Skeggræður 2. hluti

III. KAFLI Hressandi bað

Halldór Kiljan Laxness kom til Reykjavíkur úr för sinni til Bandaríkjanna og Austurlanda í febrúar 1958. Þá hafði ég tal af skáldinu og spurði um ferðalagið. Halldór kvaðst vera ánægður með förina og sagði m.a., að Austurlandabúar litu yfirleitt á Evrópu sem heild. Þeir væru þeirrar skoðunar, að þar byggju duglegir fjáraflamenn og gáfaðir sjóræningar sem hefðu mikið af peningum; héldu jafnvel, að þeir hefðu fundið þá upp. „Annars kynnist maður svo mörgum heimspeki- og trúarstefnum á svona ferðalagi, að fátt ætti lengur að koma flatt upp á mann eftir það,“ bætti skáldið við.

Í förinni með Halldóri Laxness voru kona hans, frú Auður Sveinsdóttir, og einkaritari, frú Halla Bergs. Þau lögðu af stað til Bandaríkjanna um mánaðamótin sept.–okt. og voru í Bandaríkjunum fram í miðjan nóvember.

„Við fórum til margra staða í Bandaríkjunum,“ sagði Halldór, „komum fyrst til New York og síðan fleiri borga, heimsóttum heiðursmanninn Thomas Brittingham í Delaware, og vorum gestir hans þar. Hann kemur stundum hingað til Íslands að sækja unglinga, sem hann hefur boðið til stúderinga í Bandaríkjunum. Síðan fórum við til Chicago og þaðan til Madison, Wisconsin, í boði þess ágæta háskóla sem þeir hafa þar.“

„Þið komuð til Utah?“

„Já. Ég fór þangað í boði mormóna og var nokkra daga, hitti marga slíka trúmenn, fólk sem mér geðjaðist sérstaklega vel að. Í Utah sá ég ýmsa helgidóma þeirra, þar á meðal bókasöfn og ættfræðisöfn. Þarna er allt með sérkennilegum blæ og kirkjulega hugsað. Menn geta haft ýmsar skoðanir á trú þeirra, en hagnýtur árangur af starfi þeirra er geðugur og fróðlegur.“

„Hvernig kom fólkið þér fyrir sjónir?“

„Þarna býr grandvart fólk og hreinlíft. Við hér á Íslandi höfum ekki svona fólk. Fjölkvæni var afnumið þar fyrir síðustu aldamót. En ég sá ljósmynd af 16 hinna rúmlega tuttugu eiginkvenna Brigham Youngs, sem var einn helztur trúarleiðtogi mormóna.“

„Þú minntist á ættfræðisafnið.“

„Já, það er stærsta ættfræðisafn veraldar, þeir hafa þarna á spjöldum ættfræði margra þjóða. Þarna eru m.a. ættartölur allra Íslendinga. Mormónar hafa haft menn hér við Landsbókasafnið til að rannsaka allar ættfræðiheimildir, sem þar er að finna, þar á meðal ljósmyndað kirkjubækur. Við báðum um að fá að sjá okkar ættir og tók aðeins 2–3 mínútur að draga þær fram. Mormónar telja að hægt sé að skíra menn eftir dauða þeirra til mormónatrúar og af þeim ástæðum hafa þeir lagt kapp á að grafa upp nöfn sem allra flestra látinna ættmanna sinna í gamla landinu; mér var t.d. sagt að þeir hefðu oft skírt Egil Skallagrímsson og konu hans til mormónatrúar, því allir Íslendingar eru komnir útaf honum að sögn.“

„Þú hafðir sérstakan áhuga á að fara til Utah?“

„Já, ég hef oft hugsað um þá Íslendinga, sem gerðust mormónar og fluttust til Utah. Mig langaði til að fá að heyra meira um þá en kostur var hér á Íslandi. Ég fékk forvitni minni svalað að vissu leyti, enda fékk ég tækifæri að kynnast ýmsum afkomendum þessara íslenzku útflytjenda. Ég hafði sérstakan áhuga á Þórði Diðrikssyni, sem hefur skrifað bók um trú og lífsspeki mormóna. Það hefur verið erfitt að komast yfir þessa bók hér, hún hefur til skamms tíma verið óskráð á opinberum bókasöfnum. Þórður var sveitamaður úr Landeyjum. Hann skrifaði sízt lakar en við skrifum núna og sumt betur. Hann kom aldrei í neinn skóla en hafði þetta í fingurgómunum.“

„Ætlar þú að skrifa skáldsögu um Þórð Diðriksson?“

„Þó ég skrifi kannski eitthvað lítilsháttar um hann, dugir hann mér ekki í heila skáldsögu. Hann var óbrotinn alþýðumaður og það sem skipti máli í lífi hans var að hann tók þessa trú og fór til fyrirheitna landsins. Annars hef ég lengi verið að hugsa um að skrifa eitthvað um mormóna, hvað sem verður.“

„Þú sagðist hafa hitt niðja íslenzku útflytjendanna.“

„Já. En þeir hafa yfirleitt gleymt íslenzkri arfleifð og eru útlendingar í okkar augum. Þeir hafa litla vitneskju um Ísland. Aftur á móti eru þeir kjarni eins byggðarlags í Utah, Spanish Fork. Flestir eru bændur og daglaunamenn. Einn bónda rúmlega sjötugan, sem talaði íslenzku allvel, hitti ég þarna. Hann kom til Utah fjögurra ára gamall með móður sinni. Um Ísland sagði hann: Ég er þaðan kominn, þar á ég heima og þar vil ég deyja. – Þessi gamli bóndi sagði mér, að hann hefði verið borinn á handlegg vandalauss manns yfir eyðimerkur miðvestur-ríkjanna. Hann missti móður sína ungur og átti erfitt uppdráttar í bernsku. Hún var svo fátæk, sagði hann, að hún gat ekki reist mig.“ (Einkennilega tekið til orða. Hann hefur enska orðið „raise“ í huga.)

