Þegar Halldór Laxness var staddur í Los Angeles árið 1928 setti hann saman kafla í Alþýðubókina sem nefnist „Um Jónas Hallgrímsson".
Þar segir hann meðal annars:
„Nú eru bráðum liðin hundrað ár síðan þessi útigángsmaður var á stjáki um flórhellurnar í Kaupinhöfn stúrinn og þrjóskulegur, einsog títt er um flibbalausa menn á biluðum skóm. Glóðin sem brann í augum hans lýsti fremur söknuði en von, enda týndist hann einn góðan veðurdag oní danskan herrans urtagarð og hefur ekki fundist síðan. Meðan hann var á mölinni setti hann saman fáeina kviðlínga um það sem hann elskaði mest, smávini sína blómin á íslandi, hreiðurbúana og hina margvíslegu fegurð sumardagsins heima, ásamt stúlku sem hann hafði kynst fyrir laungu. Hann var úngur maður, en gekk þó ekki heill til skógar, óskaði sér þess oft að hann væri „orðinn nýr". Því má síst gleyma að í sögunni um vanheilindi hans er falin harmsaga miklu dýpri en oss grunaði í bernsku, meðan ljóð hans og fögnuður sumardagsins léku á einn streing í brjóstum vorum. Hann var sem sagt flibbalaus, skólítill og auðnulaus, og einsog hann hafði spáð gleymdu menn hvar gröfin hans var jafnskjótt og halt var komið í kríng; þar sást ekki framar höfuðlútur ástvinur eftir að rekunum var kastað. Kanski má finna vinsamlegar skýríngar þess að menn skuli ekki hafa tekið ástfóstri við gröf hans. Það hefur sem sé ævinlega látið sem öfugmæli í eyrum íslenskra barna að honum skyldi nokkurntíma hafa verið búin gröf; hitt miklu trúlegra að hann hafi ekið glæstum vagni inn í hnúkafjöllin. Sannleikurinn er sá að hann dó ekki, heldur hefur haldið áfram að lifa í brjóstum vorum. Það er skoðun mín, að vér íslendíngar höfum aldrei átt betra skáld en Jónas Hallgrímsson."