Veröldin er einsog nótt í Róm. Göturnar liggja hver um aðra þvera, hver veit hvert? Sumir sofa; sumir vaka; sumir eru að fæðast, aðrir að deya. Vefarinn mikli frá Kasmír (1927).
Í dag eru liðin 20 ár frá því Halldór Kiljan Laxness lést. Útför hans fór fram 14. febrúar 1998 í Dómkirkju Krists Konungs, Landakoti. Margt fólk minntist skáldsins þann dag fyrir 20 árum og var Lesbók Morgunblaðsins tileinkuð Halldóri 14. febrúar 1998.
Þeirra á meðal var Thor Vilhjálmsson, rithöfundur: ,,Mér fannst alltaf sem ungum manni að þegar verið var að tala um sagnaranda, þá hlyti það að vera andi Halldórs Laxness. Hvernig í ósköpunum fór maðurinn að því að vita allt þetta sem hann vissi og skilja forsendur og aðstæður þeirra sem lifðu gjörólíku lífi hans? Hvernig gat hann skilið djöfulganginn í Steinþóri sem svarar Sölku með saltbrunnum skáldskap og brennivínsfuna svo henni þverr allur máttur, sjálfri Sölku? Hvernig gat hann skilið Sölku og ort hana? Sá hann í gegnum holt og hæðir, hann hlaut að heyra grasið gróa? Og við ferðumst um heiminn með áhöfn í farangrinum úr bókunum hans sem við getum talað við í skipsklefa úti á reginhafi, í hótelskáp úti á þaki í stórborg. Hann hefur stælt okkur í þeirri vissu að engar staðreyndir ráða úrslitum, sem ekki mættu nýtast í skáldskap; Hann veit að þess vegna eru íslendingar til, hann hefur mælt þetta upp í okkur sem nú lifum. Og það þökkum við af öllu hjarta um leið og við hyllum hann á kveðjustund og þökkum almættinu fyrir að hafa gefið okkur hann til að stuðla að því að við séum ódauðleg, einsog hann."