„Og svo fórstu til Kyrrahafsstrandarinnar?“

„Já. Kaliforníu þekkti ég vel á æskuárum. Yndislegt land. Frá San Francisco lögðum við af stað til Austurlanda og komum fyrst til Japan, vorum tvo daga í Tokíó; þar næst til Manilla á Filippseyjum og dvöldumst þar nokkra daga, en héldum síðan til Hong-Kong, þaðan til Kanton og loks til Peking. Frá Kanton til Peking eru 2500–3000 km. Í Kína, sem stundum er kallað Rauða-Kína núna, vorum við allan desembermánuð. Það er fróðlegt land. Þar býr fjórði hver jarðarbúi. Það er gaman að kynnast þeim vandamálum sem þeir verða að glíma við. Eitt aðalvandamál Austurlandabúa er að hafa í sig og á, þó erfitt sé fyrir okkur hér vesturfrá að skilja slíkt. Kínverjar segjast hafa nógan mat handa sínu fólki með því að láta tveggja manna skammt endast þremur. Kjör manna í Kína eru mun betri en t.d. í Indlandi og Arabalöndum. Í Kína eru allir í fötum og flestir í skóm. Það er meira en hægt er að segja almennt um fólk í Austurlöndum.“

„Þú hefur auðvitað kynnzt kínverskri menningu?“

„Forn-kínversk menning á hvergi sinn líka. Nú er menning þeirra í deiglunni. Áður snerist allt um keisarann. Nú er verið að reyna að jafna mishæðirnar í þjóðinni, „demókratisera þjóðfélagið“.“

„Þegar þú varst í Kína fannst þér þá anda köldu til Vesturlandabúa?“

„Nei. Kínverjar eru yfir slíkt hafnir. Flestir sem ég kynntist höfðu hlotið vestræna menntun. Þeir líta á Evrópumenn sem heild. Sérfræðingar einir vita eitthvað um Evrópu.“

„Þú hefur minnzt á Bókina um veginn í ritum þínum. Fannst þér Rauða-Kína vera það land, sem sú bók er sprottin upp úr?“

„Stundum þegar talað er við Kínverja koma allt í einu setningar upp úr þeim úr þessari bók, þó þeir samsinni henni ekki sem stendur. Hún býr í þeim undir niðri. Þessi bók á jafnmikið heima í Rauða-Kína og Keisarakína eða hvaða Kína öðru sem vera skal.“

„Hvert var svo haldið?“

„Til Singapore, Ceylon og Bombay. Í Indlandi var ég opinber gestur og kynntist mönnum bæði af háum og lágum stéttum. Sumt voru hámenntaðir menn. Annars er stéttaskiptingin slík í Indlandi að við getum ekki gert okkur fulla grein fyrir henni. Það er svonefnd helgistéttaskipting. „Þeir ósnertanlegu“ lifa í yztu myrkrum mannfélagsins. Stjórnarvöldin vinna gegn þessari skiptingu því þau eru upplýstari en fólkið; en þar er við ramman reip að draga.“

„Þú kynntist Nehrú?“

„Ég kynntist Nehrú lítillega, já ég var boðinn til hans í hádegisverð. Hann er aðgengilegur og geðugur maður, léttur í máli og það var eins og hann hefði nógan tíma. Hann hafði gamansögur á hraðbergi. Hann sagði, að sér hefði verið boðið til Íslands, þegar hann var staddur í Skandinavíu í fyrra, en hefði því miður ekki getað þegið boðið. Hann kunni skil á íslenzkum bókmenntum og sagði, að það væri eitt af undrum veraldar, að þessi litla þjóð hefði skrifað heimsbókmenntir, og bað mig að gefa skýringu á því. Ég stóð auðvitað á gati. Að máltíð lokinni fór hann með okkur út í garð og gaf húsdýrum sínum, sem hann heldur mikið upp á. Þetta kvikindi heitir panda, og var í mínum augum sambland af birni og ketti. Hann spurði, hvort ég vildi koma inn í búrið, en mér leizt ekki á það því mér sýndist þetta vera hið ferlegasta villidýr, með hvassar klær og beittar tennur. En hann setti upp vettlinga og fór að gefa þessu hinn rólegasti.“

„Hvert fórstu svo frá Indlandi?“

„Við fórum til Arabalanda og dvöldumst í Egyptalandi nokkra daga, aðallega í Kairó. Þar skoðaði ég meðal annars Keopspíramídann, stóra grjóthrúgu, sem er í miklum metum hjá dultrúarmönnum.“

„Og niðurstaðan af ferðalaginu?“

„Ég hef sennilega verið fáfróður og þröngsýnn um þessi lönd, en fékk nú tækifæri til að mennta mig. Það er eins og fara í hressandi bað.“

 

IV. KAFLI Menn fara ekki í leikhús með logaritma

Glúfrasteinn.

Við stóðum við gluggann og horfðum út. Það var sólbráð í fjöllum og vor í lofti, og áin, sem venjulega er lítil spræna, byltist kolmórauð um farveg sinn. Sólin var að taka völdin yfir breðanum á heiðinni.

„Vorið kom í dag,“ sagði skáldið og bætti við að hann væri ánægður með litinn á ánni. „Hún er eins og kaffið sem við erum að drekka,“ sagði hann og settist í djúpan stól í einu horninu, og við snerum okkur að umræðuefninu.

„Ég hef alla tíð haft leikritagerð í huga,“ sagði hann, „en ekki lagt stund á hana fyrr en síðustu árin. Þetta er tilraun af minni hálfu; ég er að gera tilraunir upp á eigin eindæmi án þess að virða neinar af þeim formúlum sem Frakkar, Rússar eða Bandaríkjamenn gefa út. Ég ætla ekki að troða minni formúlu upp á neinn. Meðal sumra stórþjóða eru einstaklingar og hópar, svokallaðir framúrstefnumenn, sem einlægt eru að finna upp formúlur í list og vilja síðan fyrir hvern mun boða öðrum mönnum formúluna ef ske kynni að heimurinn lagaðist við það. Fransmenn voru einna verstir með þetta en nú eru Rússar orðnir enn verri, því þeir boða sína flatneskju og afturúrmennsku, sósíal-realismann (hét áður agitprop), eins og eitthvert himnabréf.

Ég upplifði súrrealismann, sem gaf út af sér frægt manifest síns tíma, eins og ég hef rætt um í Skáldatíma, já, ekki ósvipað „kommúnistiska manífestinu“ – gert í því skyni að frelsa heiminn. Ég hef verið forvitinn um þessar stefnur og formúlur vegna þess að ég taldi mér skylt að gagnrýna þær fyrir sjálfs mín hönd, en ekki gleypa þær hráar.“

Og skáldið kreppir hnefana eins og til að leggja áherzlu á sjálfstæða og persónulega afstöðu til leikritagerðar ekki síður en skáldsögu. Hann rakti nokkrar af formúlunum, til dæmis formúlu existensíalismans franska og sósíalrealismans í Sovétríkjunum: hann taldi einnig að leikritun Brechts, „episka leikhúsið“, hefði orðið að svona formúlu, meðan Brecht lifði, en margt benti til þess að skólastefna hans í leikhúsi mundi fljótlega úreldast, eða að minnsta kosti breytast frá því sem höfundur hennar lagði fyrir meðan hann var og hét; enda markaði Brecht stefnuna einsamall með sterkri leikstjórn, sem var að minnsta kosti eins persónuleg og sjálfur skáldskapur hans. Þá minntist Halldór Laxness á enn eina formúluna, le nouveau roman – eða „nýju skáldsöguna“.

