir því sem fyrir augu ber, hlusta og skynja umhverfið svo þau geti betur tjáð sig með orðum, teikningum, dansi eða söng. Framhaldsskólanemum er boðið uppá vandaða hljóðleiðsögn um safnið. Sem fyrr segir koma skólahópar allan veturinn á Gljúfrastein og á þessu ári komu enn fleiri nemendur en fyrri ár eða 627 grunnskólanemar sem er um helmingi fleiri en í fyrra. Flestir koma í lok skólaársins og er maí í raun mánuður skólahópa á Gljúfrasteini. Í lok maí á þessu ári komu börn úr Melaskóla á safnið. Þau veltu því fyrir sér hvort Halldór Laxness myndi vera rappari ef hann væri barn nútímans, hvernig sögurnar hans væru á Instagram og Snapchat og hvort hann myndi spila Fortnite.

                                                                                                                                


Vinirnir Daði Víðisson og Jökull Jónsson sögðust hafa áhuga á að gera söngleik um Halldór Laxness. Jökull sem er 12 ára, hefur lesið Barn náttúrunnar ,,ég gerði það fyrir mörgum árum“ sagði hann og bætti við að þetta væri besta bók sem hann hefði lesið.  Fyrsti kaflinn sem ber heitið Maðkurinn er í mestu uppáhaldi hjá Jökli.  Þeir félagarnir Jökull og Daði bjuggu líka til nokkrar nýjar persónur og gáfu þeim nöfn og komu þeim fyrir á bæjum, dölum og sýslum víðs vegar um landið. Þetta eru þau Hálfdán Símonarson kaupmaður í Kyngikúlum, Birgir Álfason úr Guðnasýslu, Aðalsteinn Ormssteinsson úr Laufárdal, Sigríður Vídalín frá Fosstungu og Vigdís Fossgerður úr Ormsgerði. Kannski fá þessar persónur sem urðu til í skólaferðalagi Melaskóla í Mosfellsdal, hlutverk í söngleiknum um Halldór Laxness sem þá Jökul og Daða langar að semja.

Starfsfólk Gljúfrasteins þakkar öllum nemendum og kennurum fyrir komuna á safnið á árinu og hlakkar til að taka á móti enn fleiri nemendum á komandi ári.   

 

VORBOÐINN CHRISTER 

Það eru líka nokkrir gestir sem koma árlega á Gljúfrasteini. Einn þeirra er hinn sænski Christer Kullberg sem eins og farfuglarnir kemur á vorin. Hann boðar komu sína í bréfi á haustin sem ávallt hefjast svona:
Hej Gljufrasteinn! 



Christer er leiðsögumaður sem sérhæfir sig í ferðum fyrir eftirlaunafólk frá Svíþjóð og hefur fylgt hópum hingað til Íslands í fjórtán ár, ávallt með viðkomu á Gljúfrasteini. Hóparnir hans Christers eru meðal fjölmargra hópa sem koma á Gljúfrastein á vorin því auk erlendra ferðamanna sem koma í skipulögðum ferðum og skoða safnið er þetta tími vorferða í skólum, á vinnustöðum og hjá ýmsum félagasamtökum. 

FIMMTUGUR JAGÚAR Í BÆJARFERР

Hinn frægi Jagúar sem Halldór Laxness átti og er nú í eigu safnsins á Gljúfrasteini vekur jafnan mikla athygli safngesta á sumrin þar sem hann stendur á planinu fyrir framan húsið. 

                                                                                                                           
Jagúarinn sem er árgerð 1968, fær bæjarleyfi á þjóðhátíðardaginn.  Ragnar Már Ríkarðsson, umsjónarmaður Jagúarsins kom þá á Gljúfrastein og ók honum til höfuðborgarinnar. Fyrst í bílskúr þar sem hann var þveginn hátt og lágt og að því loknu var farið í hátíðarrúnt sem hófst í Hafnarfirði þar sem Jagúarinn og aðrir fornbílar fóru á undan skrúðgöngu.

                                                                                                                            

 

Við Hafnarborg voru bílarnir til sýnis en að því loknu ók fornbílalestin í Árbæjarsafn þar sem boðið var uppá kaffi fyrir félaga Fornbílaklúbbsins. Bæjarferðinni lauk síðdegis og jagúarinn kom heim og var lagt á planið fyrir framan hús skáldsins þar sem hann stóð hreinn og strokinn til sumarloka en á veturna stendur öldungurinn í bílskúr þannig að hann þurfi ekki að þola frost og hríðarbyl.                                                                                            

                                                                                                                            

 

 UPPLESTUR Á AÐVENTU 

Alla sunnudaga aðventunnar var upplestur í stofunni á Gljúfrasteini. Átján rithöfundar lásu upp úr nýjum skáldsögum sínum og ljóðabókum.  Margir rithöfundar sem lesa í stofunni í húsi skáldsins tala um að það myndist ávallt einstök stemning meðan þeir lesa og þeir segja að það sé sérstakt tilhlökkunarefni að koma í Mosfellsdalinn á sunnudögum í desember. Gestir á upplestrum á Gljúfrasteini hafa tekið undir þessi orð. Þannig hefur það verið í fimmtán ár en ekki var jafn mikið um upplestra eins og nú er þegar boðið var upp á lestur á Gljúfrasteini fyrstu árin.  

Safnið á Gljúfrasteini lifir góðu lífi, skartar enn sínu fegursta og stendur vörð um lífsstarf Halldórs Kiljan Laxness, þannig mun það vera um ókomna tíð.   
 

Starfsfólk Gljúfrasteins þakkar gestum safnsins fyrir innlitið á árinu
og óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.