Á gamlársdag árið 1937 sendir Halldór Laxness Jóni Helgasyni prófessor í Kaupmannahöfn bréf frá Tíflis í Sovétríkjunum þar sem hann lýsir „níræðum dólgi" er varð á leið hans skömmu áður.
Í bréfinu skrifar skáldið:
„Kæri vin,
þökk fyrir ágætt bréf til Moskva á dögunum. Af mér er það helst að segja, að ég hef nú í undanfarna fimm daga verið hér á rithöfundamóti í Tíflis, og hef í fimm-sex klukkutíma á dag hlustað á menn halda ræður á tabasrönsku, kúmiksku, jakútsku, tadsjisku, lesginsku, mongólsku, nógaisku, kabadisnku, karakalpöksku, úsbejkisku, tejtsjensku, asjetínsku, kasöksku, armensku, löksku, kalamúkisku, íngúsjku, kareisku, adygeisku, assýrisku, töbsku, baskírsku, slóvensku, tatarisku, maratisku, míngrelsku, annamítsku, pendsjabisku, úrdisku, tsjúrki, búghörsku, úígúrsku, úkranisku, grúsínsku og aserbadsönsku. Sjálfur hélt ég ræðu á einu þessara mála, hverju er mér ekki fyllilega ljóst, og var ræðan síðan prentuð hér í dagblöðum með letri sem ég hef aldrei séð fyr. Hér var einn níræður dólgur úr landi sem kvað vera á stærð við Vesturevrópu útskagalausa, og heitir Kasakstan. Þetta eru fyrverandi hirðíngjar og reiðmenn, hann var í reiðstígvélum, slikisloppi og lambskinshúfu ógurlegri. Hann skjögraði upp á pallinn og lék á gítar sinn einskonar undirspil við vind steppunnar og saung þartil kvæði eftir sjálfan sig, mér fanst það væri í fyrsta sinn sem ég sæi skáld. Ekki kunni hann að lesa eða skrifa, en ljóð hans voru lögð út fyrir mér, og fanst mér þau alveg óvenjulega snildarleg, ég man sérstaklega eftir þessu síendurtekna viðlagi: Hundrað ár á hestbaki eru skjótt riðin hjá.
Ég er í dag að leggja af stað áleiðis til lýðveldisins Abkhazíu, sem er súbtrópiskt, og hægt að taka sjóböð að vetrarlagi. Hér er heiður himinn á degi hverjum hiti og sól.
Kærar kveðjur, Halldór"
Síðar birti Halldór Laxness kvæðið Dsjambúl Kasakaskáld í Kvæðakveri með þeim skýringum að hann hefði samið þetta óbundna ljóð í Tíflis jólin 1937. Þar hefði hann stuðst við óglögga munnlega lýsingu túlks á kvæði sem Djsambúl skáld flutti á tungu Kasaka. „Mér er nú fyrirmunað að gera mér þess grein, hvað í þessu er frá mér og hvað frá öðrum." Í Skáldatíma sem út kom 1963 vék hann aftur að þessum „níræða dólgi" í kafla sem nefnist „Höfuðskáld Ráðstjórnarríkjanna undir Stalín". Þar segir hann: „Lofdýrð Djsambúls um Kremlbóndann fer lángt frammúr því sem hjá okkur á Norðurlöndum var kallað háðúngarlof, „skammhrós", og sá maður talinn réttdræpur sem slíkt fremdi við höfðíngja sinn." Í síðustu útgáfu Kvæðakvers frá hendi Halldórs sem út kom árið 1992 breytti hann skýringum sínum við kvæðið og skaut inn eftirfarandi setningu um kasakaskáldið: „Haft er fyrir satt að Stalín einn saman hafi búið hann til og verður það sem sannara reynist að duga hér um sinn."