„Þessi stefna hefur sprottið upp í og umhverfis París, og mér hefur þótt hún þess verð að gefa henni gaum, ekki til að játast henni, heldur til að sjá hvernig þeim vegnar í þeirri klíku, Robbe-Grillet, Madame Sarraute, Butor og því fólki. Þetta er svipaður angi út úr skáldsagnagerð eins og t.d. setningafræði út úr málfræði: maður getur átt á hættu að verða ómálga. Þeir sem fyrstir taka við svona formúlum úr París eru bókmenntaskussar smáríkja, sem treysta sér ekki að lifa öðruvísi en afætur á einhverju, helzt París. Núna eru nágrannar okkar á Norðurlöndum fullir af áróðri fyrir „le nouveau roman“ – „kúltúrpressan“ þar tekur þetta gógðæti í stórum skömmtum – hrátt. Líka í Júgóslavíu. Kötturinn á Sjöstjörnunni er góður köttur fyrir sig. En hjá mér gildir það sama og segir í öfugmælavísunni: Séð hef ég köttinn syngja á bók. Og svo er það ekki meira. En maður verður að þekkja þetta allt, annars gæti maður átt á hættu að finna það upp sjálfur og halda að maður hefði fundið púðrið.“

Við hvíldum okkur nú stutta stund frá samtalinu og ég spyr um mynd af fullorðinni, gráhærðri konu í íslenzkum peysufötum, hún stendur á skrifborðinu. Hann segir að það sé móðir sín. Hann talar af virðingu og hlýhug um konuna á myndinni, og segir stoltur: „Ég er að líkjast henni meira og meira með aldrinum.“ Hann bætir því við að hún hafi verið hlédræg kona, bundin sínu heimili, „nánast huldukona“, bætti hann við og brosti. „Hún hafði alltaf sterka heimþrá til Reykjavíkur, þar sem hún var uppalin, og vildi ekki búa í sveit,“ – að sínu leyti eins og Halldór sjálfur: huldumaður meðal heimsborgara; og þó kannski meiri heimsborgari en flestir aðrir úti í þeirri stóru veröld.

Á stórri hillu í bókaskápnum er fjölskrúðugt safn af brúðum, postulínsdýrum og alls kyns barnaleikföngum, sem kynlegt er að sjá í vinnustofu rithöfundar. Halldór Laxness segist hafa safnað þessu hjá dætrum sínum.

„Nú eru þær fegnar að ég skyldi hafa bjargað þessu,“ segir hann. „Hér er eggjakona úr Danmörku og tréstúlka með ellefu tréstúlkur innan í sér úr Rússlandi. Og hér er blár hestur með stjörnum. Ég kalla þetta þjóðina mína. Stundum koma dætur mínar með fótalausa ballerínu eða mann með sex diska á nefinu og segja: „Má ekki bæta við þjóðina þína?““

Frú Auður kom með meira kaffi og við tókum upp þráðinn þar sem fyrr var frá horfið. Ég innti skáldið að því aftur hvort ýmsum mundi ekki þykja hann hafa lært af Brecht í leikritagerð. Hann hristi höfuðið, svaraði:

„Það hljóta að vera mjög ófróðir menn. En ef þú átt við, að það séu söngvar í leikritum mínum, þá er sú aðferð ekkert frekar líkt eftir Brecht en öðrum leikritaskáldum. Ég veit ekki betur en það sé meira að segja sungið í Skuggasveini og Nýársnóttinni. Það er sungið í flestum leikritum, nema hjá Ibsen. Sá karl hefur líklega verið laglaus. Sporgengill Ibsens, Bernard Shaw, þó hann væri um skeið tónlistargagnrýnir stórblaða, forðast líka söng í leikritum sínum: það getur maður nú kallað að vera tryggur lærifeðrum sínum! Þó Brecht hafi prédikað formúlu, veit ég eiginlega ekki hvort hann hefur ætlazt til þess í alvöru að aðrir tækju upp „episku stefnuna“ í leikritum. Ég er ekki viss um það. Hann var of gáfaður maður til þess hann hafi ætlazt til þess í alvöru að öll heimsbyggðin skrifaði leikrit eins og hann. Annars vorum við Brecht góðir vinir og ég kom alltaf að heimsækja hann þegar ég var í Austur-Berlín.“

„Myndir þú samt ekki hafa lært mest af honum?“

„Nei, akkúrat ekki neitt. Ég sé enga líkingu með mínum verkum og Brechts – þó setning frá anarkistaárum hans um að „maðurinn sé ekki nógu vondur fyrir þennan heim“ hafi hrifið mig á sínum tíma. Brecht var engum manni líkur og enginn honum. Mig langar að segja þér stutta sögu sem ég hef alltaf gleymt að koma á framfæri. Einhver mikill lærdómsmaður, þýzkur, sem hélt hann kynni íslenzku, var að burðast við að þýða Silfurtúnglið á þýzku, og skal ég ekki lýsa þeirri þýðingu nánar. Hann sendi Brecht þetta til uppfærslu í leikhúsi hans, Am Schiffbauerdamm. Hér í Reykjavík hafði þetta leikrit verið túlkað sem einhverskonar ádeilurit á Bandaríkin og stuðningur við málstað Rússa. Þessi skilningur komst samt ekki inn í höfuðið á Brecht, heldur hélt hann að það væri einhver áróður gegn Nóru eftir Ibsen (Et Dukkehjem) og skrifaði aftan á það Antinorastoff, og sendi það til baka. Brecht hóf skáldferil sinn sem anarkisti, en þokaðist æ lengra í áttina til marxisma – og er kallaður marxistískur leikritahöfundur samkvæmt síðustu verkum sínum, þó Rússar harðneiti að viðurkenna hann sem slíkan. Þeir halda í sitt 19. aldar leikhús, sem var mótað af Stanislavsky og reynir að lafa í anda Ibsens, nema hvað þeir kunna að útbúa mjög vandaðar klassískar leiksýningar til dæmis á Shakespeare.“

„Er enginn marxismi í þínum leikritum?“

„Ég hef varast rétttrúnaðarstefnur eins og marxisma og freudisma í mínum leikritum.“

