Listaverk og orðatré á fæðingardegi skáldsins

23/04 2020

Hjónin Halldór Laxness og Auður Laxness við sundlaugina á Gljúfrasteini á sjöunda áratug síðustu aldar. 

Í dag, 23 apríl eru 118 ár liðin frá fæðingu Halldórs Laxness og að þessu sinni ber hann upp á sumardaginn fyrsta. Halldórs Laxness fæddist árið 1902 í Reykjavík og ólst upp í Mosfellsdal. Frá árinu 1945 bjó hann á Gljúfrasteini. Hann lést 8.febrúar árið 1998 á 96.aldursári.   
23.apríl er einnig alþjóðlegur dagur bókarinnar en það var Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) sem skipulagði fyrsta dag bókarinnar fyrir 25 árum. Markmiðið er að hvetja ungt fólk til yndislesturs. Þessi dagur hefur reyndar verið haldinn hátíðlegur í Katalóníu frá árinu 1463 en þá gefa karlar konum sínum rósir og fá í staðinn bækur frá þeim. Dagurinn er ennfremur dánardagur skáldanna Miguel de Cervantes (1547-1616) og Williams Shakespeare (1564-1616). 

Listaverkasafn Gljúfrasteins á netinu

Til að heiðra minningu Nóbelskáldsins, til að fagna sumarkomu og degi bókarinnar hefur allt listasafnið á Gljúfrasteini verið gert aðgengilegt almenningi í hinu menningarsögulega gagnasafni sem kallast Sarpur en þar eru varðveittar upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, þjóðhætti og fleira.
Heimili Halldórs Laxness og Auðar Laxness var rómað fyrir smekkvísi og listfengi þeirra hjóna. Um þessar mundir er safnið lokað vegna samkomubanns en hægt er að skoða það í þrívídd  á netinu og nú hægt að fræðast meira um hvert og eitt listaverk í Sarpi. Gott er að afmarka leitina með því að velja Gljúfrastein og slá svo til dæmis inn leitarorðið ,,borðstofa" og þá koma fram allir skráðir gripir fram sem þar er að finna.

Orðatré í garðinum á Gljúfrasteini 

Þá verður minning skáldsins einnig heiðruð og sumarkomu fagnað með því að bjóða fólki að lesa valdar tilvitnanir úr verkum hans sem festar verða á tré í garðinum við Gljúfrastein. Orðatré skáldsins mun vonandi gleðja fólk sem er á ferð um svæðið sem er vinsælt til útivistar enda margar fallegar náttúruperlur í nágrenninu og nægir að nefna Helgufoss.