Landbúnaðarmál

Vettvángur dagsins 1942

Íslenskur landbúnaður var Halldóri Laxness löngum hugleikinn. Hann skrifaði um íslenska kotbóndann ýmis skáldverk en fjallaði ekki síður um hlutskipti hans í ritgerðum. Árið 1942 ritaði hann grein sem nefnist „Landbúnaðarmál“ og prentuð var í Vettvángi dagsins. Á þessum tíma boðaði Halldór sigur sósíalismans þar sem samyrkjubú voru takmarkið í landbúnaði. Hin pólitíska sýn breytti því þó ekki að hann lofaði einkaframtak Thors Jensen sem byggði upp mikið kúabýli á Korpúlfsstöðum en varð síðan að leggja niður búrekstur þar vegna ákvarðana stjórnmálamanna.

Í grein sinni segir Halldór: „Á síðari árum má sjá þeim skoðunum mjög haldið fram í dagblöðum sumra stjórnmálaflokka, að landbúnaðarstörf á Íslandi útheimti meira siðferðisþrek en önnur störf manna. Þessar kenníngar um „hetjuskap“, „sjálfsafneitun“ og „skapfestu“ og aðrar dygðir í sambandi við landbúnað eru ævinlega, einsog allur hálf-yfirskilvitlegur málaflutníngur, fram bornar í viðkvæmum, altaðþví grátklökkum tóni. Maður skyldi næstum halda, að þetta væri guðsorð. ... Samhliða skrifunum um siðferðislegt ágæti landbúnaðarstarfa birta dagblöðin dapurlegar greinar um þá staðreynd, að vinnuaflið ber sem óðast burt frá þessari atvinnugrein til annarra atvinnugreina. ... Þeir bændur eru varla til á Íslandi, sem grípa ekki fegnir fyrsta tækifæri til að hætta búrekstri, ef þeir þykjast geta séð sér farborða í kaupstað, jafnvel þótt sé með lítilmótlegum störfum. Sannleikurinn er sá, að sú daglaunavinna er varla til í kaupstöðum, sem gefur ekki meira í aðra hönd en búrekstur á þeim grundvelli sem íslenskur landbúnaður er stundaður. Það hefur einga stoð, þótt erindrekar ákveðinna stjórnmálaflokka reyni að telja mönnum trú um, að það sé siðferðislega fagurt að reka bú með lítilli eftirtekju og jafnvel tapi, eða vinna fyrir lágu kaupi sem landbúnaðarverkamaður, en siðferðislega ljótt að vinna fyrir sæmilegum daglaunum í öðrum atvinnugreinum. Hið hagræna lögmál er sterkara en allur siðferðislegur fagurgali í stjórnmálaerindrekum. Vinnuaflið leitar þángað, sem hærra er boðið í það. Landbúnaður á Íslandi er þannig stundaður, að það eru áhöld um fyrir hvors þörfum hann sér miður, framleiðendanna eða markaðarins.“

Halldór heldur því fram í grein sinni að afurðirnar séu heldur klénar og afrakstur bænda lítill. Hann byggist upp á einyrkjabúum - fjölskyldubýlum - sem engan veginn geti staðið undir sér. Stórbú sem hafi verið sett á stofn, t.d. Korpúlfsstaðir, hafi hins vegar skilað góðum arði en verið drepin með löggjöf: „Mein íslenska sveitabúskaparins er það, að hann er alment rekinn á grundvelli sem lítið á skylt við landbúnað og enn minna við iðjurekstur í nútímaskilníngi og getur í rauninni varla kallast atvinnuvegur í sannri merkíngu þess orðs. Ef ætti að flokka hann, heyrir hann eftilvill helst undir sport einsog þolhlaup eða í besta falli stángaveiði. ... Baráttan fyrir kotabúskap er annars þeimmun andkannalegra fyrirbrigði sem slíkur búskapur hefur notið minni virðíngar á Íslandi en annar búskapur fyr og síðar. Einyrkjahlutskiftið hefur ævinlega verið talið nokkurskonar óblessun, sem einkum hafi uppáfallið þá tegund manna, sem vitsmunir og skapferli meinuðu samvistir við annað fólk. Það hefur ævinlega verið mjótt á mununum milli kotúngsins og útilegumannsins.“

Undir lok greinarinnar ritar síðan Halldór Laxness: „Það sem vakir fyrir höfundi þessarar greinar er ekki fyrst og fremst sósíalistiskur rekstur landbúnaðar, því slíkt er enn ekki tímabært, þótt svo þurfi e.t.v. ekki að vera ofleingi úr þessu, heldur endurbætur á búrekstri innan þess auðvaldsþjóðskipulags sem við íslendíngar búum við, til þess að bæta úr nauðsyn, sem tveim höfuðaðilum er jafnbrýn í svip, neytendum og framleiðendum. Hinsvegar dettur mér ekki í hug að efast um, að framtíðarskipan landbúnaðar er samyrkjubúskapur, fremuren mér dettur í hug að efast um, að framtíðarþjóðskipulagið er sósíalismi, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur í öllum siðuðum löndum, jafnvel í íhaldslandi einsog Bretlandi; og sá tími kemur fyr en varir.“