„Þú telur þig ekki marxista?“

„Það hef ég aldrei gert. Ekki einu sinni meðan ég var samferðamaður. Það töldu þeir mig ekki heldur í Moskvu. Á Ameríkuárum mínum varð ég vinstrisinnaður án þess að verða nokkurn tíma réttlínumaður; tók þó þátt í stofnun íslenzka sósíalistaflokksins fyrir stríð, vegna þess ég vildi vinna með þessum einlægu mönnum að vissum þjóðmálum, sem ég bar fyrir brjósti. Síðustu áratugi hef ég hvergi verið í flokki. Við ófáar kosningar hef ég ýmist ekki farið á kjörstað eða skilað auðu. Þó mætti segja að ég hafi vinstri tilhneigingar ef miðað er við lýðræðislegan grundvöll. En það segir ekki mikið þar sem ég sé ekki betur en allir íslenzkir stjórnmálaflokkar séu að meira eða minna leyti reistir á lýðræðishugmynd. Öll lýðræðishyggja er að vissu leyti vinstri stefna; og allir stjórnmálaflokkar hér hafa a.m.k. velferðarríkið á stefnuskrá sinni. Rússneska kerfið byggir hins vegar ekki á lýðræðisstefnu í þeim skilningi okkar, að ríkisstjórn og valdhafar eigi að vera kjörnir fulltrúar almennings. Þar situr ríkisstjórn, sem hefur ekkert umboð frá almenningi, heldur stjórnar með valdi eftir bókum sem voru skrifaðar af spakvitrum Þjóðverjum og Gyðingum með sítt skegg á öldinni sem leið, sumir þeirra, eins og Hegel frá sautján hundruð og súrkál. Þessir valdhafar stjórna sem sagt í umboði Bókar. Þeir, sem vilja afnema lýðræði, eru allt önnur manngerð en sú sem við höfum hér heima á Íslandi.“

Nú þótti mér rétt að spyrja, hvort ekki mundi vera til að dreifa þjóðfélagsádeilu í leikritum skáldsins.

„Ég mundi á íslenzku kalla það ádeilu á heimsósóma. Í leikritum mínum er oft satíra – er það ekki heimsádeila á íslenzku? En tilgangur verkanna, að minnsta kosti ytri tilgangur, er sá að setja saman hugvekjur í skemmtiformi handa fólki. Eins og þú hefur tekið eftir, virðast margir Íslendingar ekki þola hvað ég legg mikla áherzlu á sjálfan sjónleikinn í leikverkum mínum. Ég hef verið að reyna að ala sjálfan mig upp á gamals aldri einmitt í þeirri grein. En sannleikurinn er sá, að Íslendingar vilja bara heyra sögu, en bera yfirleitt lítið skyn á sjónleik, sem von er. Teater hefur lengstum verið fyrir utan líf þeirra og hugsanagang. Í sagnaskáldskap er skírskotað til lesandans með því að gera söguna sem trúlegasta, annars missir hann áhugann. En lífið á fjölunum er sérstakur heimur, sannur eða ósannur eftir atvikum, það fer eftir því hvernig maður skilgreinir satt og ósatt; og hvernig manni tekst með óbeinni málafærslu að rökstyðja mál sitt á leiksviðinu. Leikhússena getur birt mikinn sannleika, þó hún sé óhugsandi í veruleikanum. Hér er allt undir því komið hvernig leikskáldið heldur á málum. Erindi leikrits er í senn að skemmta áhorfandanum og veita honum fróðlega kvöldstund. Það er ekki ætlazt til að maður komi í leikhúsið með logaritmatöflur upp á vasann til að fá botn í það sem gerist á sviðinu. Maður verður að koma eins og krakki. Það er ekki heldur hægt að koma í leikhús eins og sumir bókmenntagagnrýnendur, svo útlærður og sprenglærður að maður njóti einskis sem fyrir augun ber. Til eru þeir sem koma í leikhús svo dauðdrepnir af dramatúrgiskum lærdómi, að þeir þola ekki sjónleik. Mörgum menntamönnum hættir til að leita í leikritum að einhverju sem alls ekki er þar, og átti alls ekki að vera þar. Fyrir bragðið sjá þeir ekki það sem er þar (ef nokkuð er) – og fara ólukkulegir heim.“

Halldór Laxness hefur einhverntíma sagt að hann hafi lítinn áhuga á bandarískri leikritun. Ég impraði á þessu atriði, og hann svaraði:

„Ég horfi á þessi leikrit með vissri athygli, en þau eru byggð á svo gamalli evrópskri erfð, að Evrópumenn sem lifa í nýjum tíma í leikritagerð geta lítið sótt til þeirra. Aftur á móti njóta þessi leikrit mikilla almennra vinsælda, þó kannski meiri í Evrópu en Bandaríkjunum sjálfum. En mér leiðist eitt af höfuðeinkennum bandarískrar leikritagerðar – þessi ameríska sálarangist eins og hjá Tennessee Williams, Miller og Albee. Hafa þeir þetta úr andagift O’Neils eða jafnvel frá Edgar Allan Poe? Nei, þessi taugabilum á sér vafalaust forsendur í veruleika, sem Ameríkumenn eiga við að stríða, en ekki við. Svona sálarþjáning svæfir mig á tíu mínútum eins og áhugamálin í kvikmyndum Ingmars Bergmans. Ég mundi ekki heldur vilja reisa mína leikritun á Ibsen, Strindberg og absúrdistum eins og Ameríkanar gera. Þó ég dáist að ýmsum verkum Ibsens miklu meira en t.d. Brechts, mundi mér aldrei detta í hug að taka mér þau til fyrirmyndar; og því síður þann mikla meistara Beckett, sem hefur verið líkt við guðlausan dýrling, eða Job.“

Að síðustu minntumst við á skáldsagnagerð, og Halldór Laxness sagði, að í síðustu skáldsögum hans hefði bilið í höfuðatriðum verið brúað milli skáldsagnagerðar og leikritunar.

„Það væri auðvelt að leika ýmsar skáldsögur mínar svo til óbreyttar, þegar búið er að fella lýsingar niður,“ segir hann. „Og ég býst við að það verði gert þegar fram líða stundir.“

 

V. KAFLI Spyrill og spyrðill

I. Úrættun

Halldór: Ég fékk semsé sérstakan áhuga á miðöldunum, þegar ég var að viða að mér efni í Gerplu. Þá þurfti ég að lesa margar bækur um miðaldasagnfræði. Og þá fékk ég þessa miðaldaslagsíðu sem ég hef nefnt svo. Ég hef aldrei losnað fullkomlega við þetta tímabil. Gullöld okkar í bókmenntunum ber upp á lok miðalda og mér finnst eðlilegt að íslenzkur rithöfundur sé í tengslum við ritlist þessa tímabils.

