Árið 1935 ritaði Halldór Laxness grein sem nefnist „Um þjóðlega tónlist" og var síðar prentuð í Dagleið á fjöllum. Þar skrifar skáldið um Jón Leifs og þær tilraunir sem hann var að gera með íslenskan þjóðlagaarf.
„Öll fullkomin verk bera þjóðerni mannsins í sér; það birtist í þeim líf og viðleitni heillar þjóðar. Í tónlistinni er ekki hægt að benda á neitt íslenskt andlit, - nema Jón Leifs, sem er í mótun. Ég tel eingan vafa á því, að sum verk þessa einkennilega gefna, viljasterka norðlendíngs eru það upprunalegasta í tilraunum norrænnar sköpunar íslenskrar. Íslenskir tónsmiðir hafa flestir verið heimilislausir förumenn frammá þennan dag, truflaðir í augnaráðinu einsog menn sem hafa verið í stríði og tapað minninu og gleymt hverjir þeir eru eða hvert sé land þeirra: Þeir hafa ekki uppgötvað sitt eigið land. Flestir hafa verið undirokaðir af dönskum skilníngi á þýskri rómantík. ... Það snjalla í fari Jóns Leifs er þetta: hann hefur heyrt íslenska tóna. Það er enn einu sinni sagan um kólumbusareggið. Hann hefur fundið íslensk tónstef, sem við þekkjum öll, því þau leynast í okkar eigin brjóstum, hvers og eins; hann hefur ennfremur gert merkilegar tilraunir að byggja yfir þau stílhrein listaverk í stóru sniði, með heimsbrag. Hvort honum, eða íslenskum tónsmiðum öðrum, tekst að skapa Íslandi hlutgeingi með tónlist annarra þjóða, það fer eftir því, hvort þeir hafa vit, lærdóm og mentun til að byggja á grundvelli þeirra lagboða, sem þjóðin hefur skapað, gætt sínum einkennum, gert að sínu, í lífsstríði aldanna."