Húsfreyjan

Í tíð Auðar á Gljúfrasteini sinnti hún margvíslegum verkefnum – allt frá því að vera byggingarstjóri hússins árið 1945, taka á móti gestum, sinna heimilishaldinu og standa fyrir tónleikum. Gljúfrasteinn var menningarheimili og oft gestkvæmt hjá þeim hjónum. Eftir að Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955 þótti viðeigandi að bjóða opinberum gestum í heimsókn til að hitta Nóbelsskáldið. Þannig var heimilið hálf opinbert sendiráð.

Auður við eldavélina á Fálkagötunni en Halldór fylgist með.

Skömmu áður en Auður flutti frá Gljúfrasteini tók Fríða Björk Ingvarsdóttir viðtal við hana sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins undir fyrirsögninni Frjáls í mínu lífi Auður stóð þá á tímamótum því hún var að flytja frá Gljúfrasteini að Hlaðhömrum í Mosfellsbæ. Hún hafði tekið þá ákvörðun að selja íslenska ríkinu húsið og listaverk þeirra hjóna í apríl 2002 og gaf þjóðinni um leið allt innbúið á Gljúfrasteini með þeim kvöðum að þar skyldi verða safn um ævi og verk Halldórs Laxness. Gjöfin var höfðingleg og nú þegar áratugur er liðinn frá því safnið var opnað almenningi er við hæfi að minnast þeirrar sem gaf þjóðinni þetta fallega heimili sem þau hjónin Auður og Halldór skópu í sameiningu.