Matthías: Sumir hafa haldið því fram að Gerpla sé skopstæling á konungasögum.

Halldór: Í öllum löndum eru til menn sem hlæja á vitlausum stöðum. Það getur vel verið að einhverjir hafi hlegið að Gerplu og haldið að þetta væri tómt grín, en mér var hún það ekki. Mér var alvara og Gerpla er harmþrungnasta bók, sem ég hef skrifað. Ég skrifaði hana sannarlega ekki til að vera með nein skrípalæti. Hitt er svo annað mál að weltschmerz skálda hefur orðið mörgum manni fyrirtaks aðhlátursefni. Á gullöld Grikkja og Íslendinga voru unnin afrek sem okkur hefur ekki tekizt að ná. Stundum er líkast og orðið hafi einhver úrættun í heilabúi fólks af því að fá rafmagn, bíla, þvottavélar og húsakynni sem fullnægja byggingarsamþykktinni. Ég er ekki að mæla með því að rafmagnið verði tekið af rithöfundunum eða upphitun úr húsum andlegra forgangsmanna, hvað þá gera almenning að fátæku fólki sem lifir á graut eins og Grikkir gerðu til forna. En ef maður ber saman texta sem skrifaðir voru hér á landi á 13. öld af óþekktum mönnum við það sem skrifað er upp og ofan á þessari öld, blasir við sú staðreynd að 13. aldar menn höfðu betri heila en þeir sem nú skrifa, bæði ég og aðrir. Einhvers staðar á leiðinni frá þeim til okkar hefur þessi úrættun gerzt. Mikill spekimaður segir mér að þetta muni hafa orðið alþingishátíðarárið 1930.

II. Andlit í skýjum

Matthías: Þú varst fjögurra ára þegar þú fluttist úr Reykjavík. Áttu endurminningar frá þessum fjórum fyrstu Reykjavíkurárum þínum?

Halldór: Já, ég á ýmsar endurminningar frá þeim árum, t.a.m. þegar ég var að fara með ömmu minni að sækja mjólkina til hans Einars Finnssonar járnsmiðs á Klapparstíg 20, sem átti kú. Við bjuggum á Laugaveginum. Eitt sinn datt ég út um glugga á Laugaveginum, ég man svo langt. Amma mín, Guðný Klængsdóttir, var fædd 1832. Hún átti heima hjá okkur á Laugaveginum. Hún hugsaði um mig frá því ég var í reifum. Hún lifði lengi, dó ekki fyrr en 1924, 92 ára gömul. Þá var ég kominn yfir tvítugt. Hún var alin upp af 18. aldar fólki. Hún geymdi margt minninga frá umliðnum öldum í sálarkytrum sínum. Hún hafði fábrotið en nokkuð fornyrt tungutak. Það hafði þetta gamla fólk, þó það væri ekki að öðru leyti skáld eða gáfumenn. Það talaði fagurt og náttúrulegt mál án þess að vita það sjálft. En ég hlustaði ekki á hana eina, þegar ég var krakki heima. Hjá okkur var alltaf eitthvað af rosknu fólki úr ýmsum landshlutum, og hafði ólíkan talanda og ólíkt orðaval. Ég hafði gaman af að hafa málfar þess eftir og festi mér það í minni. Hjá okkur var árum saman gömul kona, sem var ættuð frá Bár, ég held í Hreppum. Hún hét Halldóra Álfsdóttir. Hún sagði mér ógn af einkennilegum sögum og ævintýrum. Sumt hef ég aldrei rekizt á annars staðar né hitt nokkurn mann sem kannast við það. Hún sagði mér söguna af Skyrpokalat. Ég hef aldrei fundið svo lærðan mann að hann kannist við þetta nafn. Það var greinileg kolbítssaga um mann sem bjó um sig í eldhúsinu og hafði fundið upp þá hentugu aðferð að láta hengja skyrpoka í eldhúsrjáfrið og lét síðan horn af skyrpokanum vera uppi í sér, þannig að hann gat sogið skyrpokann nótt og dag án mikillar áreynslu. Hann endaði eins og allir kolbítar, með því að verða mikill maður og eignast kóngsdótturina og ríkið.

Þetta fannst mér góð saga. Ég held samt ekki að ég hafi orðið fyrir miklum áhrifum af þessum sögum. Kann þó að vera að þær hafi eitthvað ýtt undir ímyndunaraflið. Þessar kerlingar og karlar geymdu líka í minnum óhemjulegan forða af kveðskap. Vafalaust hefur þetta fólk ýtt eitthvað undir þá löngun mína að búa til sögur og kvæði. Umhverfið í heild sinni hefur vafalaust haft sín áhrif. Ekkert er sjálfsagðara og eðlilegra fyrir ungan Íslending en vilja verða skáld, þótt fáir geri höfundarköllunina að lífsstarfi. Ég og fáein önnur skáldmenni erum undantekning að því leyti hér á landi.

Matthías: En svo að ég minnist á föður þinn, Halldór. Jónas í Stardal skrifaði fróðlega ritgerð um hann í Lesbók Morgunblaðsins. Af lýsingu Jónasar að dæma minnir hann dálítið á séra Jón Prímus og afstöðu hans til vinnunnar: „Á bakvið seinustu skrá sem ég lagaði var eitt skötubarð og þrjú pund af rúgmjöli. En ef þú tekur jarðlífið gilt á annað borð þá gerirðu við svona skrá af síst minni ánægju en skrána fyrir ríkisbánkanum þar sem fólkið heldur að gullið sé.“ Hafði faðir þinn nokkuð á móti því að þú yrðir skáld?

