Í sumar voru að vanda haldnir stofutónleikar á Gljúfrasteini hvern sunnudag. Hingað kom einvalalið tónlistarfólks af öllum aldri, úr ólíkum áttum.
Sumarið hófst með ungstirninu Kára Egils sem heillaði gesti með ljúfsárum píanótónum. Næst komu jasspíanistinn Sunna Gunnlaugs og söngkonan Marína Ósk sem spiluðu og sungu ljúfar ballöður við ljóð Jóns úr Vör. Hjónin Páll Ragnar Pálsson og Tui Hirv stigu á stokk og fóru með áhorfendur í ferðalag um heiminn. Silva og Steini buðu svo gestum meðal annars að heyra nýtt lag sem kom út í sumar. Júní lauk með hinum stórkostlega sellóleikara Gunnari Kvaran sem lék fyrir fullu húsi sellósvítur Bachs og las einnig úr ritgerð Halldórs Laxness frá 1965.
Þó júlí hafi verið vætusamur náðu dýrðlegir tónleikar að bjarga mánuðinum. Fyrst í júlí voru þau Sólveig Thoroddsen hörpuleikari og Sergio Coto Blanko lútuleikari. Þau spiluðu og sungu tónlist frá tímum Shakespeares, á hljóðfæri frá þeim tíma. Næst var djassveisla í stofunni, en Tríó Hjartar Jóhannssonar lék frumsamda tónlist innblásna af höfundarverki Laxness. Rómantíkin var í fyrirrúmi á tónleikum Páls Palomares fiðluleikara og Ernu Völu Arnardóttur píanóleikara. Mánuðinum lauk með glænýju efni frá Magnúsi Jóhanni píanóleikara og saxófónleikaranum Óskari Guðjónssyni.
Í ágúst hélt veislan áfram með einstakri blöndu af barokki og strengjum í flutningi dúósins Girni og Stál. Næst kom fram, engin annar en KK og þá var fullt út úr dyrum! Strengjakvartettinn Spúttnik var næstur á svið með eitt þekktasta tónverk Joseph Haydns. Síðustu tónar sumarsins voru slegnir með dásamlegri túlkun á ljóðaflokki Schumans í flutningi Benedikts Kristjánssonar tenórsöngvara og Mathiasar Halvorsens sem lék á flygilinn.
Tónlistarfólkinu öllu er þakkað fyrir hrífandi stundir í stofunni á Gljúfrasteini í sumar.