Í dag þriðjudaginn 7. apríl er hinn þjóðþekkti tónlistarmaður og skáld Megas sjötugur. Margt tengir þá skáldbræður Megas og Halldór Laxness saman en fyrir utan það að vera skyldir þá hafði Halldór áhrif á skáldið unga. Í umfjöllun Jóns Halls Stefánssonar um Megas kemur m.a. fram að lagasmiðurinn hafi stigið sín fyrstu skref eftir tvöfalda uppljómun frá Elvis Presley og Halldóri Laxness. Sá síðarnefndi áttaði sig snemma á hæfileikum Megasar og fylgdist með honum þegar hann kom fram á sjónarsviðið snemma á áttunda áratugnum. Í bók Halldórs Guðmundssonar, Halldór Laxness – ævisaga, er sagt frá því þegar Halldór snemma á áttunda áratugnum var á gangi með Sigríði dóttur sinni í miðbænum þegar þau mæta Megasi. Halldór tók ofan á göngunni og hneigði höfuðið og sagði eftirá við Sigríði: „Þessi maður á eftir að verða eitt helsta ljóðskáld Íslendinga“ (Halldór Guðmundsson, 2004, bls. 737).
Árið 1985 leiddu tveir dagskrárgerðarmenn rúv, þeir Gunnar E. Kvaran og Atli Rúnar Halldórsson, Megas og Halldór saman en það ár las Halldór Passíusálmana í útvarpið og Megas flutti lög sín við sálmana. Í þættinum sem sendur var út á rás 1 í mars1985 fjölluðu skáldin um Passíusálmana. Atli Rúnar Halldórsson tók af þessu tilefni ljósmyndir á Gljúfrasteini og af þessum merka fundi þeirra Halldórs og Megasar. Hann hefur gefið góðfúslegt leyfir fyrir birtingu þeirrar sem hér fylgir.