Halldór: Hann skipti sér ekki mikið af þessari löngun minni. Að minnsta kosti dró hann aldrei úr mér. Ég bar mikla virðingu fyrir föður mínum. Hann var alvörugefinn og dugandi maður, en þó skemmtilegur að því mér er sagt, svo engum leiddist í návist hans. Það var víst siður að menn hlýddu honum. Hann réð einlægt yfir vinnuafli, því hann var verkstjóri bæði í vegalagningu fyrir landssjóð og auk þess hafði hann oft mikið umleikis heima fyrir: það voru iðulega um 20 manns hjá okkur á sumri. Auk fastafólks eða ársfólks var kaupafólkið ásamt liðléttingum, unglingum í sumarvist og öðrum lausum vinnukrafti, iðulega bygginga- eða jarðabótamenn, að ógleymdum okkur skylduliðinu, sem vorum sjö talsins, foreldrar mínir og við systkinin þrjú, amma mín og fóstri móður minnar. Mér skilst að fólk hafi haft ánægju af að gera að vilja föður míns og fara eftir því sem hann sagði. Eins og sagt er í fornsögunum: hann var vinsæll af alþýðu. Ég sá hann aldrei skipta skapi. Og hann skipti sér ekki af smámunum eins og því þó ég væri að fást við að skrifa og yrkja. Ég held honum hafi verið áhugamál, að ég lærði eitthvað í skóla og eitthvað yrði úr mér. Hann var söngvinn og lék á hljóðfæri og datt víst í hug að það væri hægt að gera úr mér tónsnilling og sendi mig á bernskuskeiði til Reykjavíkur að læra á hljóðfæri á veturna. En hann dó um það leyti sem ég var nokkurn veginn byrjaður á því litla skólanámi sem ég stundaði.

Matthías: Hann var heldur vel stæður, var það ekki? Það var engin fátækt á heimilinu?

Halldór: Fátækt heyrði ég aldrei talað um á mínu heimili; varð ekki var við hana. Það var ekki neitt sérstakt ríkidæmi heldur. En við þurftum hvergi í bú að biðja, eins og sagt er á fornu máli. Það þrengdist sennilega um hjá móður minni eftir að faðir minn dó, því hann var útvegugóður maður og búmaður og hafði mörg útispjót fyrir þetta litla fyrirtæki sem hann rak, sveitabú í Laxnesi. Ég var einbirni, þangað til ég var 7 ára. Og það var óhjákvæmilegt að eftirlæti væri haft á einum litlum dreng í Laxnesi. Það er talið að börn hafi gott af að fá strangt uppeldi. Hjá þjóðum, sem leggja mikið upp úr uppeldi, er ekki látið eftir börnunum. Þau eru höfð undir hörðum aga. Slíkan aga varð ég aldrei var við.

Matthías: Faðir þinn las postillur Péturs og Helga. Varstu alinn upp í strangri trú?

Halldór: Ég var snemma mjög frábitinn lútherstrú. Í raun og veru hafði ég enga sérstaka lútherstrúartilfinningu á því tímabili, þegar ég t.d. átti að ganga til prests og læra Kverið undir fermingu. Ég gerði það þó til málamynda. Ég kann enn eina grein úr Kverinu: Ill meðferð á skepnum ber vott um grimmt og guðlaust hjarta. En það er alveg rétt að heimili mitt var eins og flest heimili í landinu á þessum tíma, lútherstrúar í orði kveðnu, og faðir minn hélt þeirri gömlu reglu að lesa postillu á sunnudögum. Því var ekki hætt meðan hann lifði. En ég er hræddur um að uppúr 1920 hafi farið að minnka um það í landinu, að heimilisguðsþjónustur væru stundaðar.

Matthías: Þú segir einhvers staðar að faðir þinn sé þér svo nálægur að þig dreymi hann iðulega, er það enn?

Halldór: Já. Hann hafði sterk áhrif á mig og hefur að vissu leyti verið mér förunautur bæði lífs og liðinn.

Matthías: Hefurðu haft nokkra dulræna hæfileika, Halldór? Þú segist hafa séð hallir á loftinu.

Halldór: Ég horfði oft á hallir myndast í loftinu, einkanlega á haustkvöldum þegar skýjafar er mikið; sömuleiðis andlit í skýjum, og breytast frá einni sekúndu til annarrar, spennandi eins og bíómynd. En þá held ég sé líka upptalin öll mín dulskynjun. Hún hefur ekki náð lengra en til þessara bíómynda í loftinu. Ekki einu sinni séð ljós í klettum.

Matthías: En steinn var á hlaðinu í Laxnesi og þú segist hafa séð mikið eftir honum, þegar vegavinnumenn ruddu honum burtu.

Halldór: Steinninn á hlaðinu hlýtur að vera þjóðsaga. En í holtinu fyrir ofan Laxnes er steinn sem heitir Gljúfrasteinn og stendur við gljúfur, sem verður í ánni þar sem hún kemur ofan af heiðinni. Hjá þessum steini eru lyngvaxnar lautir og mosagróið holt og mikið af berjalyngi. Þar, undir þessum steini og í þessum lautum, átti ég marga skemmtilega stund í bernsku og hef sjálfsagt búið mér til margar ímyndanir í sambandi við þennan stað. Um tvítugsaldur eða rétt innan við tvítugt, skrifaði ég skáldlega hugleiðingu um þann anda, sem býr í steininum.

Matthías: Og jafnvel að þér fyndist þú hafa séð þar sjálfan mannkynsfrelsarann, Jesúm Krist.

Halldór: Já, þetta var trúarleg ímyndun, sannast sagt dálítið glannaleg hugmynd og ekki allsendis smekkleg. Þetta er í rauninni anímismi. En maður blandaði öllu saman í þá daga, og gerir kannski enn.

Matthías: Þú sagðir áðan að þú hefðir ekki haft sterkar taugar til lútherskunnar. Þú varst samt mjög trúhneigður, ef marka má það sem þú skrifaðir og punktaðir niður á þessum tíma og síðar.

Halldór: Ég tók kaþólska trú, þegar ég var 19 ára, og hélt henni í nokkur ár. Ég lærði meira af kaþólsku en flestum stefnum sem ég hef kynnzt. En það er erfitt að mæla trúarþrek sitt eða trúaráhuga. Við hvað á að miða? Um nokkurt skeið eða nokkur misseri var ég að minnsta kosti kaþólskur trúvarnarmaður gagnvart vinum mínum, eins og kemur fram í mörgum bréfum sem ég skrifaði þeim. Þeir skildu þetta auðvitað ekki og fannst það hlægilegt, jafnvel bjálfalegt, að vera svo auðtrúa að turnast til kaþólsku. Á þessu tímabili skrifaði ég sæg af sendibréfum til svo ólíklegra manna sem þeirra Jóns Helgasonar og Einars Ólafs Sveinssonar til að sannfæra þá um að þetta væri sú eina og sanna trú. Þetta trúboð hefur enn ekki borið ávöxt; samt þakkar Einar Ólafur mér einlægt fyrir, að ég skyldi hafa gefið sér Imitatio Christi, í hvert skipti sem við hittumst.

Matthías: Þú segir á einum stað að annaðhvort munir þú deyja eða verða brjálaður.

