Sjálfstætt fólk - 90 ára

05/09 2024

Halldór Laxness á Laugarvatni árið 1933

Þegar maður á lífsblóm byggir maður hús (Bjartur í Sumarhúsum).

Í ár fögnum við því að 90 ár eru liðin frá fyrstu útgáfu Sjálfstæðs fólks. Stórbrotinnar skáldsögu sem eldist í raun ekki, en vex í samhengi við tímann. Líf fólks sem yfirleitt átti sér enga málsvara er fært í  voldugan búning sem hefur  fangað hugi og hjörtu fjölbreytilegs lesendahóps hér á landi og víðsvegar um veröldina. Það er í sjálfu sér áhugavert að saga bláfátæks kotbónda ofan af Íslandi hafi getað náð slíkri útbreiðslu.  


Pétur Már Ólafsson, bókaútgefandi ritaði formála að útgáfu bókarinnar 1998. Þar segir: Þegar bókin var gefin út í Bandaríkjunum árið 1946 var hún bók mánaðarins í stærsta bókaklúbbi landsins, Book-of-the-Month-Club, og seldist hálf milljón eintaka af verkinu á tveimur vikum. Í kalda stríðinu lenti Halldór á eins konar svörtum lista hjá Bandaríkjamönnum. Hann var stimplaður kommúnisti og slíkir höfundar áttu ekki upp á pallborðið vestan hafs. Því varð ekki framhald á útgáfu á verkum hans hjá öflugum bókaforlögum þar í landi fyrr en árið 1997 þegar Sjálfstætt fólk var gefin út á ný af sama forlagi og fyrir hálfri öld. Viðtökur gagnrýnenda við þessari nýju útgáfu voru afar góðar og sýna svo ekki verður um villst að sagan af Bjarti í Sumarhúsum á erindi við fólk hvarvetna í heiminum og á öllum tímum; í henni er sleginn sammannlegur tónn. Lýsingar á gæðum bókarinnar voru hástemmdar, hún var sögð minna á Hundrað ára einsemd Nóbelsskáldsins Gabríel Garcia Marquez og sagt að þetta væru „gleðilegir endurfundir“. 

Sjá einnig umfjöllun sem Brad Leidhauser skrifaði um verkið í New York Review of Books, í þýðingu og styttingu Hallbergs Hallmundssonar.