Halldór: Það var nú ekki verið að klípa utan af neinu í þá daga, sveiflurnar voru stórar. En auðvitað deyr maður sem betur fer. Og brjálaður er ég víst áreiðanlega, a.m.k. nóg til heimabrúks.

Matthías: Þegar ég les þessi bréf, finnst mér einhvern veginn að þú hafir tilhneigingu í tvær áttir: á einum stað segirðu að þig langi til að krjúpa, á öðrum að þú hafir ekki haft meðaumkun með neinu nema sjálfum þér.

Halldór: Ég man nú ekki hvar þetta stendur, en efast ekki um að það sé rétt hermt hjá þér. Þegar ég var hjá munkum, var maður á hnjánum mikinn hluta sólarhringsins. Það heyrir til kaþólskri guðstignun að falla á kné við allan bænalestur og trúarlegar athafnir. Ég söng á saltara með munkum misserum saman sex tíma á dag.

Matthías: Heldurðu ekki, Halldór, að þú hafir verið mjög hræddur við dauðann á þessu tímabili? Mér finnst einhvern veginn að það megi lesa út úr skrifum þínum.

Halldór: Ég held unglingar séu hræddir við að deyja. Ég hélt ég mundi deyja, áður en ég yrði seytján ára og þyrfti þar af leiðandi að flýta mér að afreka hitt og annað áður. Ég er búinn að gleyma hvernig ég fékk þessa hugmynd. Hún hefur sjálfsagt komizt inn hjá mér fyrir einhverja yfirnáttúrlega vitrun. En því miður gekk það nú ekki eftir. Það er dálítið einkennilegt að þú skulir spyrja hvort ég hafi verið hræddur við dauðann. Ég ímynda mér að ég sé ekki lífhræddari en Pétur og Páll. Ég efast a.m.k. mjög um það, að ótti við dauða og tortímingu hafi hvatt mig sérstaklega til ritstarfa þegar fram í sótti.

Matthías: Kannski frægðarlöngun hafi ýtt undir þig? Ætlaðirðu ekki snemma að verða frægur?

Halldór: Það sem mig langaði framar öllu öðru var að vinna afrek í ritlist; ég ásetti mér að læra að skrifa góðan texta. Það út af fyrir sig má kalla löngun eftir frægð. En löngun eftir frægð er í raun og veru afskaplega ómerkileg löngun. Og ekki mjög þessleg að menn vinni nein stórvirki af slíkum hvötum; enginn skapar skáldverk sem er nokkurs virði af löngun eftir frægð einni saman. Frægð getur ekki orðið aðalatriði í lífi neins, hún er fylgifiskur verka þinna. Hún kemur af sjálfu sér ef menn búa eitthvað til sem aðrir hafa gaman af. En mig langaði að „bæta þjóðfélagið“ og gleðja annað fólk og kannski einnig veita því einhverja huggun í lífinu.

III. Heimssaga kotbóndans

Matthías: Bent hefur verið á, að setningar, sem þú skrifaðir ungur í bréfum til vina þinna, minni á lýsingar á Ólafi Kárasyni í Heimsljósi: þú segist þrýsta vitum þínum niður í grasið, niður í jörðina, „þaðan sem ég á smæð mína“, en lýsir svo Ólafi m.a. á þann hátt, að hann hafi lengi legið uppi á kálgarðsveggjum, þrýst andlitinu niður í grasið og grátið djúpum og innilegum sælugráti andspænis hinu óumræðilega. Reynsla þín verður hans reynsla.

Halldór: Inn í allar uppdiktaðar persónur, ekki sízt aðalpersónur, kemur innri og ytri reynsla höfundar sjálfs. Mér dettur ekki í hug að bera á móti því, að bæði Ólafur Kárason og nokkrir tugir af öðrum persónum í sögum mínum séu greinileg endurspeglun sjálfs mín. Í því sambandi má ekki láta sér sjást yfir Bjart í Sumarhúsum. Þetta er allt runnið úr sjálfsvitund höfundarins, á þar heima og er óaðskiljanlegt henni. Flaubert sagði um sjálfan sig viðvíkjandi maddömu Bovary, þeirri óviðjafnanlegu persónu úr einu af minnismerkjunum í bókmenntum Frakka á 19. öld: „Madame Bovary – það er ég!“ Þetta get ég einnig sagt um margar af mínum persónum. En það skýrir kannski ekki mjög mikið.

Matthías: Að hve miklu leyti kynntistu Bjarti sjálfum, meðan þú varst fyrir austan?

Halldór: Ef til vill alls ekki. Ef til vill hef ég bara kynnzt honum í sjálfum mér. Ég hef aldrei kynnzt neinum manni í veruleikanum sem væri líkur Bjarti. Ágizkanir manna um það, hvaðan Bjartur sé upprunninn, og sömuleiðis getgátur um samastað Bjarts er flest hugarburður manna. Bærinn Sumarhús á að hafa verið austur á Jökuldalsheiði og heita þar Veturhús. En það er misskilningur að Veturhús á Jökuldalsheiði séu fyrirmynd að umgerð um líf Bjarts í Sjálfstæðu fólki. Ég var alókunnugur í Veturhúsum; þó ég færi þar um á skíðum einn vetrardag, kynntist ég aldrei bóndanum sem bjó þar, né sá hann. Aftur á móti var fyrirmyndin, ef nokkur var, að þessu mannlífi í litla bænum, sem Sjálfstætt fólk getur um, vestan af fjörðum. Þegar ég var unglingur á ferð með vini mínum, séra Halldóri Kolbeins, þar vestur frá, var ég byrjaður að bera áhuga fyrir íslenzka kotbóndanum, og langaði til að skrifa um hann hetjusögu. Þá gaf ég öllum smáum kotum og íbúum þeirra sérstakar gætur. Ég tók meira að segja upp á því að verða eftir í svona kotum, þegar ég var með séra Halldóri í húsvitjunarferðum. Frumfyrirmyndin að Sumarhúsum var kot sem hét Sel í Múlasveit. Þar er kveikjan að Sjálfstæðu fólki. En kotin í Jökuldalsheiðinni styrktu þessa mynd mína.

Matthías: Einar Benediktsson skáld, er hann fyrirmyndin að sýslumanninum í Paradísarheimt, eins og sumir halda?

Halldór: Í Paradísarheimt kemur fyrir sýslumaður, lítilfjörleg aukapersóna, sem náttúrlega gæti verið Einar Benediktsson, eins og hver annar sýslumaður. En ég hafði engan kunnugleik af Einari Benediktssyni sem sýslumanni, þekkti hann bara sem gamalt skáld í Reykjavík. Þeir hafa ekki mikið álit á Einari Benediktssyni sem halda að þessi lítilfjörlega aukapersóna sé hann. Og þegar spurt er um Garðar Hólm get ég svarað: hann er holdi klædd hugleiðing mín um eðli frægðarinnar.

Matthías: Það er engin tilviljun að Brekkukotsannáll ber þetta nafn.

Halldór: Nei, það er ekki tilviljun. Þetta nafn er valið í samræmi við íslenzka aðferð að velja annálum heiti, t.a.m. Skarðsárannáll. Hann er ekki bók um Skarðsá, heldur rit, sem hefur orðið til á Skarðsá um veröldina.

Matthías: Kristján Karlsson segir að með Íslandsklukkunni hafi orðið þáttaskil í starfi þínu: Hann segir að Íslandsklukkan eigi rætur í gríska harmleiknum, Íslendingasögum, fornsögum. Hún sé drama. Hún sé flóknara og strangara verk en fyrri sögur þínar.

Halldór: Kristján hefur sjónarmið sem ég hafði ekki hugsað út í áður. Þetta er sjálfsagt rétt hjá honum. En þegar byrjað er á skáldsögu er höfundurinn ekki að hugsa um hvort hann eigi núna að hafa hana eins og grískt drama eða fornsögurnar, eða segi við sjálfan sig: Nú ætla ég að gera einhverja afskaplega geníala þrískiptingu, og því um líkt. En svona eiga bókmenntafræðingar einmitt að hugsa og skrifa um bækur, það er þeirra hlutverk; líta á verkin af sjónarhóli bókmenntafræðinnar. Þá verður bókmenntagagnrýnin líka það sem hún á að vera: sérstök listgrein innan bókmenntanna. Íslandsklukkan er ekki sprottin úr vinnubrögðum sem voru í tízku á uppvaxtardögum mínum þegar sálfræðilega skáldsagan og sú þjóðfélagslega sátu í fyrirrúmi. Slík vinnubrögð hneigðust til orðafjölda og langdreginna lýsinga. Höfundurinn velti sér upp úr einhverju feiknalegu skrafelsi, sem reyndar stundum gat orðið skemmtilegt; þó oftar hið gagnstæða. Ef fólk hefur ekki tíma til að liggja yfir bókum, er svona stíll til lítils. Menn nenna ekki að bíða eftir því sem höfundarnir ætla að segja. Ef saga vellur öll út í náttúru-, veður- og sálarlífslýsingum, ellegar blaðagreinum og ritgerðum um allan skrambann, er hætt við að góðfús lesari verði að leggjast á spítala til að komast yfir að lesa þetta. Mig minnir að Snorri hafi í allri Heimskringlu enga sálarlífslýsingu, og aðeins eina veðurlýsingu: „Logn var veðurs.“ Þegar ég skrifaði Íslandsklukkuna var ég kominn á þá skoðun, að nauðsynlegt væri að strika sem mest út, og sá, þegar ég leit í mínar gömlu bækur, að þar var víða hægt að strika út heilar og hálfar setningar, stundum aðra hverja setningu, jafnvel heila kapítula. Íslandsklukkan er dregin saman í forminu. Óþarfa orðaskak er lagt niður, aldrei sagt hvað maðurinn hugsar, því það verður óendanlegt ef á að lýsa því út í æsar hvað allir hugsa og hlýtur að enda í óskapnaði sem er andstæður sögu; úr því verður einna helzt „nouveau roman“. Í Íslandsklukkunni reyni ég að segja með sem fæstum orðum, hvernig persónan kemur fram í hverju atviki, hvað hún talar og hvernig hún svarar heiminum með hegðan sinni. Ég vona að það hafi ekki orðið til þess að persónurnar í Íslandsklukkunni séu lakar dregnar upp en í bókum sem ástunda meiri mærð.

Matthías: Jafnvel Heimsljós er af allt öðrum toga spunnið en Íslandsklukkan. Er þetta rétt?

Halldór: Heimsljós er ljóðræn saga og sums staðar fer hún á kaf í landslagsmyndum, sálarlífslýsingum og veðurfarsspekúlasjónum.

Matthías: En svo við tökum aftur upp þráðinn, þar sem fyrr var frá horfið, þá skrifaðir þú Íslandsklukkuna á Eyrarbakka og að mestu leyti að næturlagi. Og Eyrbekkingar vildu, að sögn, ekki umgangast þig meira en í hófi. Var það vegna þess að þeir héldu kannski að þú værir að skrifa um þá?

Halldór: Ég hef aldrei kvartað yfir Eyrbekkingum. Ég sinnti þeim að vísu ekki mikið, hafði um annað að hugsa í þessu indæla þorpi. Ég var kominn þangað til að vinna. Ég fór austur á Eyrarbakka þegar verið var að reisa Gljúfrastein, svo ég gæti verið í friði fyrir smiðum, sem alltaf voru að spyrja mig ráða. Ég var vondur að byggja hús og það var þýðingarlaust að spyrja mig. Á Eyrarbakka skrifaði ég þá bók, sem heitir Eldur í Kaupinhafn, í íbúð Guðmundar Daníelssonar sem þá var í Ameríku. Þetta var heldur ósögulegt sumar. Ég vann seinni partinn á daginn og fram yfir miðnætti. Þetta var í júní og júlí. Ég fékk stundum að borða hjá frú Ragnhildi í Háteigi, sem átti húsið. Oft fór ég í langar gönguferðir út með sjó, tíndi söl og þurrkaði þau á bæjarhellunni og tuggði þau meðan ég var að vinna. Eða ég fór í göngu inn til landsins, stundum fram undir morgun, aleinn og allir sofandi í Flóanum. Upp úr tíu leit til mín gömul kona úr litlu húsi rétt hjá. Hún hafði þann starfa með höndum að kveikja upp í ofninum. Hún var eins og konan í kvæðinu hjá Davíð Stefánssyni. Hún kynti upp með kolum og ég fór ekki á fætur fyrr en farið var að loga. Þegar ég fór af Eyrarbakka, átti ég eftir einn kolapoka sem ég gaf konunni í verðlaun fyrir góða frammistöðu. Ég hef sjaldan eða aldrei fengið aðrar eins guðbænir fyrir mér og mínum um tíma og eilífð, eins og fyrir þennan kolapoka. Ég ímynda mér að þessar bænir dragi mig langleiðina til himnaríkis.

1. hluti | 2. hluti | 3. hluti